Forðumst tilskipanaslysin
Birtist í Mbl
Um þessar mundir er unnið að skipulagsbreytingum á heimahjúkrun á höfðuborgarsvæðinu. Stefnt er að því að færa þá heimahjúkrun sem vistuð hefur verið í Heilsuverndarstöðinni út í heilsugæslustöðvarnar. Þetta er í anda breytinga sem hófust fyrir nokkru en í lögum um heibrigðisþjónustu er þetta verkefni ætlað heilsugæslustöðvunum. Um þetta er ekkert nema gott að segja ef hægt er að standa við það yfirlýsta markmið að bæta þjónustuna. En það er líka grundvallaratriði.
Starfsmenn í heilbrigðisþjónustunni eru margbrenndir á niðurskurði og þrengingum undangenginna ára. Hjá því starfsfólki sem sinnir þessari þjónustu hafa því vaknað spurningar um hvort framundan sé aukið vinnuálag, minni sveigjanleiki og þar með lakari þjónusta við sjúklinga.
BSRB vill fylgjast með
BSRB boðaði nýlega til fundar með fulltrúum ýmissa hagsmunasamtaka þeirra sem þurfa á heimahjúkrun að halda. Þar kom berlega í ljós um hve mikilvæga þjónustu er hér að ræða og hve viðkvæm hún er. Í mörgum tilvikum eru aldraðir sjúkir einstaklingar og fatlað fólk algerlega háð heimahjúkruninni í sínu daglega lífi. Fólk þarf á aðstoð að halda til að þrífa sig, fæða og klæða, taka inn lyf og þannig mætti áfram telja. Auðvitað skiptir máli hvernig þessi aðstoð er veitt og að hvaða marki hægt er að laga hana að persónulegum þörfum hvers og eins. Allt fyrirkomulag á vinnutíma og vaktafyrirkomulagi starfsfólks og breytingar á því geta því skipt miklu máli fyrir alla þá sem þjónustunnar njóta og eru henni háðir.
Treyst á aðstandendur
Í Reykjavík hefur verið sólarhringsþjónusta og hefur komið fram hjá formanni Öldrunarráðs að þar sé fordæmi sem menn horfi til. Hefur hann varað við því að þjónustan verði skert. Þvert á móti telur hann mikilvægt að efla þessa þjónustu og bæta. Það segir sig sjálft að sé þurfandi fólki ekki veitt þessi þjónusta af hálfu heilbrigðiskerfisins er aðeins um tvennt að ræða: Að viðkomandi einstaklingar séu án fullnægjandi þjónustu eða að ættingjar hlaupi undir bagga. Auðvitað eru mörg dæmi um hið síðara og fylgir því oft mikið álag fyrir hlutaðeigandi, sem í mörgum tilvikum eru ekki mönnum sinnandi af áhyggjum vegna aðstandenda sinna. Og iðulega hefur fólk hreinlega ekki aðstöðu til að veita hjálp vegna eigin atvinnu.
Þess vegna eru ekki aðeins siðferðileg rök heldur einnig efnahagsleg að bæta þjónustu við aldraða því þannig eru best nýttir þeir kostir sem verkskipt þjóðfélag hefur upp á að bjóða. Og við skulum ekki gleyma því að þrátt fyrir allt höfum við mjög gott heilbrigðiskerfi með frábæru starfsfólki. Það er hagur þjóðfélagsins alls að við nýtum þetta kerfi sem best.
Hlustum á þá sem verkin vinna
Á undanförnum árum höfum við orðið vitni að mörgum tilskipanaslysum í heilbrigðisþjónustunni. Ráðist hefur verið í breytingar án þess að séð væri fyrir endann á þeim. Þetta hefur kennt okkur að eigi nauðsynlegar breytingar að skila tilætluðum árangri, án þess að valda ófyrirséðum aukaverkunum, þá er nauðsynlegt að byggja á upplýsingum starfsfólks og taka tillit til þeirra röksemda sem það hefur fram að færa. Yfirstjórn heilsugæslunnar í Reykjavík hefur nú lýst því yfir að þetta verði gert og segist reyndar hafa starfað í þessum anda. Ekki skulu bornar brigður á það en hins vegar hvatt til þess að rækilega verði fylgst með öllum breytingum þannig að þær skili okkur fram á veginn.
Aðstæður á þessu sviði eru ekki þannig að unað verði við óbreytt ástand, því fer fjarri. Allar breytingar verða að leiða til bættrar þjónustu. Til þess að örva umræðu um þetta mikilvæga málefni hefur BSRB boðað til opinnar málstofu í dag og er mikilvægt að allt áhugafólk um þetta málefni lyfti þessari umræðu og taki þátt í henni og geri sitt til að þrýsta á nauðsynlegar úrbætur.