Fara í efni

FITUSNAUÐ FRAMTÍÐ SIGURÐAR KÁRA

Hún er sorglega mögur sú framtíðarsýn sem Sigurður Kári Kristjánsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins dregur upp í grein í Mbl í dag. 
Ef þetta er það besta sem Sjálfstæðisflokkurinn getur boðið - þá hefur bæst við enn ein ástæða fyrir flokkinn til þess að víkja. 
Þessi grein ber þess augljós merki að Sigurður Kári og félagar hans hafa ekkert lært af þeirri kreppu sem flokkur þeirra hefur komið okkur í.
Sigurður telur að fyrir liggi að þjóðin þurfi að bera þyngri "byrðar" en áður. Hann huggar okkur með því að þessar byrðar munum við ekki þurfa að bera ein, nei, "ríkið og sveitarfélögin þurfa ekki síður að leggja sitt af mörkum". Af skarpskyggni sinni minnir Sigurður á að:
Þó svo að halda megi því fram með góðum rökum að ýmisr aðilar hafi gengið of hratt um gleðinnar dyr í góðærinu þá eru hvorki ríki né sveitarfélög saklaus af því að hafa tekið þátt í gleðinni".
Þá vitum við það. 
"Gleðin" var einmitt partí sem Sigurður og flokksbræður hans buðu til í gestgjafatíð Davíðs Oddssonar. Það væri því fróðlegt að fá nánari skýringar á því hverjir þessir "ýmsir" eru að mati Sigurðar. Er hann hér að vísa til óráðsíu "almennings" sem lét það eftir sér að fá sér flatskjá - og er að mati Björns Inga Hrafnssonar ein helsta ástæða þessa hvernig komið er? Er hann að vísa til utanlandsferða og dekurtúra ráðamanna, t.d. Þorgerðar Katrínar? Er hann að vísa til ofurlauna Seðlabankastjóra,  eftirlaunakjara þingmanna?
Hver  voru afglöp ríkisins í partíinu að mati Sigurðar?
Felast þau afglöp ekki fyrst og fremst í því að partíið var eftirlitslaust? Var það ekki gestgjafinn (flokkur Sigurðar) sem sá til þess að  búið var að afnema allar umgengnisreglur og að gestirnir höfðu frjálsan aðgang að eignum okkar og gátu stolið því sem ekki hafði þegar verið afhent vinum  einkavæðingarnefndar á silfurfati.
Við þessu hefur Sigurður engin svör. Hann, eins og Geir Hilmar Haarde,  sem enn er forsætisráðherra, vill ekki eyða tímanum í að benda á fleiri sökudólga en  hina "ýmsu".
En vandinn að mati Sigurðar Kára er  jú að ríkið hafi  "þanist út", ráðist hafi verið í ýmis "kostnaðarsöm gæluverkefni" og "lúxusinn þarf að setja á ís".  Hér er stjórnarþingmaður að lýsa gjörðum eigin flokks! Þetta er fróðlegt.
En hvað er þá til ráða að mati hins unga og framsýna þingmanns þess flokks sem verið hefur við völd mest allan lýðveldistímann?
Jú það er að "draga verulega úr ríkisútgjöldum á flestum eða öllum sviðum" - það næstum hlakkar í piltinum þegar hann tínir til það sem honum finnst áhugaverðast í niðurskurðarpakkanum, m.a. launakjör og önnur réttindi opinberra starfsmanna, eða eins og Sigurður einn getur komið orðum að hlutunum; "að skera alla þá fitu sem fyrirfinnst í ríkisrekstrinum"!
Samhliða niðurskurði vill Sigurður Kári efla erlendar fjárfestingar í landinu......"m.a. með því að nýta þær aulindir landsins sem í dag standa ónýttar". Hvaða auðlindir er Sigurður að tala um hér? Eru það Þjórsárverin, Þjórsá og aðrar náttúruperlur sem standa "ónýttar" að hans mati? Hvaða erlendu fjárfesta vill hann fá til landsins? Rio Tinto? Bectel? Alcan?  - því miður - en sem betur fer fyrir okkur eru þessi fyrirtæki á vonarvöl og því ekki aflögufær um fé til fjárfestinga. Er hann kannski að vísa til Bjarna Ármannssonar - hann er víst einn fárra sem "á" skotsilfur aflögu núna.
Af grein Sigurðar Kára má sjá að hann hefur ekki, frekar en aðrir reglubræður hinnar frjálsu markaðshyggju, lært nokkurn skapaðan hlut.
Hann er tilbúinn í næstu umferð sem á að vera alveg eins! Hann ætlar  að vera áfram á stuttbuxunum einum fata!
Kristófer