Fara í efni

FINNST ÞÉR RIGNINGIN GÓÐ?


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 18/19.06.22.
Skyldi tón­list­ar­mann­in­um Helga Björns­syni alltaf finn­ast rign­ing vera góð? Maður gæti freist­ast til að halda það því svo oft syng­ur hann lof­gjörð til rign­ing­ar­inn­ar. Og við sem hlust­um hljót­um að vera far­in að gera því skóna að þetta sé yf­ir­veguð niðurstaða, að rign­ing sé hrein­lega eft­ir­sókn­ar­verð og góð að mati Helga Björns, en vel að merkja að hans mati. Þar kem­ur hið hug­læga til sög­unn­ar.

Mér hef­ur alltaf þótt landa­mæri hins hlut­læga og hins hug­læga vera áhuga­verð enda ekki alltaf auðvelt að koma auga á þau. Stund­um er það þó þannig.

Eft­ir mikla þurrkatíð fagn­ar bónd­inn væt­unni, finnst rign­ing­in góð, en eft­ir langt rign­inga­tíma­bil vill hann á hinn bóg­inn fá þurrk. Rign­ing er með öðrum orðum góð þegar gróður­lendi skræln­ar og grasið hætt­ir að vaxa. Það eru óve­fengj­an­leg blá­köld sann­indi eins hlut­læg og verða má. En ekki bíta þau sann­indi á hljóm­sveit Helga Björns­son­ar, SS­Sól, sem kyrj­ar óðinn til úr­kom­unn­ar óháð öll­um heyskap.

Rign­ing­in er þó ekki til­efni þessa hug­renn­ingaflakks sem ég leyfi mér í þess­um pistli held­ur allsér­stæð afstaða lít­ils leik­skóla­barns aust­ur í Jap­an. Þetta barn var reynd­ar að öll­um lík­ind­um aldrei til nema í skáld­sögu. Sú skáld­saga heit­ir Kjör­búðar­kon­an og er eft­ir Sayöku Murata og er ný­kom­in út á ís­lensku hjá Ang­ú­stúru­út­gáf­unni.

Þetta skáldaða leik­skóla­barn átti síðar á lífs­leiðinni eft­ir að starfa í kjör­búð sem skýr­ir titil bók­ar­inn­ar. Ekki var barnið eins og önn­ur börn. Fjarri lagi. Glæp­ur þess, ef svo má að orði kom­ast, var sá að skynja ekki hið hug­læga í til­ver­unni. Þetta birt­ist les­and­an­um fyrst þegar leik­skóla­börn­in finna lít­inn stofu­fugl sem greini­lega hafði verið snú­inn úr hálsliðnum og skil­inn þannig eft­ir á víðavangi. Hví­lík­ur harm­ur. Og nú vildu börn­in jarða fugl­inn með til­hlýðilegri virðingu og hlut­tekn­ingu. Öll vildu þau þetta nema kjör­búðar­kon­an til­von­andi.

Hún stakk upp á því að fugl­inn yrði mat­reidd­ur og hafði á orði að pabba sín­um þætti gott fugla­kjöt og hvers vegna ekki borða kjötið af þess­um fugli? Alla hryllti við, bæði skóla­börn­in og for­eldra þeirra sem höfðu sam­ein­ast um að tína blóm á leiði litla fugls­ins því það væri til marks um virðingu fyr­ir hverf­ulu líf­rík­inu að setja „blómalík“ á leiðið.

Þarna mætt­ust hinn hlut­lægi heim­ur sem legg­ur sér reglu­lega fugla­kjöt til munns án þess að blikna og hinn hug­lægi sem syrg­ir ótíma­bær­an dauða. Enda var leik­skóla­barnið okk­ar skil­greint sem af­brigðilegt og til­finn­ingasnautt. Nokkuð til í því þykir okk­ur ef­laust flest­um. Ef eitt­hvað er þurfi meiri til­finn­ing­ar og meiri viðkvæmni inn í til­ver­una. Stund­um þarf að vera hægt að horfa fram­hjá mót­sögn­um lífs­ins og beina sjón­um ein­vörðungu að því sem gott er. Heim­ur án kær­leika sé varla góður íverustaður. Hann sé frá­hrind­andi og kald­ur.

Vel á minnst. Hið hug­læga get­ur líka haft áhrif á hita­stigið eða öllu held­ur hvernig við skynj­um það. Því hef­ur verið haldið fram að á Íslandi ger­ist það stund­um að hver cel­síus­gráða verði á við tvær í öðrum lönd­um. Vegna þess að sól­in sé heit­ari? Hugs­an­lega hef­ur hreint loft eitt­hvað að segja. Nei, ekki er það þó meg­in­skýr­ing­in á þess­um hitamun. Skýr­ing­in er sú að á góðum sum­ar­degi fagn­ar þjóð, sem að jafnaði býr við vá­lynd veður, sumri og sól af slík­um inni­leg­heit­um að með henni stíg­ur hita­stigið hraðar en ger­ist með öðrum þjóðum. Þarna er með öðrum orðum hin hug­læga vídd að verki.

Þá er það aft­ur að SS­Sól sem syng­ur rign­ing­unni til dýrðar. Og það óháð hags­mun­um í heyskap.

Get­ur það verið að Helgi Björns­son sé ein­fald­lega að rétta úr sér, bjóða til­ver­unni birg­inn og segja að sér finn­ist lífið gott hvað sem líður skini og skúr­um?

Öll skilj­um við þetta heróp, að láta aldrei bug­ast; að hvernig sem viðrar á okk­ur í líf­inu þá stönd­um við alltaf keik og segj­um með bros á vör að okk­ur finn­ist rign­ing­in góð.

Að því gefnu að vísu að hey sé komið í hús.