Fara í efni

FRÁBÆR MENNINGARHÁTÍÐ

Nr.1
Nr.1


Með ánægjulegustu samkomum  sem ég sæki eru hinar árlegu Menningarhátíðir BSRB í Munaðarnesi. Þar rekur bandalagið stærstu orlofsbyggð verkalýðshreyfingarinnar í landinu ásamt þjónustumiðstöð. Í Munaðarnesi er á hverju sumri - og hefur svo verið í tæpa tvo áratugi  - efnt til málverkasýningar en við opnun hennar er haldin Menningarhátíð. Að þessu sinni er það sýning myndlistarkonunnar Soffíu Sæmundsdóttur sem prýðir þjónustumiðstöðina og stendur sýningin til 1. október nk.

Nr. 2Á Menningarhátíðinni er jafnan reynt að bjóða upp á það besta á sviði ljóðlistar og tónlistar og í dag var þar engin undantekning á. Stórkostlegt var að hlusta á eitt okkar allra besta og vinsælasta skáld, Þórarin Eldjárn, skáldið með djúpu röddina og alvarlegu, flytja ljóð sín. Í þeim er hvert orð og hver setning svo úthugsuð að þau fanga salinn í einu vetfangi. Djúp hugsun, óborganlegur húmor og glaðbeitt háð, ofið saman við gamla bragarhætti, gerði það að verkum að salurinn ýmist brosti eða skellihló.

Þá flutti söngkonan Hallveig Rúnarsdóttir lög eftir Tryggva M. Baldvinsson við ljóð úr Heimskringlu Þórarins við píanóundirleik Hrannar Þráinsdóttur. Frammistaða þeirra var tilþrifamikil þar sem að fylgdust fallegur og kraftmikill söngur með iðandi píanótónum og leikrænni gleði.

Yndislegt var svo að hlýða á Freyjukórinn borgfirska syngja undir stjórn og við undirleik Zsuzanna Budai - þar á meðal "nýklaklassík" lög á borð við Ísland er land þitt eftir Magnús Þór Sigmundsson. Innilegar þakkir flyt ég listafókinu öllu sem opnaði formlega myndlistarsýningu Soffíu Sæmundsdóttir með glæsibrag.

Myndlistarkonan Soffía Sæmundsdóttir er vel menntuð í list sinni, bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur haldið fjölmargar einkasýningar á liðnum árum og tekið þátt í samsýningum hér heima og að heiman. Þá hafa henni hlotnast alþjóðlegar viðurkenningar, sem og styrkir til að geta stundað list sína. Ég vil hvetja alla sem leið eiga um Borgarfjörðinn að koma við í þjónustumiðstöðinni í orlofsbyggðum BSRB í Munaðarnesi og skoða málverk Soffíu en sýningin stendur eins og áður sagði til 1. október. Af því verður enginn svikinn. Þá er kjörið að fá sér í leiðinni veitingar í veitingahúsinu Paradís sem Ásta Hrönn Stefánsdóttir rekur í þjónustumiðstöðinni.
r 3
Hallveig Rúnarsdóttir og Hrönn Þráinsdóttir
Nr 4
Nr. 5
Freyjukórinn söng í sumarskrúða
Nr. 6
Nr. 7
Þórarinn, Soffía Sæmundsdóttir myndlistarkona og undirritaður
Nr. 9
Brot úr einu af verkum listakonunnar
Nr. 8
Zsuzanna Budai, Þórarinn, Soffía, Hallveig og Hrönn, ásamt undirrituðum