Forstjóri Stöðvar tvö hafi það sem sannara reynist
Birtist í Fréttablaðinu 10.09.2003
Sigurður G. Guðjónsson forstjóri Stöðvar tvö bregst við greinaskrifum mínum um uppsagnir á stöðinni í Fréttablaðinu sl. föstudag. Hann bendir þar réttilega á að ég hafi ekki getið um alla þá sem reknir hafi verið á undanförnum vikum og mánuðum. Þeir séu miklu fleiri en fram hafi komið í mínum skrifum. Þetta er hryggilegt að heyra og vissulega er það rétt ábending hjá Sigurði að fyrst og fremst séu það þekktu andlitin sem fái athygli og samúð, síður hinir sem ekki eru fólki kunnir. Það er hins vegar ósanngjarnt hjá honum að ætla mér að þykja einn vera öðrum merkilegri þegar svona ber undir.
Að umgangast sannleikann
Svo er ekki. Í grein sinni kappkostar Sigurður að sýna fram á að ég sé ósannindamaður og vitnar hann í eftirfarandi úr skrifum mínum: "Í þessum umræðum virðist oft gleymast að Ríkisútvarpið er rekið með iðgjöldum og tekjum af auglýsingum en ekki beinum framlögum af fjárlögum. Ef Ríkisútvarpið fer fram úr áætlun þarf það að afla lánsfjár eða skera niður."
Þetta segir forstjóri Stöðvar tvö vera helber ósannindi og vitnar hann í fjárlagavefinn þar sem segir frá því hvernig Ríkisútvarpið hafi staðið í hallarekstri á undanförnum árum, því hafi verið gert að hagræða en þar sem ekki hefði verið staðið við fyrirhugaða hækkun afnotagjalda í ársbyrjun 2002 hafi verið ákveðið að veita stofnuninni 140 milljón króna framlag á fjáraukalögum.
Síðan segir Sigurður G. Guðjónsson um þessi atriði: "Þetta er ekki í fyrsta og eina skiptið sem ríkissjóður hefur hlaupið undir bagga og lagt Ríkisútvarpinu til fé. Í raun hefur það verið regla frekar en undantekning á umliðnum árum, enda stofnunin í eigu ríkisins og rekið með fjárhagslegri ábyrgð þess. Til hvers að hafa þingmann sem umgengst sannleikann með þeim hætti sem Ögmundur gerir?"
Afnotagjöld og auglýsingatekjur
Þetta er ágæt spurning. En hvor skyldi það nú vera Sigurður eða ég sem ekki kann að umgangast sannleikann? Það er óvéfengjanleg staðreynd að Ríkisútvarpið er rekið með afnotagjöldum og auglýsingatekjum. Ef það þarf á meiri fjármunum að halda er það nauðbeygt til að ganga á eigin eignir eða taka lán. Það var til dæmis gert í tengslum við flutninga Sjónvarpsins frá Laugavegi í Efstaleiti. Hvað snertir umrædda 140 milljóna fjárveitingu þá er hún tilkomin eins og reyndar fram kemur í grein Sigurðar G. Guðjónssonar, vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að standa ekki við áður gefin fyrirheit um hækkun afnotagjalda. Óttast var að hækkunin myndi örva verðbólgu og hafa skaðleg áhrif á vísitölutengingar. Þess vegna var ákveðið að bregðast við með þessum hætti við aðstæður sem að mati stjórnvalda voru mjög sérstakar. Varðandi hins vegar þá fullyrðingu Sigurðar að greiðsla af þessu tagi hafi verið "regla fremur en undantekning á umliðnum árum" þá er hún alröng. Veitt var fé af fjárlögum til endurnýjunar langbylgjustöðva Ríkisútvarpsins á Gufuskálum og Eiðum. Síðan ekki söguna meir.
Ég efast ekki um að Stöð tvö er að fara í gegnum miklar þrengingar og staða forstjóra fyrirtækisins er án efa ekki öfundsverð. Hann bætir hana hins vegar ekki með því að fara með rangar fullyrðingar. Vonandi mun hann bera gæfu til þess að haga málflutningi sínum á heiðarlegri hátt en hann gerir í Fréttablaðinu síðastliðinn föstudag.