FJÖLMENNINGIN OG SVÍNAPYSLAN
Ég vil þakka fyrir mjög umhugsunarverða umfjöllun um sambúð/aðskilnað ríkis og kirkju hér á heimasíðu þinni í kjölfar ráðstefnu VG um þetta efni um síðustu helgi. Reyndar fannst mér vangavelturnar um fjölmenningarsamfélagið mest spennandi. Sannast sagna er ég nokkuð sammála þeim Hönnu Ragnarsdóttur og Kristínu Dýrfjörð um þetta efni; Hönnu að því leyti að hún vill nýta skólann til að mynda brú á milli menningarhópanna og Kristínu er ég sammála að því leyti að hún vill taka tillit til mismunandi hefða í ríkari mæli en þú ert til dæmis reiðubúinn að gera Ögmundur. Krsitín vildi láta spyrja bekkinn um hefðir og venjur í mataræði og taka tillit til þeirra óska sem fram kæmu. Í sumum mennigarheimum væri til dæmis svínakjöts ekki neytt vegna trúarbragða. Mér fannst þessi skilningur liggja í orðum þínum um afstöðu Kristínar varðandi svínapylsuátið á leikskólanum. Ég hefði haldið að þú tækir undir með henni enda predikar þú umburðarlyndi umfram allt. Að öðru leyti erum við yfirleitt sammála.
Hafsteinn Orrason
Þakka þér bréfið Hafsteinn. Það er réttur skilningur hjá þér að afstaða Kristínar ræðst af umburðarlyndi og viljanum til að virða mismunandi viðhorf og hefðir. Auðvitað er ég ykkur sammála í grundvallaratriðum. Það sem hins vegar ræður för hjá mér er að ég vil ekki hleypa trú og kreddum inn í skólann. Hann á að vera sá vettvangur sem opnar fyrir víðsýni. Reyndar er það nákvæmlega það sama og þær Hanna og Kristín berjast fyrir. Þannig held ég að við séum samherjar í þessum efnum þegar allt kemur til alls.
Kveðja,
Ögmundur