Fara í efni

FORELDRASAMTÖK GEGN ÁFENGISAUGLÝSINGUM NÁ ÁRANGRI!

Árni guðmundsson - vín
Árni guðmundsson - vín
Á Íslandi er bannað að auglýsa áfengi. Engu að síður er það gert í Ríkisútvarpinu og fleiri fjölmiðlum. Farið er á bak við bannið með sjónhverfingum, meðal annars með því að nýta smáa letrið. Úthugsuð lögbrot.

Í baráttu gegn þessum ósvífnu lögbrotum hafa Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum staðið í fararbroddi. Þau hafa gert það með kærum og ábendingum til ákæruvaldsins, til lögreglu, til stjórnmálamanna; reynt hefur verið að höfða til ábyrgðarkenndar fjölmiðla og ábyrgðarkenndar stjórnmálamanna.  

Nokkrum sinnum hefur verið reynt að koma frumvarpi í gegnum Alþingi til að girða fyrir lögbrotin, meðal annars af minni hálfu sem ráðherra málaflokksins á síðasta kjörtímabili. Ekki reyndist vilji á Alþingi til að veita málinu brautargengi en talsverður vilji hins vegar til að þvælast fyrir málinu og drepa það.

En þrautseigja Árna Guðmundssonar, hins gamalreynda félagsmálamanns úr æskulýðsstarfi og verkalýðsbaráttu,  og félaga hans í Foreldrasamtökunum gegn áfengisauglýsingum lætur ekki að sér hæða.

Ástæða er að samfagna með foreldrasamtökunum um leið og við hljótum að furða okkur á því að fólk þurfi að standa í þessari baráttu við fjölmiðla og fyrirtæki sem vilja láta taka sig alvarlega. 

Nú liggur fyrir áfellisdómur frá Fjölmiðlanefnd yfir RÚV og Ölgerð Egils Skallagrímssonar fyrir að brjóta lögin um bann við áfengisauglýsingum. Ákvörðun fjölmiðlanefndar ber að fagna en rökstuðninginn er að finna hér: http://fjolmidlanefnd.is/wp-content/uploads/2016/03/%C3%81kv%C3%B6r%C3%B0un-2_2016.pdf