FORDÓMALAUS UMRÆÐA UM EES?
Birtist í Morgunblaðinu 10.07.08.
Það er umhugsunarvert að í flestum almennum atkvæðagreiðslum sem efnt hefur verið til innan Evrópusambandsins um málefni sem því tengjast hefur myndast gjá á milli almennings og þess sem kalla má stofnanaveldisins. Enda þótt allar helstu stofnanir í samfélaginu - ríkisstjórnir, stjórnmálaflokkar, aðilar á vinnumarkaði og meirihluti fjölmiðla - hafi sameinast um að tala fyrir ágæti stöðlunar og samræmingar á vegum Evrópusambandsins þá hefur meirihluti kjósenda jafnan komist að gagnstæðri niðurstöðu í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu: Að þetta sé ekki eftirsóknarlegur kostur.
Hroki?
Skýring á því að leiðir skilja með þjóð og stofnanaveldi er eflaust margþætt. Fólki finnst, hygg ég mörgu, að miðstýringaráráttan í Evrópusambandinu sé of mikil, almenningur sé sviptur völdum yfir eigin nærumhverfi og kannski spilar þarna einnig eitthvað inn í tilfinning fyrir því að valdakerfið sé að gerast óþægilega hrokafullt. Þannig heyrum við iðulega sagt eftir að Brüssel-valdið verður undir í almennri atkvæðagreiðslu, að málin hafi ekki verið skýrð nægilega vel fyrir almenningi. Málstaður Brüssel hafi orðið undir því almenningur sé of fáfróður. Með öðrum orðum, að Evrópusamruninn sé óskaplega skynsamlegur og þegar honum er hafnað eða andæft á einhvern hátt þá sé það vegna vanþekkingar. Þar sem fáir séu innvígðir í skynsemisfræði ESB séu almennar atkvæðagreiðslur varasamar og betra að reyna að stilla þeim í hóf eða hundsa niðurstöðurnar.
Hópefli í Brüssel
Við þessari „vanþekkingu" er reynt að sporna, m.a. með fræðsluferðum til Brüssel. Því fleiri til Brüssel þeim mun betra. Það gefur þó auga leið að ekki er hægt að koma því við að senda heilu samtökin eða þjóðirnar til höfuðstöðvanna í hópefli. Betur ef svo væri. En einmitt vegna þessarar takmörkunar skapast sú hætta að það sé bara topplagið, svokölluð elíta, sem skilji og tali máli Brüssel, en hinir séu dæmdir til að vaða áfram reyk.
Einhverra hluta vegna kom þetta allt upp í hugann þegar ég sá viðbrögðin við greinarkornum sem ég skrifaði fyrir nokkrum dögum í Morgunblaðið og Fréttablaðið um samskipti Íslands við Evrópusambandið í gegnum EES-samninginn. Þetta voru greinar í vangaveltustíl. Ég minnti á að ég hefði í upphafi ekki verið hlynntur EES-samningnum en þó ekki viljað segja okkur frá honum því eitt er að vilja ekki ganga inn í samning, afdrifaríkara er að segja sig frá gerðu samkomulagi.
Er hugsanlegt að Brüssel-valdið sé farið að færa sig svo upp á skaftið að jafnvel verði ekki lengur við unað? Þessu velti ég upp í tilnefndum greinum og nefndi dæmi þar sem tilskipanir frá Brüssel ganga þvert á þjóðarvilja, sbr. kröfu um að leggja niður Íbúðalánasjóð. Þarna eru farin að rekast á annars vegar markaðshyggja og miðstýring Evrópusambandsins og hins vegar lýðræðislegur vilji okkar. Ef lýðræðið og skerðing á því er ekki stórmál sem kallar á umræðu í okkar samfélagi er ég illa svikinn. Enda er það svo að þótt stofnanaveldið sé afundið hafa viðbrögð við greinum mínum almennt í samfélaginu verið afar sterk og jákvæð.
Mín heimska?
Nema hvað. Sennilega er ekki tekið nægilega djúpt í árinni að tala um að menn hafi orðið afundnir. Við þessar hugleiðingar mínar vöknuðu til lífsins margir þeir sem á undanförnum árum hafa kallað eftir því að Evrópumál verði „tekin á dagskrá", eins og það heitir, og þau rædd í þaula; fólkið sem hefur sagt: Enga þöggun, takk!
En skyldi þetta fólk hafa fagnað tilraun til að víkka og dýpka umræðuna? Ekki beinlínis. Formaður Evrópusamtakanna, Andrés Pétursson, spurði í forundran á hvaða öld sá maður lifði sem dirfðist að tala á þann veg sem ég gerði. Framlag varaformanns Samfylkingarinnar, Ágústs Ólafs Ágústssonar, var að lýsa þessu tali sem „mestu heimsku" sem hann hefði orðið vitni að um dagana; leiðarahöfundur Fréttablaðsins sagði að maður sem svona talaði þyrfti að skýra mál sitt miklu betur ef hann á annað borð vildi láta „taka sig alvarlega". Staksteinar Morgunblaðsins sögðu að nú væri búið að jarða samstarf Samfylkingar og VG. Það var hins vegar helst að þingflokksformaður Samfylkingar, Lúðvík Bergvinson, virtist halda stillingu sinni.
Í Evrópuumræðunni á allt að vera undir
Hvað þýðir það annars að taka Evrópumálin á dagskrá? Felur það í sér það eitt að vera já-maður og vilja ganga inn í Evrópusambandið, helst í gær? Eru allar efasemdir um ESB ómarktækar í umræðunni? Og eru það helgispjöll að leyfa sér að efast um ágæti EES-samningsins?
Ef þetta á að vera svona fer ég að skilja hvers vegna stofnanaveldið verður alltaf undir í lýðræðislegum kosningum innan Evrópusambandsins. Það er skorturinn á virðingu fyrir lýðræðinu og hrokinn sem þessu veldur. Mér finnst við hafa fengið af þessu nasasjón síðustu dagana. Eitt er víst að ekki er viðmótið sem við efasemdarmenn finnum fyrir fordómalaust. Staðreyndin er sú að það eru gagnrýnir efasemdarmenn einsog ég og mínir samherjar sem raunverulega viljum Evrópumálin á dagskrá. En þar á líka allt að vera undir.