Fara í efni

FJALLAGRÖS OG SAUÐSKINNSSKÓR

Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, tók sig vel út í ræðustól á málþingi sem haldið var í dag undir yfirskriftinni FJALLAGRÖS OG SAUÐSKINNSSKÓR  en það fór fram  í Straumi í Hafnarfirði. Á málþinginu var sjónum einkum beint að nýsköpun í atvinnurekstri. Sveinn flutti mjög fróðlegt erindi. Hann varði nokkrum tíma í skilgreiningar á hugtökum. Sagði t.d. að fólk tengdi stundum sprotafyrirtæki stærð og umfangi starfseminnar. Það væri á misskilningi byggt. Um væri að ræða að viðkomandi fyrirtæki væri að minnsta kosti að tíunda hluta veltunnar byggt á rannsókna- og þróunarverkefni. Sveini varð tíðrætt um verðmætasköpun og varaði við "fölskum hagvexti", "hagvexti sem tekinn væri að láni". Okkur væri lífsnauðsynlegt að tryggja hagvöxt sem byggði á verðmætasköpun en ekki eyðslu. Sveinn brá upp tölum úr nýlegri könnun sem sýndu að meirihluti stuðningsmanna VG vildi taka upp Evru og leita hófanna hjá Evrópusambandinu. Kvaðst Sveinn sammála þessu fólki og brosti í kampinn!
Berglind Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri Impru, flutti einnig fróðlegt erindi um starfsemi, nýsköpunarmiðstöðvarinnar Impru en hún var stofnsett árið 2000. Sagði hún að rannsóknir sýndu að starf á vegum Impru hefði skilað árangri sem yrði enn meiri ef úr meira fjármagni væri að spila og þar af leiðandi fleiri starfsmenn á vegum Impru.  
Aðalbjörg Þorsteinsdóttir, frá fyrirtækinu Villimey á Tálknafirði hefur haslað sér völl sem framleiðandi ýmissa jurtasmyrsla sem smám saman eru að komast á markað. Hún sagði frá erfiðleikum við að afla fjármagns og hve mikil orka færi í vinnu sem tengdist skriffinnsku. Slíkt væri einstaklingi sem jafnframt sinnti sjálfri framleiðslunni iðulega um megn. Hún kvaðst ekki geta stillt sig um að benda fundinum á að olíuhreinsistöð á Vestfjörðum myndi ekki laða Vestfirðinga til starfa, heldur byggja á farandverkamönnum. Það væri síðan deginum ljósara að fyrirtæki á borð við sitt myndi leggjast af! Ég ákvað að kaupa nokkra smyrslakrukkur Villimeyjar og hef ég tröllatrú á að smyrslin séu góð. Þau eru byggð á þekkingi og reynslu Aðalbjargar og einnig vitneskju sem teygir rætur sínar til liðinna tíma. Ég hafði gaman af þegar Aðalbjörg sagði að við ættum ekki að véfengja hindurvitni!
Karl Benediktsson, dósent í landafræði við Háskóla Íslands var með stórskemmtilegan fyrirlestur. Hann kvaðst fylgjandi fyrir "bræðslum", ekki álbræðslum, heldur vildi hann bræða saman gamalt og nýtt, fróðleik og vísindi, dreifbýli og þéttbýli. Hann sagði að hugmyndir manna um nýtingu náttúruauðlinda væru að taka á sig fleiri víddir en að horfa einvörðungu til vinnslu á hráefnum. Nú horfðu menn til fleiri þátta, mannauðs, sögu og menningar. Hann benti í erindi sínu á að staðreyndin væri sú að hlutfallslega yrðu flest störf til í smáum og meðalstórum fyrirtækjum.
 Svanborg R. Jónsdóttir, nýsköpunarkennari og doktorsnemi við KHÍ talaði um það sem hún kallaði nýsköpunarmennt. Svanborg hefur kennt börnum og unglingum þessi fræði sem ganga út á að efla trú á eigin sköpunargáfu og efla frumkvæði. Ég er sannfærður um að fræðsla af þessu tagi sé það besta og uppbyggilegasta sem hægt er að kenna í skólum landsins og slæmt að heyra hve óvíða þetta er gert. Svanborg er mikill eldhugi á þessu sviði og hreif hún málfundargesti með sér.


Það gerði líka Magnús Þór Þorbergsson, fagstjóri í Fræði og framkvæmd, leiklistardeild LHÍ. hann sagði að nýsköpun væri í eðli sínu pólitísk. Hún ögraði því sem er ríkjandi og fengi okkur til að taka afstöðu. Hann talaði um mikilvægi þolinmæðinnar og nefndi ýmis dæmi máli sínu til stuðnings. Hann sagði að í þeirri deild sem hann kenndi við væri hugsunin ekki einvörðungu sú að gera eitthvað betur heldur finna nýjar leiðir. Stundum væri spurt hvað nemendur deildarinnar yrðu að námi loknu. Hann kvaðst svara því til að þeir yrðu það sem þeir gerðu. Með öðrum orðum, þú ert það sem þú gerir – ekki prófgráðan sem þú hefur upp á vasann.
Haukur Halldórsson, frá Víkingahringnum í Straumi flutti síðasta erindið og sagði frá hugmyndum sem hann og Sverrir Sigurjónsson hefðu unnið að um svokallaða Edduheima. Þeir vilja að ráðist verði í stórmagnað verkefni, komið á fót miklum byggingarklasa sem endurspegli  heim norður-evrópskrar goðafræði til forna. Haukur setti mál sitt mjög skemmtilega fram og varð mér umhugsunarefni – og er enn.

Að loknum ræðum stýrði Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG, opnum umræðum. Óhætt er að segja að þessum tveimur klukkustundum var vel varið.