FLOKKSRÁÐSFUNDUR VG: LANGLUNDARGEÐ GAGNVART SAMFYLKINGU Á ÞROTUM
23.02.2008
Í dag lauk tveggja daga flokksráðsfundi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Á fundinum fóru fram líflegar umræður en fyrir fundinum lágu fyrir drög að ályktunum um efnahags- og stóriðjumál, kjaramál, heilbrigðismál, sjávarútvegsmál og varnar- og utanríkismál.
Almennt vildi Flokksráð VG hvergi draga úr heldur fremur herða áherslur í ályktunum fundarins. Að því marki sem þessi fundur endurspeglar viðhorfin hjá skoðanasystkinum okkar í þjóðfélaginu er greinilegt að á þrotum er langlundargeðið gagnvart ríkisstjórninni og þá einkum Samfylkingunni sem ýmsir úr þessum ranni stjórnmálanna höfðu haft væntingar um að stæði í ístaðinu í stjórnarsamstarfinu með Sjálfstæðisflokknum. Mat fundarmanna var að hið gagnstæða hefði gerst. Stefna Sjálfstæðisflokksins væri samþykkt, annað hvort með þögn Samfylkingarinnar eða með beinum stuðningi hennar.
Dæmi um þetta er úr ályktun um heilbrigðismál þar sem segir meðal annars: „Þau 17 ár sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú setið við völd hafa markvisst verið notuð til að búa í haginn fyrir einkavæðingu velferðarþjónustunnar. Það eru mikil vonbrigði að með aðild Samfylkingarinnar að ríkisstjórn skuli ekki horfið frá þessari stefnu heldur eru nú þvert á móti uppi áform um umfangsmeiri einkarekstur en nokkru sinni fyrr...Ráðherrar úr báðum stjórnarflokkunum eru farnir að taka opinberlega undir með samtökum atvinnurekenda og fjármagnseigenda um einkavæðingu almannaþjónustunnar..."
í kjaramálaályktuninni er hvatning til samtaka launafólks um að efla baráttustyrk sinn. Minnt er á að „kaldrifjuð markaðshyggja" og „þjónkun ríkisstjórnarinnar við fjármagnsöflin" hafi verið einkennandi fyrir stjórnarfarið. Í framhaldinu segir: „ Svar launafólks er ekki að halda að sér höndum og sætta sig við enn meira undanhald heldur þvert á móti þurfum við að brýna hvert annað til sóknar fyrir jafnrétti á öllum sviðum. Niðurstaða nýgerðra kjarasamninga var mikilvæg hvað verðar launajöfnuð meðal hinna lægst launuðu. Að enn skuli samið um laun langt undir framfærslukostnaði endurspeglar hins vegar þörfina á enn öflugri verkalýðsbaráttu. Flokksráðið hvetur öll samtök launafólks að láta hvergi deigan síga en sækja fram eftir því sem kostur er. Jafnframt þarf gjörvöll verkalýðshreyfingin að efla baráttustyrk sinn. Framfarir og jöfnuður í íslensku þjóðfélagi markast af styrk hennar og baráttu."Hér eru ályktanir Flokksráðs VG í heild sinni: http://www.vg.is/frettir/eldri-frettir/nr/3173