Fara í efni

FLUGMAÐUR OG BÆJARSTJÓRI RÆÐA KJARASAMNINGA

Birtist í Morgunblaðinu 02/01.25.
Á Þorláksmessu birtust tvær greinar í Morgunblaðinu þar sem fjallað var um kjarasamninga, annars vegar hjá hinu opinbera, hins vegar á opnum markaði.
Annars vegar er það bæjarstjórinn í Kópavogi, Ásdís Kristjánsdóttir, sem vill afnema „sérréttindi“ opinberra starfsmanna og segir það vera „til hagsbóta fyrir alla“ en það er einmitt heiti greinar hennar í blaðinu.
Hin greinin fjallar um gervistéttarfélög og er eftir Sighvat Bjarnason flugmann.
Í þessum greinum er talað sitt úr hvorri áttinni en báðar eru greinarnar þess eðlis að þær ættu að leiða til umhugsunar og umræðu.

Viðskiptaráð vísi veginn

Ásdís bæjarstjóri mælir djarflega þykir mér þegar hún talar fyrir afnámi ýmissa „sérréttinda“ opinberra starfsmanna með vísan í „áhugaverða“ skýrslu frá Viðskiptaráði þar sem þessi óæskilegu umframréttindi séu tíunduð : „Vinnuvikan er styttri, veikindaréttur ríkari, starfsöryggi meira og orlof lengra – tekið saman metur Viðskiptaráð að þessi sérréttindi jafngildi um 19% launahækkun miðað við einkageirann.“
Sú spurning vaknar hvort það geti talist „til hagsbóta fyrir alla“ að afnema þessi réttindi, varla fyrir þau sem njóta þeirra, eða hvað?
En bæjarstjórinn lætur ekki hér við sitja. Bæjarstjóri Kópavogs telur að grundvallarkerfisbreytinga sé þörf í kjarasamningum þar sem áhersla verði á einstaklingsbundin kjör. Ég hika við að kalla þetta einstaklingsbundna samninga því þegar stéttarfélögunum hefur verið ýtt til hliðar með sína heildrænu samninga fyrir alla, þá kennir reynslan að það verður atvinnurekandans að skammta úr hnefa. Þar er komin tengingin við grein Sighvats Bjarnasonar um gervistéttarfélög.

Bæjarstjóri Kópavogs vill „alvörubreytingar“

En áður en vikið er að grein Sighvats er rétt að huga að röksemdafærslu Ásdísar bæjarstjóra.
Hún segir: „Stíga þarf markviss skref í átt að alvöru kerfisbreytingum á opinberum vinnumarkaði með það að markmiði að auka sveigjanleika og opna á samningsfrelsi opinberra stétta. Slík breyting væri til hagsbóta fyrir alla. Í dag er takmarkað frelsi til að umbuna sérstaklega opinberum starfsmönnum sem þykja skara fram úr í vinnu. Slíkt fyrirkomulag dregur úr hvata starfsmanna til að sýna frumkvæði og nýsköpun sem tengist starfi þeirra. Það væri til dæmis ágætt að geta umbunað þeim kennurum sem þykja skara fram úr í starfi. Aukinn sveigjanleiki myndi einnig stuðla að framþróun og aukinni skilvirkni í opinberum rekstri.“

Afburðafólk eða viðhlæjendur?

Aftur er sagt að kerfisbreyting í þessa veru stuðli „að framþróun og aukinni skilvirkni“ og sé „til hagsbóta fyrir alla.“ Þetta er meira en lítið vafasöm fullyrðing. Varla yrði það til hagsbóta fyrir þann sem ekki nyti velvildar stjórnenda og fyrir bragðið ekki launahækkunar á borð við þá starfsmenn sem „þykja skara fram úr“ eða eru einfaldlega viðhlæjendur stjórnenda. Og það er einmitt þetta sem gerist þegar viðbótargreiðslur koma til útborgunar: Vinnustaðurinn fer að loga í eilífum ófriði og óánægju þar til reynt er að lægja öldur með launaleynd. Þá byrjar spillingin.

Og hvar endar spillingin?

Árásir á verkalýðshreyfingu eru yfirleitt undir frelsisfánum. Þannig heitir það félagafrelsi þegar mönnum á að vera frjálst að sniðganga samtök launafólks á vinnustað að öðru leyti en því að njóta ávaxtanna af starfi þeirra. Vandinn er sá að reynslan kennir að þessi tegund frelsis snýst oftast upp í andhverfu sína. Og svona getur það gerst: „Ég er tilbúinn að íhuga það að ráða þig í vinnu og þér er að sjálfsögðu frjálst að ganga í stéttarfélag eða standa utan þess. Það á nefnilega að virða félagafrelsi. En kjósirðu að ganga í stéttarfélag máttu hins vegar vita að ég mun ekki ráða þig til starfa. Ég vona að þú skiljir að frelsið tekur einnig til mín!“
Ef við síðan bætum í þessa nálgun góðum slatta af ósvífni og óheiðarleika þá erum við komin að varnaðarorðum Sighvats Bjarnasonar sem í grein sinni segir frá háttsemi stjórnenda flugfélags sem umgengust starfsfólk sem væri það gervifólk í gervifélagi. Sýndu síðan fjárfestum hvílíkur fjársjóður væri í því fólginn að hafa undirborgaða og réttindalitla starfsmenn.

Varnaðarorð Sighvats:

„Nú eru málefni gervistéttarfélaga aftur komin í hámæli. Einhver skyldi halda að rekstur slíkra félaga væri ómögulegur, því launþegar láti ekki bjóða sér slíkt. Sú ályktun er röng. Með hæfilegri blöndu af blekkingum og óttastjórnun er hægur vandi að láta slíkt ganga. Það skjól sem stéttarfélagi er ætlað að veita breytist í andhverfu sína og félagsmenn verða í raun fangar eigin félags. Viðkvæmir hópar og lágur meðalaldur félagsmanna gerir þá útsettari fyrir slíkri meðhöndlun. Með tíð og tíma þurrkast skilin út; gervistéttarfélag tekur á sig þægilega mynd starfsmannafélags og gefur sameiginlega jólagjöf með vinnuveitandanum.“

Til hagsbóta fyrir alla?

Niðurstaða Sighvats er sú að félagafrelsi sé tvíeggjað. Hann bendir á þá augljósu hættu að almennu launafólki verði búin lakari kjör en ella.
Spurningin er svo einnig sú hvort það sé ekki þegar allt kemur til alls „ til hagsbóta fyrir alla“, bæði launamanninn og atvinnurekandann að hafa samninga félagslega, án felumála og með allt uppi á borði, réttindin sem best og traustust og starfsanda eftir því. Mín reynsla er sú af starfi hjá samtökum launafólks í rúma tvo áratugi að öflugir stjórnendur og atvinnurekendur séu almennt þessarar skoðunar.
Stjórnendur sem ekki eru starfi sínu vaxnir vilja á hinn bóginn réttlaust starfsfólk sem ráðskast megi með og reka að vild. Gagnstætt þessu reynir góður stjórnandi að finna lausnir. Ella er starfmaninnum gefið færi á á að bæta ráð sitt. Svo er hitt til í dæminu að hann hafi verið hafður fyrir rangri sök. Þá má nýta réttinn sem Viðskiptaráðið sér ofsjónum yfir til að koma leiðréttingu við. Það hlýtur að teljast vera réttlátt og í framhaldinu mætti spyrja hvort réttlæti sé ekki bæði eftirsóknarvert og í ofanálag „til hagsbóta fyrir alla“.

-----
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.