Flokkarnir geri grein fyrir afstöðu sinni til hersins
Birtist í DV 03.07.2003
Ólafur Teitur Guðnason blaðamaður á DV skrifar ágæta grein í DV sl. helgi undir fyrirsögninni: Er leyndin í lagi? Kveikjan að greininni er umræðan undanfarna daga um hvort réttmætt hafi verið að leyna þjóðina upplýsingum um framvindu herstöðvamálsins, þar á meðal bréf til íslensku ríkisstjórnarinnar frá bandarískum stjórnvöldum skömmu fyrir kosningar þar sem skýrt var frá þeim ásetningi Bandaríkjamanna að draga stórlega úr umsvifum Bandaríkjahers hér á landi. Í grein sinni kemst blaðamaður DV að þeirri niðurstöðu að þögnin hafi ekki skaðað þjóðarhagsmuni, en það réttlæti hana hins vegar ekki: „Þögnin á ekki að ríkja – ekki heldur í varnar- og öryggismálum – nema þegar almannahagsmunir krefjast þess. Og stjórnvöld hafa ekki gefið sannfærandi skýringar á nauðsyn þess að þegja í þetta sinn.“ Þetta segir Ólafur Teitur og vindur sér þvínæst aftur í tímann og rekur hvernig íslenskir stjórnmálamenn hafi á fyrri hluta 8. áratugarins beitt blekkingum í herstöðvamálinu. Hann telur að sá tími sé liðinn að blekkingum sé beitt en það sé hins vegar ekki nema skömminni skárra ef þögnin hafi tekið við.
Þetta er rétt ábending að mínu mati en jafnframt vert að hafa í huga að í skjóli leyndar þrífst blekkingin. Hið gagnstæða á einnig við. Fari umræða fram fyrir opnum tjöldum þá aukast líkur á því að hún verði jafnframt heiðarleg. Þetta er samhengið sem rétt er að hafa til hliðsjónar í þessari umræðu. Jafnvel þótt það kunni að vera rétt að þögnin hafi ekki gert þjóðinni stórskaða þá er það engu að síður vafasamt að umræða um þetta stórmál fari fyrst og fremst fram á bak við luktar dyr og lokuð tjöld. Lýkur nú þeim hluta greinar minnar þar sem ég er sammála blaðamanni DV.
Hverjum er best treystandi?Þar skilja nefnilega leiðir með okkur þegar hann gefur til kynna að núverandi stjórnarflokkum sé betur treystandi í herstöðvamálinu en okkur sem myndum stjórnarandstöðuna: „Eða hverjum ætli þjóðin hefði treyst betur“, skrifar Ólafur Teitur Guðnason, „til að freista þess að telja Bandaríkjamönnum hughvarf og semja við þá um farsæla niðurstöðu um varnarliðið: ríkisstjórninni eða stjórnarandstöðunni?“
Í þessu sambandi verður að taka fram að fráleitt er að setja stjórnarandstöðuna alla undir einn hatt. Horfi ég þá sérstaklega til Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Samfylkingin vill áframhaldandi veru Bandaríkjahers í landinu. VG er því hins vegar andvíg. Innan Samfylkingarinnar hafa einnig hvatt sér hljóðs talsmenn þess að komið verði á fót íslenskum her á þeim nótum sem núverandi dómsmálaráðherra Björn Bjarnason hefur boðað um árabil. Þetta er víðs fjarri málflutningi VG sem vill efla öryggsivarnir á borð við landhelgisgæslu og almenna löggæslu en leggst gegn því að stofnaður verði her í landinu. En nánar að herstöðvamálinu.
Tillögur VGÍ apríl árið 1996 undirrituðu forsvarsmenn Íslands og Bandaríkjanna sérstakt samkomulag til fimm ára og var það staðfest í sérstakri bókun eða viðhengi við herstöðvasamninginn. Í þessari bókun var kveðið á um viðbúnað í herstöð Bandaríkjamanna hér á landi. Að fjórum árum liðnum frá undirritun samkomulagsins gæti hvor ríkisstjórnin um sig farið fram á endurskoðun þess og skyldu þá viðræður hefjast innan fjögurra mánaða. Á þinginu 1999/2000 fluttu þingmenn VG þingsályktunartillögu um að gengið yrði til viðræðna við Bandaríkjamenn um framtíð Keflavíkurflugvallar. Þar segir m.a.: „Stefnt skal að niðurstöðu áður en gildandi samkomulag við bandarísk stjórnvöld um umfang starfseminnar á Keflavíkurflugvelli rennur út.“ Samkvæmt þingsályktunartillögunni var gert ráð fyrir að áfangaskýrslu yrði skilað til Alþingis „áður en núgildandi bókun um umfang starfseminnar á Kaflavíkurflugvelli rennur út.“
Hvatt til raunsæis
Í greinargerð með tillögunni er rakið hvernig jafnt og þétt hefur dregið úr umsvifum Bandaríkjahers hér á landi í samræmi við breytta heimsmynd og þannig hvatt til þess að Íslendingar sýni raunsæi og fyrirhyggju. Orðrétt segir: „Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að gera áætlun um sérstakt átak til atvinnuuppbyggingar og þróunar fyrir svæðið samhliða því að unnið verði að samkomulagi við Bandaríkjamenn um hvernig að þessum breytingum verði staðið.“
Undir þennan málflutning VG tók því miður enginn annar stjórnmálaflokkur í þinginu og í umræðunni nú er VG enn á ný eina stjórnmálaaflið á Alþingi sem hvetur til þess að hér verði ekki erlendur her og að Ísland standi utan hernaðarbandalaga.
Fyrirhyggju þörf í atvinnumálumUm þýðingu hersins í atvinnulegu tilliti er Vinstrihreyfingin - grænt framboð mjög meðvituð og höfum við ítrekað hvatt til þess að tekið verði á atvinnumálum á Suðurnesjum í tengslum við samdrátt og brottflutning bandaríska hersins. Fyrir Suðurnesjamenn er ástæðulaust að örvænta. Við skulum ekki gleyma því að sú starfsemi sem rekin er á Keflavíkurflugvelli mun að ýmsu leyti þurfa að halda áfram, til dæmis hvað snertir rekstur flugvallar og þætti sem snúa að gæslu og öryggi. Yfir þetta þarf hins vegar að fara skipulega og út á það hafa okkar tillögur gengið á Alþingi á síðasta kjörtímabili og einnig í aðdraganda síðustu kosninga. Með þessu móti höfum við viljað hvetja til þess að menn nálgist þessi mál af fullu raunsæi og fyrirhyggju. Verst er að horfast ekki í augu við vandann.
Eflaust er það rétt hjá Ólafi Teiti Guðnasyni að ríkisstjórnarflokkarnir séu líklegir til að reyna „að telja Bandaríkjamönnum hughvarf“ en þegar hann botnar setninguna og segir að þannig megi „semja um farsæla niðurstöðu“ þá þykir mér hann sama markinu brenndur og forsvarsmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, að hugsað er til skamms tíma. Hér þarf hins vegar að hafa langtímahagsmuni í huga. Það skyldi því aldrei vera að það sé Vinstrihreyfingin - grænt framboð sem öðrum flokkum fremur hafi reynt að taka á þessum málum af raunsæi.
Vilji menn í alvöru ná farsælli niðurstöðu í þessu máli til framtíðar gengur ekki að berja höfðinu við steininn og telja sjálfum sér trú um að heimurinn hafi engum breytingum tekið á síðustu áratugum og að ekki þurfi að bregðast við þeim breytingum. Ég hef grun um að þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson viti innst inni að þeir láta stjórnast af blöndu af íhaldsemi og óskhyggju í þessu máli. Þess vegna finnst þeim ágætt að geta pukrast með þetta í leyni. Það verður hins vegar að gera kröfu til þeirra og allra stjórnmálaflokka í landinu að þeir geri grein fyrir afstöðu sinni: Hvaða stefnu hafa þeir og hver eru markmiðin? Þetta er þungamiðjan í málinu og um hana má aldrei ríkja nein leynd.