Frábær pistill
Kæri vinur, Ögmundur, Alveg er þetta frábær pistill, langtum fremur predikun, á visi.is um Huldu og Nato Stoltenberg. Mér hefur verið hugleikið þessa dagana, ekki síst í ljósi þess að nú er fórnarkostnaðurinn í stríðinu í Úkraníu að nálgast milljón mannslíf, heimsins valdamenn keppast við að láta drepa fleiri og telja tilræði við sæmdina að biðja um frið, afhverju í ósköpunum heimurinn sé ekki kominn lengra á þroskabraut sinni en að sjá enga aðra leið til að leysa deilur ríkja í millum en að drepa fólk. Í alþjóðastjórnmálum gildir enn blóðhefnd endurgjaldslögmálsins sem fyrir löngu er búið að afnema innanlands í flestum sæmilega siðuðum ríkjum. Mafían og aðrar glæpaklíkur beita samt blóðhefndinni með miskunnarlausu endurgjaldi í viðskiptum sínum og ættu því að skipa sérstakan heiðursess í Nato. Það er grátlegt að horfa upp íslenska stjórnmálamenn á vettvangi Nato samsinna blóðhefndinni í stað þess að boða lofgjörð Huldu og skapa sér einstaka stöðu í veröldinni sem um leið yrði okkar styrkasta vörn gegn grimmdinni og hatrinu. Líklega hefur enginn lýst þessu betur en Jesús Kristur, en boðaskapur hans var einmitt gegn blóðhefndinni, þar sem fyrirgefningin með iðrun og afturhvarfi er kjölfestan, mótaði helgi lífsins og lagði grunn að lifandi von. Þú skalt elska, ekki hata.... Það er engin hugsjón til í stjórnmálum nútímans, aðeins græðgin fyrir mig og mína.....Svo líða hinir berskjölduðu og saklausu....
Kær kveðja,
Gunnlaugur