Fara í efni

Fjallað um World Social Forum

Nýlokið er í Indlandi World Social Forum.  Einar Ólafsson rithöfundur fjallar um þessa samkomu á heimasíðu sinni og er ástæða til að vekja athygli á umfjöllun hans og reyndar einnig heimsíðu Einars sem er einkar athygliverð. Netslóðina er að finna hér að neðan. Einar Ólafsson segir þar meðal annars um World Social forum:  "Þessi ráðstefna er raunar engin ein ráðstefna heldur mörg hundruð ráðstefnur, fundir og samkomur til að ræða þann vanda sem steðjar að alþýðu heimsins á tímum hnattvæðingar, óhefts kapítalisma, heimsvaldastefnu, hernaðarhyggju, arðráns og umhverfisspjalla. Þessar ráðstefnur voru upphaflega fyrst og fremst sóttar af liðsmönnum samtaka sem hafa haft sig í frammi gegn hinni kapítalísku hnattvæðingu en þrátt fyrir tómlæti fjölmiðla hafa æ fleiri áhrifamenn, sem ekki hafa verið þekktir fyrir að standa í götumótmælum, látið sig þessar ráðstefnur varða. Meðal hundraða manna sem fluttu framsögur eða tóku þátt í pallborðsumræðum má nefna eftirtalda ef einhverjir kannast við nöfnin: Shirin Ebadi, Arundhati Roy, Ahmed Ben Bella, Mustafa Barghouti, Mary Robinson, Vandana Shiva, Fausto Bertinotti, Joseph Stiglitz, Walden Bello, George Monbit, Rigoberta Menchu Tum, Eric Toussaint, Winnie Mandela, Ramsey Clark og meira að segja Paul Nyrup Rasmussen. Sum þessara nafna hafa vissulega orðið til þess að ýmsir hinna róttækari hafa óttast að bitið sé að fara úr WSF. Það þarf þó ekki að vera."

Sjá meira:

http://notendur.centrum.is/~einarol/