Fjöldamorðin í Afganistan og Sjónvarpið.
Efir að Bandaríkin náðu undirtökum í Afganistan virðist fátt skipta máli í því landi lengur, ekki einu sinni fjöldamorð á þrjú þúsund talibönum vekja athygli svo heitið geti. Fáir virðast kippa sér upp við það þegar fangelsi á borð við það sem er að finna í borginni Sheberghan er líkt við Auschwitz fangabúðir nasista í Þýskalandi. Á þessu eru vissulega undantekningar og vil ég vísa þar til dæmis í mjög góða grein Guðlaugs Bergmundssonar blaðamanns í DV fyrir nokkrum dögum. Í grein sinni (DV 31.maí) leitar Guðlaugur víða fanga. Hann vísar m.a. í sjónvarpsheimildaþátt írska kvikmyndagerðarmannsins Jamies Dorans sem hefur heldur betur hrist upp í fólki á meginlandi Evrópu. Þátturinn ber heitið Fjöldamorð í Afganistan: Bílalest dauðans. Fjölmiðlar í Evrópu, þá einkum í Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi og reyndar víðar hafa beint óvægnum ásökunum að Bandaríkjastjórn og einnig hinni bresku og segja þær samsekar í fjöldamorðunum. Myndin var fyrst sýnd í bandarísku sjónvarpi undir lok maí mánaðar en gagnstætt því sem gerðist í Evrópu hafa bandarískir fjölmiðlar lítið sem ekkert fjallað um hana. Í myndinni eru tekin dæmi. Meðal annars frá Qala –l-Zeini-virki, skammt frá Mazar-I-Zeini-Sharif í nóvember 2001. Föngum hafi verið skipað að fara inn í geymslugáma. Gámunum hafi síðan verið lokað en í hverjum gámi hafi verið tvö til þrjú hundruð manns. Eftir að hlerarnir hafi verið settir fyrir gámana hafi þeir verið látnir standa í sólinni í nokkra daga. Síðan hafi verið ekið áleiðis til fangelsisins í Sheberghan. Þetta sé aðeins 125 km leið en engu að síður hafi ferðalagið tekið fjóra daga, svo hægt hafi verið farið yfir. Þegar fangarnir hafi verið nær dauða en lífi hafi þeir barið í veggina og þá hafi verðirnir skotið göt á gámana – drepið suma fangana en þó búið til öndunarop. Framhald frásagnarinnar er hrikalegt en fram kemur að á endanum hafi allir fangarnir verið drepnir. Í einhverju öðru samhengi hefði þetta þótt frétt!
Fróðlegt væri að vita hvort Sjónvarpið hafi verið á höttunum eftir þessari mynd.