FJÁRMÁLARÁÐHERRA OG MORGUNBLAÐIÐ GERA LÍTIÐ ÚR MISSKIPTINGU
Á Íslandi hefur efnaleg misskipting aukist hröðum skrefum á undanförnum árum. Rök má færa að því að félagslegra áhrifa sé þegar farið að gæta og að við stefnum í átt að samfélagi mismununar á mörgum sviðum þjóðlífsins. Ýmsir hafa varað við þessari þróun og hefur Stefán Ólafsson, prófessor, staðið þar framarlega í flokki. Í hópi stjórnenda Morgunblaðsins er einnig að finna menn - að minnsta kosti mann - sem tekið hafa undir þessi varnaðarorð.
Þess vegna voru Staksteinar Morgunblaðsins sl. fimmtudag að mörgu leyti stílbrot. Þar er tekið undir furðulegar og óábyrgar vangaveltur Árna M. Mathíesen, fjármálaráherra, þar sem hann gerir því skóna að nú hljóti að gæta Þórðargleði hjá þeim sem býsnast hafi yfir auðmönnum og haft áhyggjur af auknu bili á milli þeirra sem mest hafa og hinna sem minnst hafa. Þegar hlutabréf hrapi í verði sé þrengt að auðmönnum og þar með dragi úr misskiptingu í þjóðfélaginu: „Nú standa menn ... frammi fyrir fjárþurrð og bjartsýnin virðist fokin út í veður og vind. Árni Matthíasson bendir á eina af afleiðingum lækkunar hlutabréfa í bloggi sínu. Í ljósi þeirra hamfara sem nokkrir helstu auðjöfrar landsins hafi nú gengið í gegnum sé hann steinhissa á því að ekki hafi heyrst meira í Stefáni Ólafssyni, prófessor við Háskóla Íslands: „Málið er nefnilega það að eftir því sem milljarðar grósseranna hafa gufað upp hefur ójöfnuður minnkað í þjóðfélaginu eins og Stefán Ólafsson mælir hann, bilið milli ríkra og fátækra hefur mjókkað sem gerist vissulega þegar hinum ríku fækkar." Og Árni bætir við: „Úr orðum Stefáns mátti og lesa að ef sá ójöfnuður yrði minnkaður myndi hinum fátæku líða betur. Gengur það eftir?"