Fara í efni

FORMAÐUR SUS UM SKATTSKRÁRNAR

Þetta er nú meiri þvælan í þér Ögmundur. Það er ekki verið að vernda hagsmuni neinna umfram aðra. Það eru mörg dæmi þess að fólk hafi orðið fyrir óþægindum vegna þessarar birtingar og gildir það sannarlega ekki bara um hátekjufólk. Þetta er spurning um friðhelgi einkalífs. Hvort sem þér líkar betur eða verr, og hvort sem þú ert sammála eða ósammála, þá finnst mér þú ættir ekki að ætla fólki annað en að það fylgi sinni samvisku. Þetta mál snýst um vernd borgaralegra réttinda einstaklingsins og er því hugsjónamál. Þessir útúrsnúningar hjá þér eru illkvitnir, ómálefnalegir og hallærislegir. Þar fyrir utan höfum við ekki verið að vekja neina sérstaka athygli á þessu máli í ár og ekki staðið fyrir neinum aðgerðum. Þannig að ég veit ekki hvernig þér kom það til hugar að gera þessa tilraun til að slá þig til riddara á kostnað okkar.
Bestu kveðjur,
Þórlindur, formaður SUS

Þakka þér bréfið Þórlindur.
Þér er að sjálfsögðu frjálst að skilgreina minn málflutning eins og þér líkar best. Hitt er annað mál að þetta stefnumál SUS er ekki dauðara en svo að ég hef þurft að svara því til í fjölmiðlum að undanförnu hver mín afstaða sé til kröfu SUS um að lokað verði á aðgang að skattskrám. Í mín eyru hafa þessi mál verið rædd meira nú en oft áður. Sennilega er það vegna þess að á krepputímum þegar verið er að segja fólki upp störfum umvörpum og láglauna- og meðaltekjufólk á í vaxandi erfiðleikum með að standa skil á afborgunum lána og yfirleitt draga fram lífið, þá blöskrar fólki þegar það fær innsýn í heim græðgi og óhófs; fær komið auga á nokkuð sem ég get ekki annað en kallað þjófnað, þ.e. þegar fólk í aðstöðu til sjálftöku nýtir sér hana með þeim hætti sem það augljóslega gerir. Skattskráin segir ekki allt. En hún gefur innsýn í veruleikann. Þá sýn hefur SUS viljað byrgja. Gegn því hef ég barist.
Finnist þér þessi afstaða "hallærisleg" þá er lítið við því að gera.
Með kveðju,
Ögmundur