Fórnarlömbin
22.07.2003
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, ríður ekki við einteyming þessa dagana. Ekki er nóg með að ólmur vilji hann koma gömlum draumi sínum um íslenskan her til framkvæmda, heldur er hann einnig kominn á kaf í umræðuna um samráð olíufélaganna. Allir furða sig á nánast ótrúlegri óskammfeilni forsvarsmanna þeirra þegar í ljós kom að þeir hafa vélað um verðlagið gagnvart almenningi og sett á svið leiksýningu um útboð gagnvart stofnunum og fyrirtækjum. Áður hafði verið haft samráð um niðurstöðuna og skiptin á ránsfengnum. Það orð eitt dugar um arðinn af þessum "viðskiptum". Í afstöðu til þessa máls eru nánast allir sem látið hafa frá sér heyra sammála. Síðan kemur að söguskýringunum og eins og í hermálinu fer Björn Bjarnason dómsmálaráðherra í farabroddi með nýstárlega hugsun. Að hans mati eru forstjórar olíufélaganna fórnarlömb Sovétríkjanna! Á heimasíðu sinni segir Björn að olíufélögin séu "að súpa seyðið af því að hafa ekki á markvissan og skipulegan hátt horfið frá viðskiptaháttum Sovéttímans í íslenskum olíuviðskiptum". Röksemdafærsla Björns er á þá leið að hér fyrr á tíð hafi olíukaupum verið miðstýrt og samráð haft um verslunina. Svo er að skilja að hann telji að hrun Sovétríkjanna hafi farið framhjá þessum mætu mönnum og enginn sagt þeim að þessi kafli í mannkynsögunni væri liðinn; nú ætti að keppa á markaði og á grundvelli verðlags.
Í fyrsta lagi er það óskammfeilni af hæstu gráðu að bera það upp á gengna kynslóð að öllu samstarfi fyrirtækja hafi fylgt sviksemi því þetta getur ekki flokkast undir neitt annað. Í öðru lagi er ekki hægt að bjóða heilbrigðri skynsemi birginn á þennan hátt. Á efri hæðum valdapýramída olíufélaganna hafa á undanförnum árum setið miklir talsmenn frjálsra markaðsviðskipta og oftar en ekki hafa þeir tjáð sig um kosti markaðarins. Iðulega hefur sú pilla fylgt með að þeim sem starfi fyrir ríki og sveitarfélög sé ekki treystandi fyrir fjármunum. Aðeins "einstaklingar á markaði", eins og það er orðað, séu traustsins verðir. Þeir einir fari vel með. En nú höfum við það semsagt skjalfest af sjálfum dómsmálaráðherra landsins að forstjórar olíufélaganna voru fórnarlömb Sovétkommúnismans.
Er ekki rétt að láta umræðu um þetta mál lokið og snúa okkur að því að veita fórnarlömbunum áfallahjálp?
Í fyrsta lagi er það óskammfeilni af hæstu gráðu að bera það upp á gengna kynslóð að öllu samstarfi fyrirtækja hafi fylgt sviksemi því þetta getur ekki flokkast undir neitt annað. Í öðru lagi er ekki hægt að bjóða heilbrigðri skynsemi birginn á þennan hátt. Á efri hæðum valdapýramída olíufélaganna hafa á undanförnum árum setið miklir talsmenn frjálsra markaðsviðskipta og oftar en ekki hafa þeir tjáð sig um kosti markaðarins. Iðulega hefur sú pilla fylgt með að þeim sem starfi fyrir ríki og sveitarfélög sé ekki treystandi fyrir fjármunum. Aðeins "einstaklingar á markaði", eins og það er orðað, séu traustsins verðir. Þeir einir fari vel með. En nú höfum við það semsagt skjalfest af sjálfum dómsmálaráðherra landsins að forstjórar olíufélaganna voru fórnarlömb Sovétkommúnismans.
Er ekki rétt að láta umræðu um þetta mál lokið og snúa okkur að því að veita fórnarlömbunum áfallahjálp?