Fara í efni

FJÖLMIÐLAR HÆTTI AÐ NÆRAST Á ÓGÆFUNNI!

AUGA II
AUGA II


Þegar ég var við nám í Bretlandi undir lok sjöunda áratugarins og á þeim áttunda las ég bresku dagblöðin upp til agna. Nema eitt var það sem ég sneiddi algerlega hjá: Umfjöllun þeirra um glæpamál í réttarsal. Þegar búið var að ná gerandanum og málinu í raun lokið hófst mikil hátíð á dagblöðunum. Sum voru verri en önnur en því gulari sem þau voru, þeim mun stærri voru  fyrirsagnirnar. Þetta fannst mér mikill ljóður á þeirra ráði.

Þessi ósíður er nú kominn til Íslands illu heilli. Það sjáum við gerla í fréttaflutningi af hörmulegu morðmáli þar sem grænlenskur sjómaður er sakaður um að hafa ráðið ungri stúlku í Reykjavík bana fyrir fáeinum mánuðum.

Hverjum skyldu blöðin og fjölmiðlarnir vera að þjóna? Pyngjunni, er þetta talið selja? Varla hugsar Ríkisútvarpið á þá leið. Þó segir fréttastofa Ríkisútvarpsins andstutt æsingafréttir úr dómsal. Kannski til að vera eins og hinir.

Ágætu fjölmiðlamenn, hugsið ykkar gang! Ekki nærast á ógæfunni!