Fara í efni

FRÁ FÆÐINGU KÓLUMBUSAR AÐ VINNA UPP Í STARFSLOKASAMNING


Fyrir fáeinum dögum birti Blaðið frétt, sem ekki fór mjög hátt í fjölmiðlaheiminum. Blaðið taldi sig hafa heimildir fyrir því að fráfarandi forstjóri Straums Burðaráss fengi starfslokagreiðsu, sem næmi einum milljarði króna nú þegar honum hefði verið sagt upp störfum. Blaðið segir að þessi samningur hafi verið gerður á milli forstjórans og þáverandi stjórnarformanns. Í fréttinni er svo haft eftir honum að hann myndi“ekkert eftir því hvernig samningar voru gerðir á sínum tíma.”

Milljarður til eða frá, hver man eftir slíku smáræði? Það er tímanna tákn að starfslokasamningur af þessu tagi skuli varla vekja athygli sem nokkru nemur enda þjóðin orðin vön að fylgjast með slættinum á milljarðamæringunum. Hér er þó um að ræða upphæð sem tæki láglaunamann með 150 þúsund á mánuði “einungis” fimm hundruð fimmtíu og fimm ár að vinna fyrir. Hann hefði með öðrum orðum verið sleitulaust að frá árinu 1451, því herrans ári sem landkönnuðurinn mikli Kólumbus fæddist, en óþarfi er að kynna þann fræga Ameríkufara til sögunnar.

Fyrir nokkrum árum var mikil gagnrýni uppi í þjóðfélaginu vegna svokallaðra biðlauna opinberra starfsmanna. Ef staða sem opinber starfsmaður hafði gegnt var lögð niður átti hann rétt á launum í 6 mánuði eða 12 mánuði ef hann hafði verið í starfi í meira en 15 ár, það er að segja ef um var að ræða ævistarf viðkomandi. Þessu var breytt með lögum árið 1996 og gildir biðlaunarétturinn ekki um nýráðningar frá þeim tíma. Þetta var að mínum dómi slæm og ósanngjörn lagabreyting. Hvað um það, svona gekk þetta fyrir sig. Það er þó ómaksins vert að bregða sér í samanburðarfræðin. Ársbiðlaun einstaklings með 150 þúsund krónur á mánuði nema tæpum tveimur milljónum króna og helmingi hærri upphæð að sjálfsögðu fyrir þann sem hefur 300 þúsund krónur á mánuði, eða nákvæmlega 3,6 milljónir. Ekki mikið þegar staða sem viðkomandi hefur gegnt um langa starfsævi er fyrirvaralaust lögð niður. Alla vega bliknar þessi upphæð - svo ekki sé fastar að orði komist í “blessuðu góðærinu” – þegar hún er sett í rökrétt samhengi við ígildi fimm hundruð og fimmtíu árslaunagreiðslurnar sem nú eru farnar að tíðkast í marmarahöllum íslenskra auðmanna.