Fara í efni

FJÖLMIÐLAR TAKI FORSÆTISRÁÐHERRA Á ORÐINU


Geir H. Haarde
, forsætisráðherra opnaði fyrir umræðu um stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar  með yfirlýsingum sínum í fjölmiðlum eftir för sína inn á fórnarlönd Alcoa við Kárahnjúka í boði Ómars Ragnarssonar nú um helgina. Forsætisráðherrann var nýlentur í Reykjavík eftir ferðina þegar hann sagði að vissulega þyrfti alltaf að eiga sér stað ákveðið “hagsmunamat” þegar stórar ákvarðanir væru teknar. Orðrétt sagði forsætisráðherra í samtali við Fréttablaðið: "Ég tel að við höfum tekið hárrétta ákvörðun. Auðvitað er alltaf eftirsjá að landi sem hverfur. Hins vegar er mikið af þessu örfoka land, þótt eitthvað sé um gróin svæði. Ef ég ætti að velja efnahagsáhrifin af virkjuninni eða halda þessu landi myndi ég velja nákvæmlega sama kost og  við gerðum á sínum tíma .."
Það er nefnilega það. Geir H. Haarde finnst lítið til um "örfoka land" og gróin svæði “sem eitthvað sé um”, sem fari undir Alcoa lónið. Þeim mun meira þykir honum til koma um efnahagsávinninginn af Alcoa.
Eigum við þá ekki að ræða þennan meinta efnahagsávinning? Valgerður Sverrisdóttir og Halldór Ásgrímsson, helstu forkólfar álstefnu Framsóknarflokksins í seinni tíð, hafa aldrei komist af fullyrðingastiginu hvað hann snertir. Margoft hefur verið sýnt fram á að þjóðhagslegur ávinningur af Kárahnjúkavirkjun er að öllum líkindum enginn, hugsanlega neikvæður!
Ég skora á fjölmiðla að taka forsætisráðherra nú á orðinu og ræða við hann um meintan efnahagsávinning af Kárahnjúkavirkjun.

Um þetta hafa verið ritaðar fjölmargar greinar og eru hér tvær slóðir nánast valdar af handahófi. Sjá HÉR og HÉR.