Fara í efni

FORMAÐUR FRAMSÓKNARFLOKKSINS SEGIR AÐ ENN SÉU ÁFORM UM STÆKKUN Í STRAUMSVÍK


Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins hefur tjáð sig um það sem kallað hefur verið "fjandsamleg yfirtaka" álrisans Alcoa á Alcan fyrir 33 milljarða dollara, eða um 2.100 milljarða íslenskra króna. Jón neitaði nýlega að tjá sig um fund með Alcoa forstjórum en nú er komið í ljós hvað þar var rætt því Jón Sigurðsson segir í viðtali við Morgunblaðið í dag að fréttirnar af yfirtökunni hafi ekki komið sér á óvart. Almennt finnst Jóni Sigurðssyni þetta góðar fréttir: "Ég efast ekki um að einhver spennandi færsla á tæknifræði og þekkingu á milli fyrirtækjanna getur átt sér stað þegar fram líða stundir, sem snertir bæði mengunarvarnir og fleiri þætti, og er jákvæð," segir Jón." Hann kveðst ekki telja að samruni muni hafa áhrif á áform Alcoa á Húsavík eða áform Alcan um stækkun í Straumsvík . Um aðgreinda samninga sé að ræða og frá sjónarhóli stjórnvalda séu þetta aðgreind mál. "Við munum tryggja að þetta verði engin valdasamþjöppun gagnvart okkur," segir Jón."
Mikið er hughreystandi að vita að formaður Framsóknarflokksins ætlar að hafa taumhlad á þessum langstærsta ál-auðhring í heimi. Það er líka fróðlegt að ráðherrann skuli segja að Alcan hafi enn á prjónunum stækkun í Straumsvík! Var ekki verið að kjósa þau áform út af borðinu?  Skiptir lýðræðið engu máli?

Í viðtalinu við Morgunblaðið vísar iðnaðarráðherra til samninga álrisanna við innlend orkufyrirtæki og stjórnvöld. Athyglisvert í ljósi þess að nýlega sagði ráðherra að tvö eða þrjú ár væru liðin síðan ríkisstjórnin og þar með Framsóknarflokkurinn hefðu hætt að hafa afskipti af uppbyggingu stóriðju á Íslandi!