FÓRNARLÖMBIN ERU BÖRNIN
Birtist í DV 07.01.09.
Fjarlægðin gerir fjöllin blá og þjóðirnar einsleitar. Ísraelar verða Ísraelar og Palestínumenn verða Palestínumenn. Ekki kannski alveg svona einfalt því við erum búin að ná því að höfuðfylkingar Palestínumanna heita Fatah og Hamas. Síðarnefndu samtökin höfðu vinninginn í síðustu þingkosningum í Palestínu. Það líkaði hernámsliði Ísraela illa og neitaði að viðurkenna réttkjörna stjórn. Þá var mynduð þjóðstjórn með sameiginlegri þátttöku Fatah og Hamas. Þeirri stjórn settu Ísraelar skilyrði, sem hún réði ekki við og sprakk hún því. Í kjölfar vopnaðra átaka á meðal Palestínumanna fór svo að Hamas fékk völd yfir Gaza en Fatah yfir Vesturbakkanum. Áfram var sorfið að Hamas. Aftur voru sett starfsskilyrði sem ekki reyndist unnt að standa við. Svæðið var þá sett í herkví og nú hefur verið ráðist þar inn með hrikalegum afleiðingum.
En hver skyldu vera skilyrðin sem sprengja allar stjórnir í Palestínu; skilyrði sem jafnframt eru ísraelska hernámsliðinu skálkaskjól fyrir ofbeldisaðgerðir? Þau eru að palestínsk yfirvöld viðurkenni tilvist Ísraelsríkis undanbragðalaust og komi jafnframt í veg fyrir allar árásir á Ísrael af palestínsku svæði. Hamas hefur einmitt verið borið á brýn að viðurkenna ekki tilvist Ísraelsríkis og virða ekki vopnahlé.
Erindreki SÞ talar
En er þetta rétt? Ekki telur Richard Falk svo vera, en hann er bandarískur prófessor í alþjóðalögum, sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna um mannréttindamál á palestínsku svæðunum. Hann fullyrðir að Hamas hafi kappkostað að halda í heiðri samkomulag um vopnahlé sem Egyptar höfðu forgöngu um og lagt til að það yrði framlengt í áratug um leið og unnið yrði að framtíðarlausn sem byggi á landamærum Ísraels eins og þau voru fyrir 1967 en það er landamæralínan sem Sameinuðu þjóðirnar krefjast að verði virt. Með öðrum orðum, Hamas viðurkennir Ísrael og vill virða vopnahlé.
Richard Falk segir vanda Hamas margþættan. Þannig ráði Hamas ekki yfir öllum vopnuðum sveitum á Gaza svæðinu, t.d. svokallaðri Baráttusveit al-Aqsa píslarvottanna, sem njóti stuðnings Fatah. Þessi samtök hafi að öllum líkindum staðið fyrir eldflaugaárásum á Ísrael til að grafa undan trúverðugleika Hamas. Hvað sem því líður, segir Falk vopnahlé hafi að mestu verið virt fram til 4. nóvember þegar ísraelski herinn gerði skyndilega sprengjuárásir á meint hryðjuverkahreiður á Gaza.
Að deila og drottna
Richard Falk telur að þetta hafi verið gert í ögrunarskyni enda hafi Hamas fyrir sitt leyti reynt að standa við vopnahlésskilmála. Staðreyndin er sú að ísraelska hernámsliðið veit sem er, að með árásum og ögrunum er hægt að æsa upp harðdrægustu baráttusveitirnar. Við slíkar aðstæður standa palestínsk yfirvöld jafnan frammi fyrir tveimur afarkostum: Að berja landa sína niður með vopnavaldi sem iðulega hefur leitt af sér innra stríð eða eiga á hættu innrás frá Ísrael. Í tímans rás hefur það bæði verið hlutskipti Fatah og Hamas að standa frammi fyrir þessum kostum. Rómverjar kölluðu þessa aðferð að deila og drottna.
Staðreyndin er sú að eldflaugaárásir frá Gaza eru með heimatilbúnum skammdrægum flaugum sem hingað til hafa valdið sáralitlu tjóni og er engan veginn saman að jafna við vopnabúnað ísraelska hersins sem nú hefur brytjað niður 500 manns og er tekið til þess hve mörg börn hafi verið drepin í þessari síðustu árás. Á móti hafa sárafáir Ísraelar verið vegnir.
Pólitík, innan ríkis og utan
Inn í þessa mynd þarf síðan að setja þá staðreynd að fyrir dyrum standa þingkosningar í Ísrael. Varnarmálaráðherrann, Ehud Barak og utanríkisráherrann Tzipi Livni, er að sögn fréttaskýrenda umhugað um að sýna hörku og þá ekki síst í ljósi þess að stórnarnarandstæðingurinn og stríðsmangarinn, Netanyahu, sækir að þeim með ásakanir um linku. Allt þetta reifar Richard Falk í skýrslum sínum og bendir jafnframt á að skýringin á því að Egyptaland, Saudi-Arabía og Jórdanía standi þögul hjá, sé sú að keppinautur þeirra í þessum heimshluta, Íran, sé jafnframt bakhjarl Hamas. Þarna glittir með örðum orðum í stórveldapólitík.
Fórnarlömb slíkrar taflmennsku eru nú sem endranær, óbreyttir borgarar, ekki síst börn. Fjölmiðlum ber að færa okkur gagnrýnar fréttaskýringar sem varpa ljósi á hagsmuni í húfi. Með því móti verður atburðarásin skiljanlegri og fordómar fjarlægari. Eða hve margir skyldu gera sér grein fyrir því að samkvæmt margendurteknum skoðanakönnunum á yfirgnæfandi meirihluti gyðinga í Ísrael sér þann draum heitastan að lifa í friði með Palestínumönnum?
Ögmundur Jónasson, alþingsmaður