FORYSTA SAMFYLKINGAR MÆRIR THATCHER
Síðastliðinn sunnudag fór ég utan til að sitja alþjóðlegan fund fulltrúa verkalýðsfélaga sem sæti eiga í stjórnum lífeyrissjóða. Til umfjöllunar voru stefnur og straumar í fjárfestingum lífeyrissjóða og viðhorf innan verkalýðshreyfingar í þeim efnum. Á undanförnum tveimur og hálfum áratug hefur einkavæðingarbylgja farið yfir heiminn og standa lífeyrissjóðir frammi fyrir þeirri spurningu að hvaða marki þeir eigi að fjárfesta í einkavæddum fyrirtækjum sem iðulega eru komin á markað gegn þeirra vilja. Um þetta efni mun ég fjalla fljótlega hér á síðunni.
"Merkilegur" árangur?
En það er viðtal við hinn geðþekka iðnaðarráðherra vorn sem ég staðnæmist við að þessu sinni. Viðtalið við Björgvin G. Sigurðsson þakti opnu í síðasta Sunnudags-Mogga og var því á meðal lestrarefnis á ferðalagi mínu. Viðtalið kom síðan upp í hugann eftir umræddan fund því þarna eru ýmsar tengingar á milli.
Einkavæðing velferðarþjónustunnar hófst með valdatöku þeirra Thatchers í Bretlandi og Reagans í Bandaríkjunum. Þau hrundu af stað allsherjar markaðsvæðingarátaki hvar sem því var komið við; máttu hvorki lifandi né dautt sjá án þess að reyna að koma því á markað. Um Thatcher segir Samfylkingarmaðurinn Björgvin G. Sigurðsson í fyrrnefndu viðtali: "Margrét Thatcher náði merkilegum árangri á sumum sviðum, s.s. með tímabærri einkavæðingu stofnana og lækkun skatta á fyrirtæki. Hún hleypti lífi í atvinnulífið og stuðlaði að stöðugleika og uppgangi. Blair og Brown höfðu vit á því að hrófla ekki við því þegar þeir komust til valda..." Blair sótti inn "á miðjuna" segir Björgvin: "Fyrir vikið náðu vinsældir hans langt út fyrir hefðbundnar raðir flokksins."
Þetta er nokkuð sérstæð söguskoðun. Í fyrsta lagi sótti Verkamannaflokkurinn lengra en inn að miðju því undir stjórn Blairs hélt hann á slóðir talsvert hægra megin við miðjuna(athyglisvert er þegar flokkar sem eiga rætur í félagshyggju gerast hægri sinnaðir þá reyna þeir að verja sig með því að segjast vera að sækja inn á miðjuna!). Flokkurinn tók nú fylgi frá Íhaldsflokknum – það er vissulega rétt - en á sama tíma og vinstri sinnað fólk í Verkamannaflokknum, ekki síst í verkalýðshreyfingunni, var í fullkominni andstöðu við flokksforystuna. Það fólk komst hins vegar ekkert vegna kosningakerfisins í Bretlandi!
Hvað var svona gott við einkavæðingu Thatchers – og Blairs?
Sem áhugamaður um bresk stjórnmál og tengingu við pólitískar hræringar samtímans get ég ekki orða bundist. Margareth Thatcher gerði alvarlegustu atrennu síðari tíma til að grafa undan félagslegri réttindabaráttu og veikja stoðir velferðarsamfélagsins; allt til þess að greiða götu einkafjármagns. Henni varð mikið ágengt. Því miður. Og því miður fetaði Blair í fótspor hennar. Þess má geta að Thatcher dáði Blair – og mun það hafa verið gagnkvæmt - enda af sama pólitíska sauðahúsinu.
En hvaða "stofnanir" breskar skyldi Björgvin G. Sigurðsson annars hafa talið tímabært að einkavæða? - fangelsin (þar hefur verið einkavætt á kostnað réttinda og kjara starfsfólks) , skólana ( þar hafa ýmsir þættir verið einkavæddir, frægar að endemum eru hinar einkavæddu skólamáltíðir), járnbrautirnar ( til einkavæðingar eftirlitsins með lestunum er talið að rekja megi mörg alvarleg slys), vatnsveitur ( þjónusta hefur versnað við einkavæðingu veitustofnana, kjör starfsmanna rýrnað og viðhaldi er ábótavant), raforkuna, heilbrigðisþjónustu? – listinn er langur. Þykir íslenskum Krötum þetta hafa verið stórkostlegt og til eftirbreytni? Ég bara spyr. Beðið um meira í anda Thatchers! BGS, ráðherra Samfylkingarinnar, segir nú líka vera brýnt að lækka skatta á fyrirtæki – enn meira – og miklu meira en Thatcher. Og skýrslan góða sem Sigurður Einarsson Kaupþingsforseti kynnti á fjölum Þjóðleikhússins í fyrra, þar sem lagt var til að Ísland verði gert að skattaparadís fjármálamanna, fær góða einkunn hjá ráðherra Samfylkingarinnar: "Ég er hrifinn af skýrslu um alþjóðlega fjármálastarfsemi á Íslandi sem kom út í fyrra og vil leita allra leiða til að efla hana frekar."
Hvor stendur lengra til hægri?
Björgvin er mjög upptekinn af því að Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin séu andstæður í íslenskum stjórnmálum og nú hafi þessir miklu risar myndað eins konar þjóðstjórn! Þetta er alrangt. Betur og betur er að koma í ljós hve áþekkir þessir flokkar eru í sinni pólitík og báðir eru þeir ósköp smáir í sér. Risatalið því vart við hæfi, allra síst um Samfylkinguna! Eftir viðtalið við Björgvin G. Sigurðsson gerist sú spurning jafnvel áleitin, hvor flokkurinn sé hægri sinnaðri Sjálfstæðisflokkurinn eða Samfylkingin. Ég þykist vita að munur er á kjósendum þessara flokka en hitt er erfiðara að gera upp við sig hvor er hrifnari af markaðshyggjunni, forysta Samfylkingar eða Sjálfstæðisflokks.
En varðandi andstæða póla í íslenskri pólitík bið ég menn að íhuga hverjir hafi verið pólarnir í átökum um mestu hitamál undangenginna ára: í deilunum um einkavinavæðinguna, Kárahnjúkavirkjun, fylgispektina við NATÓ og hernaðarstefnu Bush og Blairs... Kom gagnrýnin frá Samfylkingunni? Gæti verið að vinstri póllinn hafi heitið VG? Ég held að svo hafi verið. Stolnar fjaðrir fara engum vel.