Fara í efni

FJÖLMIÐLAR SETJI Á ÞAU MERKIMIÐA

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ

Birtist í DV 15.08.14.
Í kjölfar þess að skattskráin var birt upphófst gamalkunnug umræða talsmanna atvinnurekenda um að  himinhá kjör þeirra sjálfra megi ekki verða þess valdandi að láglauna- og millitekjufólk fari að hugsa sér til hreyfings og setja fram kröfur um raunverulegar kjarabætur.
Síðan hefur því gjarnan verið hnýtt við að eðlilegt sé að láglaunafólkið horfi til hópa innan launamannafjölskyldunnar, til kennara, tiltekinna hjúkrunarhópa og annarra taxtavinnuhópa sem kunni að hafa fengið meira en þau allra lægstu. Forseti Alþýðusambandsins sagði nýlega að aðrir hópar hefðu ekki verið tilbúnir að axla byrðarnar „með okkur" og skildi ég það svo að vísað væri til fyrrnefndra hópa og þá væntanlega í opinbera geiranum. Ef það er réttur skilningur hjá mér  þá er að vissu leyti verið að taka undir með hátekjuaðlinum sem jafnan  leitast við að  beina öllum ágreiningi inn í raðir láglauna- og millitekjuhópa.

Ekki duttlungalaun takk

Innan Alþýðusambandsins eru taxtar ekki eins ráðandi og innan opinbera launakerfisins. Tilraunir til að viðhalda taxtalaunum opinberra starfsmanna er viðleitni til að hafa kerfið eins duttlungasnautt og kostur er. Margir forstjórar og forstöðumenn vilja taxtakerfið úr sögunni. Þeir gætu sætt sig við lágmarkslaun ef þeir síðan fengju að smyrja ofan á - eða láta það vera -  að eigin geðþótta. Ef þessi yrði raunin  tæki það sama við og gerðist eftir að verslunarmenn  hættu að semja um  launataxta. Ekki hefur mátt skilja annað á bæklingum VR en að félagið liti á það sem sitt meginhlutverk að undirbúa félagsmenn undir launaviðtöl við forstjórann. Þar væri um að gera að hafa bindishnútinn óaðfinnanlegan og púðra sig sem best.  Þarna þykir mér kjarabaráttan komin niður undir frostmarkið. Þetta er ástæða þess að ég vil fyrir alla muni halda í taxtalaunakerfi sem gefur einstaklingnum  rétt til launanna, óháð duttlungum forstjóra.

Kostir og gallar krónutöluhækkunar

Ég hef skilning á þeim ásetningi Starfsgreinasambandsins að tala fyrir krónutöluhækkun í kjarasamningum en ekki prósentuhækkun eins og Björn Snæbjörnsson, formaður sambandsins, gerði nýlega enda hann í forsvari fyrir þá allra lægstu. Prósentuhækkun  viðheldur sama kjaramun innan launakerfisins og nú er, og ekkert óeðlilegt að vilja þar hnika til. En gleymum því aldrei að með þessu  móti er einvörðungu horft til þess fólks sem er innan taxtalaunakerfsins, hjúkrunarfólks, kennara,  slökkviliðsmanna, lögreglumanna og starfsfólks Tryggingarstofnunar ríkisins svo einhverjir séu nefndir, en ekki til hinna sem njóta óhefts launaskriðs að ógleymdum öllum þeim sem eru á margföldum launum þessara hópa utan allra samninga!

Þörf á víðtækri umræðu

Ef það nú gerist að riðið er á vaðið með krónutöluhækkun og síðan  óskapast yfir öðru taxtalaunafólki sem vill bæta sín kjör og það jafnvel borið sökum um eyðileggingarstarf, fyrir að vilja ekki vera „með okkur" þá er til ills unnið. Þjóðarsátt yrði að byggja á víðtækri umræðu launafólks þar sem sammælst yrði um stefnu til að ná tilteknum  markmiðum  með ákveðinni launastefnu. Á þessu byggði Þjóðarsáttin 1990 þótt ekki hefði tekist betur til en svo að háskólamenn stóðu þar fyrir utan með langvarandi slæmum afleiðingum fyrir þá og einnig okkur hin sem áttum hlut að máli á þessum tíma.
Reynslan kennir að í löngum aðdraganda kjarasamninga þurfi að kanna möguleika á víðtækri sátt um ásættanlegt kjarabil  þjóðfélaginu og ræða hvort hægt væri að ná samkomulagi um hvert þetta bil skuli vera. Hafi þessi umræða ekki farið fram öðlast enginn hópur launafólks vald til að segja öðrum fyrir verkum.

Einn á móti þremur

Sjálfum finnst mér að þeir efstu ættu aldrei að hafa meira en þreföld lægstu laun.
En þar vil ég horfa víðar en inn í raðir taxtavinnufólks. Líta þarf til þjóðfélagsins alls, ekki síst ofan í pyngju þeirra sem sitja handan borðsins gegnt launafólkinu.
Þeir einstaklingar sem mest hafa blásið á réttmætar kröfur láglauna- og millitekjuhópa hafa sjálfir himinhá kjör.  Samkvæmt skattskrá voru mánaðarlaun formanns Samtaka atvinnulífsins, Björgólfs Jóhannssonar  3.692.000. Framkvæmdastjóri SA, Þorsteinn Víglundsson  hafði   2.627.000 á mánuði , Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra hafði 1.399.000 kr á mánuði, fyrrverandi borgarstjóri var með rúmlega eina og hálfa milljón á mánuði og má ætla að Dagur B. Eggertsson, nýr borgarstjóri, sé  með svipaðar tekjur. Þessar tölur hafa birst í fjölmiðlum og koma úr skattskránni en vel að merkja þær segja ekkert um fjármagnstekjur, sé um þær að ræða.

Mánaðarlaun á mynd

Ég leyfi mér að ítreka fyrri tillögu mína um að alltaf þegar þessir viðsemjendur launafólks birtast á sjónvarpsskjám, í blöðum eða öðrum fjölmiðlum verði settir á þá merkmiðar með mánaðarlaunum þeirra þegar þeir tjá sig um kjarabaráttu almenns launafólks, ekki bara þeirra sem eru með rúmar tvö hundruð þúsund krónur á mánuði heldur einnig millitekjufólksins. Þegar merkimiðinn er kominn á andlitið reynir á hve sannfærandi málflutningurinn er.

Eiga að þegja

Mín skoðun er sú að talsmenn atvinnurekenda, ríkisreknir og einkareknir, þar með talið ráðherrar, sveitarstjórar og aðrir stjórnmálamenn,  sem koma til með að setjast að samningaborði með launafólki í komandi kjarasamningum beri siðferðileg skylda til að þegja um kröfur láglaunafólks og taxtavinnufólks almennt,  hafi þeir sjálfir meira en þreföld  lægstu laun.