Fara í efni

FORSETAFRAMBOÐ

Sæll Ögmundur.
Ég er nú eftir langa mæðu orðinn ágætlega sáttur við Ólaf Ragnar sem forseta, raunar svo sáttur að ég er farinn að skrifa og tala fyrir því að hann bjóði sig fram aftur. Það er ekki bara vegna þess að ég er orðinn mjög sáttur við Ólaf sem ég er að hvetja hann til að bjóða sig fram aftur, heldur líka vegna þess ef hann næði kjöri í kosningum núna þá væri það til marks um að þjóðin vill hafa forseta sem hefur hagað sér eins og hann hefur gert undanfarið með því að leyfa þjóðinni að eiga síðasta orðið um sum mál eins og við þekkjum. Þannig er kosning um Ólaf líka kosning um mótun forsetaembættisins.
Nú er almennt álitið frekar óljóst hvað Ólafur er að pæla, hvort hann er að hætta eða hvort hann vill fá smá pepp áður en hann fer aftur í framboð.
Þess vegna ætla ég að vara þig við því að ef hans niðurstaða verður sú að bjóða sig alls ekki fram til forseta, þá ætla ég að skora á þig að fara í forsetaframboð og tala og skrifa fyrir því að fleiri skori á þig.
Ástæðan fyrir því að þú verður fyrir valinu að Ólafi afskrifuðum er sú að mér finnst þú hafa unnið hressilega á í störfum þínum sem ráðherra. Þú ert ákveðinn, réttsýnn, landsföðurlegur, heiðarlegur, óspilltur og maður fólksins eftir því sem ég kemst næst. Þú hefur áunnið þér vinsældir fólks úr öllum áttum, auðvitað tapað einhverjum áhangendum líka, á heildina litið staðið þig afar vel að almannadómi. Þannig mann vil ég fá sem forseta en alls engar poppstjörnur eða dúkkulísur eða menn með vafasama fortíð.
Það eru vandfundin frambærileg forsetaefni sem náð gætu góðri kosningu. Mér sýnist þú í fljótu bragði vera sá eini í spilunum sem bæði gætir hlotið góða kosningu og staðið undir starfanum. Þess vegna sé ég mig tilneyddan að reyna að draga þig út í þetta framboð að því gefnu að Ólafur vilji ekki meir.
Gleðilegt ár!!
Jón P. Líndal