Fara í efni

FORRRÆÐISHYGGJU Á ALÞINGI ANDMÆLT


Ekki hefur það gerst í langan tíma að reynt sé að knýja fram breytingar á þingskaparlögum í blóra við þingflokk á Alþingi. Sá þingflokkur, sem Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis og formenn Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar, Framsóknarflokks og Frjálslynda flokksins ætla að virða að vettugi er auk þess stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á þingi, Vinstrihreyfingin grænt framboð. Stjórnarmeirihlutinn hefur í ræðum á þingi um hið nýja frumvarp haft á orði að það sé stjórnarandstöðunni fyrir bestu að kyngja skertu málfrelsi og minna athafnafrelsi í þinginu. „Umhyggja“ af þessu tagi kallast forræðishyggja og er ekki til eftirbreytni, ekki síst þegar um er að ræða reglur sem gilda eiga um lýðræðið, samskipti á löggjafarsamkundu þjóðarinnar og þann ramma sem stjórnarandstöðunni er ætlaður til að rækja það hlutverk að veita ríkisstjórn og stjórnarmeirihluta hverju sinni aðhald og tryggja vandaða lagasetningu.
Í dag efndi þingflokkur VG til fundar með fréttamönnum til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.  Hér að neðan er að finna yfirlýsingu þingflokksins og greinargerð sem skýrir afstöðu flokksins til  hins umdeilda frumvarps.

Yfirlýsing þingflokks Vinstri grænna í tilefni nýrra þingskaparlaga:

Með framsetningu frumvarps til laga um breytingar á þingsköpum hefur forseti Alþingis því miður verið í forystu fyrir að rjúfa hefð um samstöðu um breytingar á þingsköpum og lagt fram frumvarp án samkomulags við stærsta þingflokk stjórnarandstöðunnar. Þingflokkur VG harmar þessi vinnubrögð í jafn mikilvægu máli þar sem rík skylda hvílir á öllum málsaðilum að leita samstöðu.

Afstaða þingflokks VG helgast af því að gæta réttar og vígstöðu stjórnarandstöðunnar í samskiptum við meirihlutann og þar með Alþingis sem slíks í samskiptum við framkvæmdarvaldið.

Þingflokkur VG hefur bæði á þessu hausti og á umliðnum árum lagt fram ýmsar hugmyndir um hvernig betrumbæta megi starfshætti Alþingis og vanda betur til vinnubragða við lagasetningu. VG hefði viljað sjá víðtækar breytingar á starfsháttum og vinnutilhögun á þingi með það að markmiði að gera lagasetninguna vandaðri og betri og starfsumhverfið allt fjölskylduvænna og markvissara. Umboðsmaður Alþingis hefur m.a. bent á hvernig Alþingi þurfi að vanda betur til verka og VG vill tryggja að það sé gert.

Það fer því fjarri að VG hafi ekki verið tilbúið til breytinga í þessum efnum heldur hefur VG einmitt talað öðrum fremur fyrir úrbótum. Forsenda þeirra breytinga verður hins vegar að vera sú að vinnubrögðin batni, vinnuaðstæður og allt skipulag verði betra og að staða stjórnarandstöðu og þingsins í heild gagnvart framkvæmdarvaldinu styrkist en veikist ekki.

Það er ekki til umræðu af hálfu VG að versla með réttindi og vígstöðu stjórnarandstöðunnar fyrir sporslur sem ekki hafa í sjálfu sér neina grundvallarþýðingu fyrir stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu eða minnihluta á Alþingi.

Greinargerð

Hornsteinar stjórnskipunar Íslands, eins og annarra vestrænna lýðræðisríkja, er þrískipting valdsins í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Þannig er leitast við að tryggja viðunandi jafnvægi í samfélaginu milli lýðræðislegs valds almennings, beins og óbeins, í gegnum kjörna fulltrúa og framkvæmdarvaldsins sem situr í umboði Alþingis þar sem hér ríkir þingræði og þingbundin ríkisstjórn er við völd. Dómsvaldið sker úr ágreiningi. Almennt er ekki um það deilt að á Íslandi er þjóðþingið veikt gagnvart framkvæmdarvaldinu og hefur því miður fremur veikst en hitt undanfarinn 1 - 11/2 áratug. Staða Alþingis sem slíks gagnvart framkvæmdarvaldinu snýst eðli málsins samkvæmt einkum og sér í lagi um möguleika og réttindi minnihlutans hverju sinni til þess að sinna sínu mikilvæga hlutverki, hlutverki stjórnarandstöðunnar, aðhaldshlutverkinu. Mikilvægur liður í þessu hlutverki stjórnarandstöðu, eða hvers og eins þingmanns ef svo ber undir, er að standa fyrir rökræðum og koma mismunandi sjónarmiðum á dagskrá og út í samfélagið. Því má aldrei gleyma að hlutverk Alþingis er margþætt, sem sagt ekki bara löggjafarstarf, heldur er Alþingi líka helsti vettvangur pólitískra skoðanaskipta og umræðu í landinu. Þar takast stjórnmálaflokkarnir og lýðræðislega kjörnir fulltrúar á og þeirri viðureign verður að skapa viðunandi umgjörð sem felst einkum og sér í lagi í því að tryggja réttindi minnihlutans, tryggja málfrelsi hans og rétt til þess að vera ávallt á varðbergi og koma ávallt að sínum sjónarmiðum.

Því fer fjarri að það sé ræðutíminn einn sem skipti hér máli heldur er hann hluti af stærri heildarmynd. Réttindi stjórnarandstöðunnar og ákvæði þingskapa sem tryggja eiga lýðræðisleg skoðanaskipti, umræður, vönduð vinnubrögð og vandaða lagasetningu Alþingis eru allt ein heild. Réttindi stjórnarandstöðunnar, þar á meðal möguleikar hennar til málflutnings, eru hluti af stærri heildarmynd og verða ekki frá henni skilin. Það er ekki markmið í sjálfu sér að halda langar ræður og þaðan af síður leiðinlegar eða innihaldsrýrar. Markmiðið er að tiltekið lágmarksjafnvægi sé alltaf til staðar á Alþingi Íslendinga, þar sem kjörnir fulltrúar allra helstu sjónarmiða í stjórnmálum landsins eiga sinn vettvang til að koma skoðunum sínum á framfæri. Þingsköp Alþingis geyma þar af leiðandi fjölmörg ákvæði sem öll miða að því sama: að tryggja vandaða umfjöllun um mál, að tryggja að þingnefndir geti sinnt rannsóknaskyldu sinni, að tryggja að öll sjónarmið fái að heyrast og tryggja að framkvæmdarvaldið geti ekki í krafti meirihluta síns rúllað umdeildum eða viðamiklum málum í gegn fyrirvaralítið eða fyrirvaralaust. Það gefist bæði tími, ráðrúm og aðstæður til þess að rannsaka mál og ræða og vekja um leið í gegnum hinn opna umræðuvettvang Alþingis, þar sem fundir fara fram í heyranda hljóði, athygli á því sem þar er á dagskrá.

Áður fyrr starfaði Alþingi í tveimur málstofum, efri og neðri deild, og öll lagafrumvörp önnur en fjárlög, fóru hið minnsta í gegnum sex umræður, tvisvar sinnum þrjár umræður í tveimur þingdeildum. Árið 1991 var Alþingi sameinað í eina málstofu, sem að mörgu leyti var framfaraspor hvað varðaði skilvirkni og línulagaðri vinnubrögð á Alþingi. Um leið lagði það mikla ábyrgð og skyldur á herðar þeim sem þar réðu ferð, að tryggja að þetta yrði ekki til þess að vinnubrögð versnuðu, að skoðun mála yrði grynnri og einfaldari og hættan á mistökum ykist. Við þingskapalagabreytinguna á sínum tíma voru miklir svardagar uppi um það, að í stað tveggja deilda sem skoðuðu lagafrumvörp kæmi vandaðri, dýpri og yfirvegaðri umfjöllun í sameinuðu þingi eða einni málstofu. Deila má um hversu vel þessi fyrirheit eða loforð hafi verið haldin.

Alþingi Íslendinga stendur veikt að vígi gagnvart framkvæmdarvaldinu

Því miður verður ekki fram hjá því horft, að eins og þingræði, lýðræði og stjórnmálahefðir hafa þróast hér á Íslandi hefur staða Alþingis veikst gagnvart framkvæmdarvaldinu. Því ráða ýmsir þættir en ekki síst þeir, að setið hafa að völdum sterkar meirihlutastjórnir með stjórnlynda valdamenn sem hafa endurtekið sýnt í verki vilja sinn og löngun til að hafa Alþingi undir í glímunni milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Allt of mikið hefur borið á tilhneigingum til að breyta Alþingi í raðafgreiðslu- eða færibandastofnun fyrir pólitískar ákvarðanir og málatilbúnað ríkisstjórna, þ.e. framkvæmdarvaldsins. Gegn þessu standa þingsköpin og þau réttindi sem einkum minnihluta, stjórnarandstöðu eða þingmönnum sem eru ósammála framkvæmdarvaldinu á hverjum tíma, eru þar búin. Þau eru fólgin í frestum milli umræðna, að tiltekinn dagafjöldi eða sólarhringafjöldi verði að líða frá því að þingmál kemur fram þangað til það kemur til fyrstu umræðu, milli annarrar umræðu og þriðju umræðu og frá því að þingskjöl berast úr nefndum og þangað til umræða hefst. Frá þessu er unnt að veita afbrigði og til þess þarf tveggja þriðju meirihluta á þingi. Þá er einnig ætlast til að þingnefndir fái viðunandi tíma til að sinna rannsóknarskyldu sinni og að mál séu til umsagnar úti í þjóðfélaginu hjá hinum ýmsu aðilum er það varða í sæmilega rúman tíma. Á þessu verður hins vegar oft mikill misbrestur þegar mál koma seint fram og/eða ríkisstjórn leggur ofurkapp á að fá hluti afgreidda fyrir jól eða þingslit að vori. Þá ákveður stjórnarmeirihlutinn iðulega að sleppa umsagnarferli og skerða umfjöllun þingnefnda jafnvel niður í nokkra klukkutíma. Ekkert nema ótvíræður og lögvarinn réttur til ítarlegri umfjöllunar dugar þegar á reynir.

Nú eru uppi þær afbrigðilegu aðstæður á Alþingi Íslendinga, sem höfundar þingskaparlaga á umliðnum árum hafa efalaust ekki séð fyrir, að ríkisstjórn styðst við svo stóran meirihluta, að hún getur í krafti hans veitt sjálfri sér afbrigði án stuðnings frá stjórnarandstöðunni. Þennan rétt nýtti núverandi ríkisstjórn strax á vordögum gegn háværum mótmælum stjórnarandstöðunnar og tók á dagskrá með afbrigðum, sem hún með meirihluta sínum veitti sér sjálf, frumvarp um umdeildar breytingar á stjórnarráðinu. Sporin hræða þar af leiðandi þegar á þessu kjörtímabili.

Staðan í öðrum þjóðþingum

Víða í nágrannalöndunum er þessum hlutum skipað með verulega öðrum hætti. Því er gjarnan hampað, sérstaklega af aðstandendum núverandi þingskaparlagafrumvarps, sem á að skerða ræðutíma þingmanna og takmarka réttindi stjórnarandstöðu að því leyti, að í þingunum í kringum okkur sé yfirleitt ekki um að ræða ótakmarkaðan ræðutíma. Því er til að svara, að Alþingi Íslendinga er að þessu leyti lítt sambærilegt við nálæg þjóðþing. Það er í fyrsta lagi miklum mun fámennara: hér sitja 63 þingmenn, rúmlega 50 þegar ráðherrar eru frátaldir, en í nágrannalöndunum eru fámennustu þingin með tæplega 170 og allt upp í 350 þingmenn. Í nágrannaþingunum er undirbúningsferli þingmála yfirleitt mun lengra, opnara og ítarlegra, auk þess sem þingnefndir eru miklu mikilvægari vettvangur pólitískra umræðna og stefnumótunar. Þar fara fram umræður þar sem fjöldi nefndarmanna slagar upp í að vera hálfur fjöldi þingmanna á Alþingi á opnum fundum og þar fer stór hluti hins pólitíska málflutnings og rökræðna fram.

Þar fyrir utan er langur vegur frá því að úrræði stjórnarandstöðu á þjóðþingum hinna Norðurlandanna séu jafn takmörkuð og ætla mætti af hinum hráa samanburði á ræðutíma. Finnska stjórnarskráin geymir ákvæði sem tryggir hverjum einasta þingmanni á finnska Ríkisþinginu, 200 talsins, rétt til að tjá sig á öllum stigum við umræður og afgreiðslu mála. Þetta endurspeglast í finnskri löggjöf og starfsháttum á finnska þinginu þannig, að alltaf er farið afar varlega í að takmarka tjáningarfrelsi þingmanna þar sem það er í raun verndað af stjórnarskránni. Með mismunandi aðferðum er í öllum þjóðþingum unnt, annað hvort í krafti fjölda þingmanna, réttar þeirra til að tjá sig, gegnum viðurkennd verkferli í nefndarstarfi og við rannsókn mála eða öðrum hætti, hægt að hægja á framvindu mála og tryggja að þau fái langa og ítarlega umfjöllun ef þurfa þykir. Þetta breytir að sjálfsögðu engu um, að almennt fara umræður fram í góðu samkomulagi, þar sem ræðutíma er skipt með málefnalegum hætti milli þingflokka og milli andstæðra sjónarmiða í málum.

Þegar samanburður er gerður á stöðu Alþingis og annarra þinga verður einnig að hafa í huga, að víðast hvar eru réttindi stjórnarandstöðu til áhrifa mun betur tryggð en hér. Þannig er á þjóðþingum hinna Norðurlandanna ekki óalgengt, að forseti þingsins komi úr röðum stjórnarandstæðinga, t.d. frá stærsta stjórnarandstöðuflokknum. Forysta í þingnefndum dreifist á bæði meirihluta og minnihluta og almennt er þar gengið út frá þinginu sem slíku sem sjálfstæðri stofnun og óháðri framkvæmdarvaldinu og óháðri meirihluta og minnihluta á hverjum tíma. Við val í trúnaðarstöður er litið til reynslu og hæfni en ekki bara þess hvort menn tilheyri meirihluta eða minnihluta. Á Alþingi Íslendinga hefur því miður í vaxandi mæli á undanförnum árum fyrst og fremst verið horft til þess eins hvort menn tilheyri meirihlutanum eða minnihlutanum. Þaulreyndir stjórnmálamenn með langan og farsælan feril að baki, sem formenn þingflokka eða sem ráðherrar í ríkisstjórnum, sitja sem fulltrúar minnihluta undir stjórn óreyndra nýliða í þingnefndum eða í alþjóðanefndum þingsins og þessi þróun hefur ágerst á síðustu árum. Svo rík er þessi tilhneiging orðin að ekki svo mikið sem einn einasti varaformannspóstur kom í hlut stjórnarandstöðunnar við kosningar í nefndir og ráð sl. vor.

Þegar breytingar voru gerðar á þingsköpum árið 1991 átti að brjóta í blað. Starfsaðstæður þingmanna voru bættar almennt og reynt var að skapa meira jafnvægi milli meirihluta og minnihluta, ekki síst með því að fulltrúar minnihlutaþingflokka á Alþingi færu með formennsku í þingnefndum, u.þ.b. í samræmi við hlutfallslegan styrk sinn á Alþingi. Þetta fyrirkomulag gafst ágætlega og forystumenn stjórnarandstöðu veittu mikilvægum þingnefndum forystu á kjörtímabilinu 1991-1995 og aftur 1995-1999. Nægir að nefna í því sambandi að Halldór Ásgrímsson var formaður efnahags- og viðskiptanefndar á fyrra kjörtímabilinu, Kristín Ástgeirsdóttir formaður félagsmálanefndar og Steingrímur J. Sigfússon formaður sjávarútvegsnefndar lengstan hluta af hinu síðara.

Því miður hefur orðið mikið bakslag í þessari þróun að undanförnu. Í raun hefur Alþingi horfið til baka tvo til þrjá áratugi aftur í tímann, aukið valdboð meirihlutans svífur nú yfir vötnunum og framkvæmdarvaldið virðist í vaxandi mæli líta á Alþingi sem hreina afgreiðslustofnun fyrir sín frumvörp. Aðstöðumunurinn hefur farið vaxandi, ráðuneytin stækkað og styrkst að mannafla, ráðherrar taka nú tvo, þrjá, fjóra pólitískt ráðna flokksmenn með sér inn í ráðuneytin, ráðgjafa blaðafulltrúa og verkefnisstjóra til viðbótar hinum lögbundnu aðstoðarmönnum. Stjórnarandstaðan hefur setið eftir með tvær hendur tómar, án nokkurra möguleika til að undirbúa mál og vinna til jafns við meirihlutann og ríkisstjórn. Þetta hefur leitt til þess, að það heyrir næstum sögunni til, að viðamikil frumvörp séu samin á vettvangi stjórnarandstöðunnar eða yfirleitt annars staðar í þjóðfélaginu en í ráðuneytunum undir handarjaðri pólitískra ráðherra. Við allt þetta bætist að frumvörp koma iðulega seint fram frá ríkisstjórn, illa undirbúin og þegar líður að vori. En engu að síður er ásetningur og ætlun framkvæmdarvaldsins að keyra þau í gegn. Þessu hefur Alþingi þurft að sæta og þetta plagar hér öll skipulögð og öguð vinnubrögð. Þetta hefur auðvitað torveldað alla viðleitni til að gera Alþingi að skipulagðari og fjölskylduvænni vinnustað, þar sem almennt mætti reikna með reglulegum og fyrirsjáanlegum vinnutíma og dagskrá. Þar er ekki við stjórnarandstöðuna að sakast, allra síst þá sem nú situr og er óvenju fáliðuð.

Núverandi frumvarp

Þegar forseti Alþingis boðaði í ræðum sl. vor, að hann hygði á breytingar á þingsköpum og endurskipulagningu þingstarfa var því almennt tekið vel, þar á meðal og ekki síst af Vinstrihreyfingunni – grænu framboði. Við höfum haft og höfum margvíslegar hugmyndir um hvernig betrumbæta megi vinnubrögð á Alþingi, endurskipuleggja þinghaldið og vanda betur til lagasetningar og almennra vinnubragða hér á þingi. Margar af þeim hugmyndum höfum við sett fram og sumar þeirra hafa ratað í einhverjum mæli í frumvarp forseta og formanna fjögurra þingflokka. En þegar ljóst varð, að forseti Alþingis vildi binda umbætur á starfsaðstæðum þingmanna og stjórnarandstöðunnar órjúfandi böndum við að ræðutími og málfrelsi yrðu skorin niður við trog og í raun endanlega takmarkað við tiltekin tímamörk, skyldu leiðir. Vinstrihreyfingin – grænt framboð er ekki til umræðu um að afsala þessu vopni úr vopnabúri stjórnarandstöðunnar og þar með er Alþingi sjálft í heild óvenju veikt gagnvart framkvæmdarvaldinu við núverandi aðstæður nema annað komi í staðinn. Á meðan forseti, sem hefur mikið geðþóttarvald um að ákveða dagskrá þingsins og alla tilhögun á vinnu hér, kemur úr röðum meirihlutans; á meðan allir formenn og allir varaformenn nefnda koma úr röðum meirihlutans; á meðan meirihluti er svo stór að hann getur veitt sjálfum sér afbrigði og þannig stóraukið hraðann á afgreiðslu mála í andstöðu við minnihlutann; á meðan ráðherrar eiga að fá meiri tíma til umræðna heldur en þingmenn; á meðan óbreytt viðhorf virðast ríkja hjá framkvæmdarvaldinu um „afgreiðsluhlutverk“ Alþingis á málum framkvæmdarvaldsins erum við ekki tilbúin til að leggja endanlega frá þingmönnum og í eitt skipti fyrir öll, með óafturkræfri ákvörðun, það vopn úr forðabúri minnihlutans sem helst bítur þegar í harðbakkann slær. Þetta vopn er möguleikinn til að hægja á afgreiðslu umdeildra deilumála í krafti málfrelsis okkar, rétturinn til að koma ítarlegri röksemdafærslu að í stórum og flóknum málum, rétturinn til að koma því til skila út í þjóðfélagið með hörðum umræðum í heyranda hljóði á Alþingi að átök séu um tiltekinn málabúnað. Málfrelsisvopnið erum við Vinstri græn ekki tilbúin til að selja endanlega frá þingmönnum. Það er ekki vegna þess að markmiðið í sjálfu sér sé að halda langar ræður á Alþingi, heldur vegna þess að þetta tæki, þessi réttur, er hluti af stærri heild sem hefur áhrif á valdajafnvægi milli stjórnar og stjórnarandstöðu, milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds sem er fyrir allt of bjagað, stjórnarandstöðunni og þar með þinginu í óhag gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Núverandi frumvarp er að okkar mati vanhugsað og tekur ekki mið af því sem eru augljóslega borðleggjandi aðstæður í þróun starfshátta Alþingis. Alþingi Íslendinga er gömul stofnun sem byggir á sterkum hefðum og ein og af þeim er ótakmarkað málfrelsi þingmanna sem nánast án undantekninga hefur verið virt í gegnum þingsöguna, þrátt fyrir heimildir í þingsköpum til takmarkana. Því verður seint trúað, að núverandi ríkisstjórn, sem byggir á óvenju sterkum meirihluta, sé svo hrædd við hina fáliðuðu stjórnarandstöðu, að einmitt núna þurfi að skerða málfrelsi hennar og veikja vígstöðu hennar gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð bauð fyrir sitt leyti upp á breytingar sem hefðu falið í sér umtalsverða afmörkun ræðutímans, þar á meðal að almennt myndi gilda við þriðju umræðu sams konar takmarkanir og við fyrstu umræðu. Við aðra umræðu, sem er aðalefnisumræða um frumvörp, vildum við að giltu að sönnu nokkuð rýmri ræðumörk, auk þess sem til staðar væri sjálfstæður og óskilyrtur réttur þingflokka til þess að slík umræða færi fram án tímatakmarkana, ef mikið lægi við. Enn fremur höfum við talið, að sjálfgefið sé að umræður um fjárlagafrumvarp, frumvörp til breytinga á stjórnskipunarlögum og jafnvel nokkur önnur mikilsverðustu mál á hverju þingi, eins og skýrslu utanríkisráðherra um utanríkismál, færu fram án tímatakmarkana. Slíkar takmarkanir eða slíkan ramma um ræðuhöld samhliða skynsamlegri skipulagningu á þingfundartíma, lengdum og lotuskiptum starfstíma Alþingis, höfum við talið að sé auðvelt að þróa þannig að til framfara horfi fyrir þingið. Samhliða stórbættum aðbúnaði og umgjörð um störf þingmanna, auknum stuðningi og aukinni upplýsingagjöf, rannsóknardeildum, hagdeild sem styddi við baki á fjárlaganefnd, efnahags- og skattanefnd og fleiri þingnefndum sem fjalla um slík mál, mannréttindadeild sem væri Alþingi sérstaklega til ráðuneytis í slíkum málum og öflugra starfi á bak við utanríkismálanefnd, svo nokkur dæmi séu tekin – allt myndu þetta flokkast sem ótvíræð framfaraskref, væri vilji fyrir slíku. Ef völdum væri betur dreift innan þingsins, þannig að stjórnarandstaðan ætti aukna hlutdeild í formennsku þingnefnda og helst sjálfan forseta þingsins, væri ólíku saman að jafna því sem nú er boðið upp á. Loks þarf að hækka þröskuld fyrir veitingu afbrigða frá þingsköpum þannig að minnst þrír fjórðu hlutar þingmanna þurfi að samþykkja slíkt.

Því miður er það niðurstaða Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og þingflokks hennar, að með óbreyttu frumvarpi forseta og fylgismanna hans sé ekki verið að stíga framfaraskref, heldur þvert á móti. Aðrar og miklu nærtækari ráðstafanir séu heppilegri, vilji menn virkilega styrkja þingræðið og þingið og lýðræðislegan rétt og áhrifamátt þingmanna gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það sem þarf er sterkara, sjálfstæðara og óháðara Alþingi sem veitir framkvæmdarvaldinu aukið aðhald en ekki færiband fyrir frumvörp ríkisstjórnarinnar sem gengið getur á tvöföldum hraða.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð tekur ábyrgð sína sem stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn alvarlega og mun ekki bregðast þeirri skyldu sinni, að standa vörð um málfrelsi og rétt þingmanna, sterka stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu og það mikilvæga hlutverk, að Alþingi sé opinn vettvangur í heyranda hljóði til skoðanaskipta um þjóðmál, jafnt stór sem smá. Við munum gera okkar ítrasta til að tryggja, að þegar stór og umdeild mál eiga í hlut sé öruggt að afgreiðsla þeirra fari aldrei fram með hraði og í skjóli myrkurs, heldur gefist nægilegur tími og ráðrúm til þess að rökræða þau, gagnrýna þau, deila á þau og að bergmál þeirra umræðna berist út í þjóðfélagið þannig að öllum megi ljóst vera hvað í vændum sé.

Niðurlag

Störf þingsins undanfarin ár hafa þróast þannig, að umræður hafa almennt verið að styttast og kvöldfundir, hvað þá næturfundir, heyra að mestu sögunni til. Þetta er með sárafáum undantekningum þar sem í hlut eiga stór, stök umdeild mál. Umræður fara nú almennt fram á dagfundum án nokkurra vandræða og stærstur hluti lagafrumvarpa og þingsályktunartillagna er ræddur og afgreiddur með umræðum sem taka frá hálfri og upp í eina til tvær klukkustundir. En eftir standa hin stóru átakamál samtímans hverju sinni. Og því má spyrja: Teldu menn að það hefði verið í þágu öflugra lýðræðis, góðra stjórnsýsluhátta og málfrelsis ef fyrirhuguð þingsköp hefðu gilt þegar ríkisstjórn Davíðs Oddssonar lagði fram sitt fræga og umdeilda fjölmiðlafrumvarp sem aldrei varð að veruleika? Var til of mikils mælst, að aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu væri rædd í þann tíma sem raun bar vitni? Var ekki nokkuð til vinnandi þegar menn gagnrýndu og andæfðu einkavæðingu Ríkisútvarpsins með þeim árangri meðal annars, að að lokum tókst að knýja fram, að þrátt fyrir hlutafélagavæðingu skyldu bæði stjórnsýslulög og upplýsingalög ná til Ríkisútvarpsins ohf? Voru umræður um öryrkjadóminn eða byggingu Kárahnjúkavirkjunar ekki fullgildar og þó lengri hefðu verið í ljósi þess sem í hlut átti? Var það ekki þess virði, að stjórnarandstaða þess tíma, Samfylking, Vinstri græn og Frjálslyndi flokkur, skyldi hafa þau réttindi sem þingsköpin geyma þegar tókst að koma í veg fyrir fyrirhugaða einkavæðingu á vatni og beina því máli í annan farveg og gildistöku frumvarpsins aftur fyrir alþingiskosningar? Það hefur nú leitt til þess að málið er í heildarendurskoðun. Dæmin eru fjölmörg og menn skyldu hugsa sinn gang vel áður en þeir afgreiða það sem einfalt mál, að réttindi stjórnarandstöðunnar að þessu leyti eigi að vera föl fyrir smávægilegar lagfæringar sem löngu átti að vera búið að grípa til á starfsaðstæðum þingmanna eða til þess að efna níu ára gömul loforð tengd síðustu kjördæmabreytingu. Bættar starfsaðstæður þingmanna eru auðvitað sjálfstætt mál og slíkt á að gera óháð breytingu á lögum um þingsköp. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur frá upphafi mótmælt því að þessir hlutir séu spyrtir saman sem einhver verslunarvara. Skynsamlegast væri að fram færi heildarúttekt á störfum þingsins þar sem skipulega væri tekið á hverjum veikum hlekk og lagðar fram heildstæðar tillögur til úrbóta.

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er jafn áhugasamur og fyrr um að endurskipuleggja starfshætti Alþingis, bæta og vanda mun meir til vinnubragða við lagasetningu, þróa Alþingi í átt til faglegri og fjölskylduvænni vinnustaðar og gera breytingar sem raunverulega styrkja þingið, þingræðið og lýðræðið í landinu. Þessum markmiðum ná hins vegar hvorki óbreytt frumvarp forseta og þaðan af síður þau vinnubrögð að rjúfa hefð um samstöðu um slík mál og keyra þau áfram í ágreiningi við stærsta flokk stjórnarandstöðunnar. Breytingar á hvoru tveggju frumvarpinu og vinnubrögðum forseta eru því óhjákvæmilegar eigi farsæl niðurstaða að nást.