Flöktandi Framsókn og óábyrgur Sjálfstæðisflokkur
Birtist í Mbl. 03.05.2003
Sennilega hefur Framsóknarflokkurinn fengið bakþanka eftir að hann kynnti í lok febrúar stefnumótun sína í efnahagsmálum fyrir komandi kjörtímabil. Þá voru opinberaðar tillögur flokksins sem kæmu til með að veikja stöðu ríkissjóðs um 15 milljarða króna. Í kjölfarið kom Sjálfstæðisflokkurinn með enn meiri tekjurýrnun fyrir ríkissjóð. Samfylkingin sá að við svo búið mátti ekki standa og sagði að fyrst stjórnarflokkarnir sæju svigrúm til skattalækkana þá hlyti að vera óhætt að byggja á því. Nokkrum dögum síðar kom svo Samfylkingin með tillögur um niðurskurð á tekjum ríkissjóðs um 15 milljarða. Þetta væri svo sem í góðu lagi ef þessir flokkar væru ekki jafnframt með tillögur um að auka útgjöld ríkissjóðs. Á sama tíma og þeir boða stórfelldan niðurskurð á tekjum hins opinbera lofa þeir gulli og grænum skógum í samfélagslegum verkefnum. Einhvern tíma hefði verið sagt að þetta væru eins og álfar út úr hól.
Taugatitringur
Allt byrjaði þetta á útspili Halldórs Ásgrímssonar formanns Framsóknarflokksins á þingi flokksins. Skoðanakannannir voru flokknum óhagstæðar um þær mundir. Var nú tekið til við að hanna hagvöxt. Flest var rakið til fyrirhugaðra stóriðjuframkvæmda á Austurlandi. Halldór kvaðst reikna með "að afkastageta þjóðarbúsins verði 4-5 prósentustigum meiri í lok næsta kjörtímabils en án þessara aðgerða." Einvörðungu vegna þessa yrði svigrúm ríkissjóðs 20-25 milljörðum meira á kjörtímabilinu en ella hefði orðið og sveitarfélaganna 5 milljörðum meira. Formaður Framsóknarflokksins klykkti síðan út með því að segja að hann teldi "augljóst að almenningur í landinu ætti að njóta stærsta hluta þessara auknu tekna."
Óskhyggja og líkindareikningur
Þessar yfirlýsingar formanns Framsóknarflokksins voru ekki mjög vísindalegar og byggja þær á blöndu af óskhyggju og líkindareikningi. Efnahagssérfræðingar hafa margoft bent á að stóriðjufjárfestingar ríkisstjórnarinnar skapa almannasjóðum og efnahagskerfinu almennt minni tekjur en aðrir valkostir. Framangreindar staðhæfingar Halldórs Ásgrímssonar byggja ekki á neinum haldgóðum útreikningum. Því er t.d. enn ósvarað hvernig sú samsetning efnahagslífsins sem Framsóknarflokkurinn boðar með stóriðjuáformum sínum kemur út varðandi tekjustreymi skatta í ríkissjóð og sveitarsjóði borið saman við þá samsetningu atvinnulífs sem byggir á fleiri fyrirtækjum en smærri. Hvorki Seðlabankinn né fjármálaráðuneytið hafa treyst sér til að meta hvaða langtímaáhrif breytt samsetning efnahagslífsins – þar sem þungaiðnaður í erlendri eign vegur sífellt meira í efnahagsstarfseminni – hefði á þjóðarbúskapinn í heild og þá sérstaklega á tekjustreymi í opinbera sjóði.
Hvernig vildum við nota jákvæða hagsveiflu?
Samkvæmt athugun Þjóðhagsstofnunar, sem miðaðist við rekstur Reyðaráls, hefði þjóðarframleiðsla aukist um aðeins 0,7% vegna reksturs álvers. Samkvæmt athugun Þorsteins Siglaugssonar hagfræðings myndu áhrifin af álveri Alcoa líklega ekki nema meiru en 2,3 milljörðum króna, eða um 0,6% af þjóðartekjum árið 2001. Þetta samsvarar árshagnaði tveggja stórra fyrirtækja í góðu árferði. Þá má má ekki gleyma að hin jákvæðu áhrif hyrfu algerlega og yrðu jafnvel neikvæð færi stofnkostnaður framkvæmdanna fram úr áætlun.
Þá er á það að líta að stóriðjustefnan kemur til með að bitna á öðrum atvinnurekstri og dregur úr mætti hans til frekari uppbyggingar og atvinnusköpunar. Á undanförnum árum höfum við þó notið góðs af hagsveiflu í heiminum og vona ég að okkur takist að hlú að innlendri uppbygginu þrátt fyrir þær skorður sem ríkisstjórnin hefur reist. Í því samhengi er eðlilegt að stjórnmálaflokkarnir kynni hvernig þeir myndu nýta það svigrúm sem þannig skapaðist.
VG vill meiri velferð
Í Vinstrihreyfingunni grænu framboði höfum við sett fram tillögur um úrbætur fyrir barnafólk, við viljum t.d. gjaldfrían leikskóla, við viljum bæta kjör öryrkja, aldraðra, við viljum framfarir í skólamálum, við viljum stuðla að vísindarannsóknum, styðja nýsköpun í atvinnulífinu og þannig mætti áfram telja. Allt þetta kostar peninga. Þess vegna viljum við ekki rýra tekjur ríkissjóðs. Við viljum hins vegar breytta forgangsröðun á ráðstöfun almannafjár, við viljum ekki milljarð í sendiráð eða þrjúhundruð milljónir í hergagnaflutninga fyrir Nató. Ofar öllu öðru viljum við nýta allan þann efnahagsbata sem okkur áskotnast til styrkingar velferðarkerfinu. Þess vegna segjum við: Flytjum byrðarnar til innan skattkerfisins en rýrum ekki tekjur ríkissjóðs eins og lýðskrumsflokkarnir bjóða hver í kapp við annan.
Sjálfstæðisflokkurinn sker niður Landspítala og lyfjaútgjöld
Niðurskurður Sjálfstæðisflokksins þýðir ígildi alls rekstrarkostnaðar Landspítalans og alls lyfjakostnaðar ríkisins. Hvað þýðir þetta? Eiga hinir sjúku að borga öll lyfin? Eiga sjúklingarnir að greiða aðgangseyrir að sjúkrarúmum? Davíð og Geir verða að svara þessu. Og nú er Halldór byrjaður að spyrja líka um þetta. Hann er búinn að átta sig á frumhlaupi sínu og minnugur þess að hann hangir nú á húsveggjum um allan bæ sem ímynd trausts og stöðugleika flöktir hann inn á nýja braut og segir á baksíðu Morgunblaðsins að Sjálfstæðisflokkurinn sé óábyrgur og að hann sé búinn að láta sínar tillögur í skoðun hjá Seðlabanka. Ekki voru menn svona auðmjúkir í febrúar og mars.
Samfylking gáir til veðurs
Samfylkingin er óþægilega næm á veðrabrigðin og hagar seglum eftir vindi. Ekki höfðu ríkisstjórnarflokkarnir fyrr lýst yfir vilja til skattalækkana en Samfylkingin hafði svipuð gylliboð uppi. Einn daginn er Samfylkingin félagshyggjuflokkur, þann næsta er hún skattalækkunarflokkur. Hún kemur jafnan færandi hendi, annað hvort með skattalækkunum eða með auknum útgjöldum, boðið er upp á allt í senn, á öllum sviðum er lofað glampandi sól. Svona er veruleikinn bara í auglýsingum, svona er sýndarveruleikinn, hannaður af auglýsingastofum. En hann dugir landsmönnum bara fram í miðjan maí – þangað til búið er að kjósa.
VG vísi veginn
Vinstrihreyfingin grænt framboð er eini stjórnmálaflokkurinn sem kemur fram af festu og ábyrgð. Hann er sá flokkur sem menn mega vita að lofar ekki upp í ermina en hann stendur hins vegar við fyrirheit sín. Allir vita að þegar VG vill velferðarstjórn þá eru það ekki bara orðin tóm.