FINNST ÞÉR RIGNINGIN GÓÐ?
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 18/19.06.22.
Skyldi tónlistarmanninum Helga Björnssyni alltaf finnast rigning vera góð? Maður gæti freistast til að halda það því svo oft syngur hann lofgjörð til rigningarinnar. Og við sem hlustum hljótum að vera farin að gera því skóna að þetta sé yfirveguð niðurstaða, að rigning sé hreinlega eftirsóknarverð og góð að mati Helga Björns, en vel að merkja að hans mati. Þar kemur hið huglæga til sögunnar.
Mér hefur alltaf þótt landamæri hins hlutlæga og hins huglæga vera áhugaverð enda ekki alltaf auðvelt að koma auga á þau. Stundum er það þó þannig.
Eftir mikla þurrkatíð fagnar bóndinn vætunni, finnst rigningin góð, en eftir langt rigningatímabil vill hann á hinn bóginn fá þurrk. Rigning er með öðrum orðum góð þegar gróðurlendi skrælnar og grasið hættir að vaxa. Það eru óvefengjanleg bláköld sannindi eins hlutlæg og verða má. En ekki bíta þau sannindi á hljómsveit Helga Björnssonar, SSSól, sem kyrjar óðinn til úrkomunnar óháð öllum heyskap.
Rigningin er þó ekki tilefni þessa hugrenningaflakks sem ég leyfi mér í þessum pistli heldur allsérstæð afstaða lítils leikskólabarns austur í Japan. Þetta barn var reyndar að öllum líkindum aldrei til nema í skáldsögu. Sú skáldsaga heitir Kjörbúðarkonan og er eftir Sayöku Murata og er nýkomin út á íslensku hjá Angústúruútgáfunni.
Þetta skáldaða leikskólabarn átti síðar á lífsleiðinni eftir að starfa í kjörbúð sem skýrir titil bókarinnar. Ekki var barnið eins og önnur börn. Fjarri lagi. Glæpur þess, ef svo má að orði komast, var sá að skynja ekki hið huglæga í tilverunni. Þetta birtist lesandanum fyrst þegar leikskólabörnin finna lítinn stofufugl sem greinilega hafði verið snúinn úr hálsliðnum og skilinn þannig eftir á víðavangi. Hvílíkur harmur. Og nú vildu börnin jarða fuglinn með tilhlýðilegri virðingu og hluttekningu. Öll vildu þau þetta nema kjörbúðarkonan tilvonandi.
Hún stakk upp á því að fuglinn yrði matreiddur og hafði á orði að pabba sínum þætti gott fuglakjöt og hvers vegna ekki borða kjötið af þessum fugli? Alla hryllti við, bæði skólabörnin og foreldra þeirra sem höfðu sameinast um að tína blóm á leiði litla fuglsins því það væri til marks um virðingu fyrir hverfulu lífríkinu að setja „blómalík“ á leiðið.
Þarna mættust hinn hlutlægi heimur sem leggur sér reglulega fuglakjöt til munns án þess að blikna og hinn huglægi sem syrgir ótímabæran dauða. Enda var leikskólabarnið okkar skilgreint sem afbrigðilegt og tilfinningasnautt. Nokkuð til í því þykir okkur eflaust flestum. Ef eitthvað er þurfi meiri tilfinningar og meiri viðkvæmni inn í tilveruna. Stundum þarf að vera hægt að horfa framhjá mótsögnum lífsins og beina sjónum einvörðungu að því sem gott er. Heimur án kærleika sé varla góður íverustaður. Hann sé fráhrindandi og kaldur.
Vel á minnst. Hið huglæga getur líka haft áhrif á hitastigið eða öllu heldur hvernig við skynjum það. Því hefur verið haldið fram að á Íslandi gerist það stundum að hver celsíusgráða verði á við tvær í öðrum löndum. Vegna þess að sólin sé heitari? Hugsanlega hefur hreint loft eitthvað að segja. Nei, ekki er það þó meginskýringin á þessum hitamun. Skýringin er sú að á góðum sumardegi fagnar þjóð, sem að jafnaði býr við válynd veður, sumri og sól af slíkum innilegheitum að með henni stígur hitastigið hraðar en gerist með öðrum þjóðum. Þarna er með öðrum orðum hin huglæga vídd að verki.
Þá er það aftur að SSSól sem syngur rigningunni til dýrðar. Og það óháð hagsmunum í heyskap.
Getur það verið að Helgi Björnsson sé einfaldlega að rétta úr sér, bjóða tilverunni birginn og segja að sér finnist lífið gott hvað sem líður skini og skúrum?
Öll skiljum við þetta heróp, að láta aldrei bugast; að hvernig sem viðrar á okkur í lífinu þá stöndum við alltaf keik og segjum með bros á vör að okkur finnist rigningin góð.
Að því gefnu að vísu að hey sé komið í hús.