Fara í efni

HERSHÖFÐ-INGJAR NATO VILJA BEITA KJARNORKU-VOPNUM AÐ FYRRA BRAGÐI

Nýjustu fréttir af vettvangi Atlantshafsbandalagsins eru þær að nokkrir af valdamestu hershöfðingjum bandalagsins boða beitingu kjarnorkuvopna til að „uppræta hryðjuverk". Hershöfðingjarnir ætlast til þess að þessi nýja stefna verði samþykkt á NATO-þingi í apríl. Þar verða fulltrúar íslenskra stjórnvalda, og þar fá Íslendingar tækifæri til að mótmæla stefnu sem þessari.
Að vísu hefur NATO aldrei útilokað að beita kjarnorkuvopn að fyrra bragði, þótt þetta sé líklega í fyrsta skipti í áraraðir sem valdamiklir menn innan bandalagsins vilja beinlínis gera það hluta af opinberri stefnu bandalagsins. Réttast væri auðvitað að hin nýja kjarnorkustefna hershöfðingjanna yrði tilefni þess að endurskoða þessa glórulausu afstöðu Atlantshafsbandalagsins.
Því miður virtist formaður utanríkisnefndar Alþingis, Bjarni Benediktsson, útiloka slíkt þegar hann var spurður út í það í þinginu. Hann hafði engar áhyggjur af kjarnorkuhvatningu hershöfðingjanna, en tók þess í stað undir áhyggjur hershöfðingjanna af „þeirri ógn sem vestrænum ríkjum stafar af hryðjuverkum, skipulagðri glæpastarfsemi og mögulegri útbreiðslu gereyðingarvopna." Ekki er hægt að skilja orð hans öðruvísi en svo að honum finnist ekki útilokað að beita kjarnorkuvopnum í þessum tilgangi.
Hvenær ætla sjálfstæðismenn að átta sig á því að helsta ógnin við frið í þessum heimi er ekki hryðjuverk fátækustu þjóða heims heldur gereyðingarvopnin sem nú þegar eru til staðar í okkar eigin vopnabúri á Vesturlöndum?

Finnur Dellsén