Fara í efni

FORSENDUR ÞJÓÐARSÁTTAR - HVAÐ ÞARF TIL?


Mönnum verður nú tíðrætt um mikilvægi þjóðarsáttar. Hvað þýðir það? Það þýðir að allir leggist sameiginlega á árarnar til að vinna okkur út úr þeim vanda sem að þjóðinni óneitanlega steðjar. Ég er í hópi þeirra sem hef talað fyrir slíkri sátt.  En hvað þarf til að menn leggist sameiginlega á árarnar?

Í fyrsta lagi þarf að jafna kjörin. Til að fólk leggist saman á árarnar þarf því að finnast það vera á sama báti. Láglaunamanni finnst hann eiga lítið sameiginlegt með fólki sem ferðast á einkaþotum og prívatsnekkjum og veit ekki aura sinna tal. Grípa þarf til  skattkerfisbreytinga og breyta greiðslum almannatrygginga með það að markmiði að jafna kjörin í landinu. Á undanförnum mánuðum hefur stjórnvöldum verið meira umhugað að bæta kjör þeirra aðila í þjóðfélaginu sem búa við best kjör en þessara hópa. Nefni ég þar sem dæmi ívilnanir til lögaðila vegna söluhagnaðar hlutafjár.

Í öðru lagi þarf að styrkja innviði samfélagsins. Svo hefur verið þrengt  að ýmsum grunnstofnunum velferðarþjóðfélagsins  að áhöld eru um að þær geti sinnt þeim verkefnum sem þeim er ætlað að sinna. Hér má nefna heilbrigðisþjónustuna og  þjónustu við fatlaða. Veikar velferðarstofnanir bitna verst á þeim sem hafa minnstu tekjurnar.

Í þriðja lagi þarf að snúa af braut einkavæðingar.  Ríkisstjórnin hefur stefnt hraðbyri að því að markaðsvæða heilbrigðisþjónustuna.  Þrengt hefur verið að heilsugæslu og sjúkrahúsum og þeim þröngvað til að fela einkaaðilum aðskiljanlega rekstrarþætti.  Fjárhagslegar þrengingar löggæslunnar valda því  að sveitarfélög eru sum hver farin að fela einkafyrirtækjum gæsluhlutverk sem verið hafa á könnu lögreglu. Þetta veldur gríðarlegri óánægju.

Í fjórða lagi þarf að skapa fjármálastofnunum ábyrgari  lagaramma sem gerir þeim erfiðara um vik að setja efnahagslífið á spil. Aðskilja þarf viðskiptahluta bankanna fjárfestingahlutanum. Þetta samkrull veldur því að þegar fjárfestingarbraskið reynist allt á sandi reist þá riðar allt fjármálakerfi landsmanna til falls.

Oft tala menn um þjóðarsátt eins og hún verði tekin upp úr hatti bara ef þrír eða fjórir svokallaðir lykilmenn komi sér saman um það. Þetta er fjarri lagi. Til að þjóðarsátt verði annað en orðin tóm þarf þjóð að standa sáttinni að baki.  Á Íslandi verður engin þjóðarsátt ef haldið verður áfram að hygla stóreignafólkinu, gera aðför að Íbúðalánasjóði, einkavæða heilbrigðisþjónustuna, svíkja gefin fyrirheit gagnvart öldruðum og öryrkjum, henda peningum í hernaðarbrölt og gæluverkefni, skerða kjörin innan löggæslunnar og segja þar upp fólki - og þannig mætti áfram telja.
Þjóðarsátt má hins vegar ná að mínu mati ef snúið verður af þessari braut á þeim forsendum sem nefndar eru hér að ofan. Ég vona að við berum gæfu til þess að sameinast um þessi markmið.