Fara í efni

FRÁ VENESÚELA MÁ SJÁ HEIMINN SKÝRAR OG SKÝRAR …

Í Vensúela eru menn ekki á eitt sáttir um stjórnarfarið fremur en í mörgum öðrum ríkjum. Reyndar eru þar meiri átök en víðast hvar enda allt gert til að ýta undir hremmingar ríkisns megi það verða til að auka á illindi og átök. Bandaríkjastjórn er þar í fararbroddi og mörg erlend ríki fylgja þeim fast eftir; og þeim mun betur sem þau eru meiri viðhlæjendur. Það á við um Ísland en sem kunnugt er hefur utanríkisráðherra Íslands lýst yfir fyrir hönd ríkisstjórnar og þjóðar að við samþykkjum ekki Madúró forseta Venesúela heldur hinn sem þeir Trump, Pompeó segja að eigi að vera forseti landsins.

Til að koma forsetanum frá hafa andstæðingar stjórnarinnar í Venesúela sammælst um að herða stöðugt á viðskiptahömlum gagnvart  á Venesúela í þeirri von að þær geri þeim erfiðara um við að kljást við veiruna og veikindin af hennar völdum. Hvaða orð skyldu menn vilja nota um slíkan níðingshátt?

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fylgir náttúrlega húsbændum sínum í Washington ekkert síður en gert er í Reykjavík, og neitaði AGS Venesúela nýlega um lán til að glíma við yfirstandandi þrengingar.  (Sjá nýlega grein Jóns Karls Stefánssonar á Neistum:
https://neistar.is/greinar/ags-synir-sitt-retta-andlit/

Nú hefði maður haldið að vegna veirunnar sem þjakar mannkynið skapaðist samkennd með Venesúela. Svo er ekki, en um það fjallaði ég m.a. um síðustu helgi á pistli í helgarblaði Morgunblaðsins:
https://www.ogmundur.is/is/greinar/timi-endurmats

Nú er Pompeó, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og talsmaður íslenskra stjórnvalda í utanríkismálum, að leggja til að Nicolas Maduro, forseti Venesúela fari frá og ef hann geri það, þá sé Pompeó tilbúinn að láta sinn forseta, Juan Guaidó, lýsa yfir að hann sækist ekki eftir starfinu, en nýr maður verði þá fundinn.

Ljóst er að sá maður mætti ekki vera krítískur á bandaríska auðvaldshugsmuni, hvorki í Venesúela né annars staðar í Suður-Ameríku. Það gefur auga leið.

Er ég að færa hér í stílinn? Nei, svo er ekki. Eru það ýkjur að segja að íslenska ríkisstjórnin og Alþingi styðji þetta. Nei, það eru ekki ýkjur. Hér er greint frá yfirlýsingu utanríkisráðherra fyrir hönd Íslands: https://www.government.is/diplomatic-missions/embassy-article/2019/02/05/Statement-on-the-situation-in-Venezuela/

Væru það ýkjur að segja að þetta væri vesaldómur af hæstu gráðu? Nei, það væru engar ýkjur.
Sjálfur er ég reiðubúinn að taka dýrpa í árinni en læt vesaldóminn nægja að sinni sem einkunnagjöf um frammistöðu íslenskra stjórnvalda og undirgefni þeirra gagnvart alþjóðaauðvaldinu.

Horft frá Venesúela verður heimurinn skýrari og skýrari.

Hér er youtube um síðustu vendingar:   

https://www.youtube.com/watch?v=9qcc4tCFSTI&fbclid=IwAR2T0GiuaqJsJH8goOvqEOaeLsyaAYFlJ_xFj-dcVxdzCtuPRKZBUAmvWFo