Fara í efni

FRÁBÆR STUND Í BOÐI UNGRA VINSTRI GRÆNNA


Í dag efndu Ung vinstri græn til "sorgar- og minningarstundar" um það land sem fór forgörðum við Kárahnjúkavirkjun. Auður Lilja Erlingsdóttir, formaður Ungra vinstri grænna, sagði að þótt hvorki stór hluti núlifandi kynslóða né komandi kynslóðir myndu fá að kynnast landinu sem fór undir lón virkjunarinnar skyldu menn ekki láta hugfallast því þrátt fyrir allt hefði barátta umhverfisverndarfólks skilað árangri: "Stóriðjusinnar munu hugsa sig tvisvar um áður en farið er út í aðgerðir sem þessar aftur. Ástæða þess að við buðum ykkur að koma hingað í dag og eiga stund með okkur er ekki einungis að minnast og syrgja þó við höfum fulla ástæðu til þess. Nei! Ástæðan er einnig sú að við verðum að senda stjórnvöldum og öðrum stóriðjusinnum þau skilaboð að við höfum engu gleymt og munum halda baráttu okkar áfram. Það mun aldrei aftur verða reist önnur eins virkjun á Íslandi. Það verða aldrei aftur framin önnur eins spjöll á landinu okkar. Aldrei! Því við leyfum það ekki."

Auður Lilja Erlingsdóttir, formaður UVG, kynnti síðan til sögunnar tvo flokksfélaga, annan sem fékk notið þeirrar náttúrudýrðar sem nú er komin undir lón og hinn sem mun aldrei fá hennar notið. Þetta voru þau Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Elías Jón Guðjónsson. Auður Lilja sagði jafnframt að þrátt fyrir sorglegt tilefni vildu Ung vinstri-græn jafnframt nýta það til að veita "ákveðnum hóp verðlaun fyrir ósérhlífna baráttu fyrir náttúru Íslands." Þetta reyndist vera þingflokkur VG og tók ég fyrir hans hönd við stórri ljósmynd eftir Christopher Lund. Það er Rauðaflúð sem sjá má á þessari tilkomumiklu mynd.

Gott framtak UVG og Christophers Lunds

Þá var þarna til sýnis ljósmyndabók sem stjórn Ungra vinstri grænna hafði útbúið í samvinnu við Chistopher Lund, ljósmyndara. Bókin er til minningar um landið sem fór undir miðlunarlónið við Kárahnjúka. Í texta fremst í bókinni segir m.a.: "Bók þessi geymir ljósmyndir af þessu landi áður en því var drekkt. Það er ósk okkar að núlifandi og komandi kynslóðir fái notið þessara mynda sem örlítillar sárabótar fyrir landið sem tekið var frá þeim, þó þær muni aldrei jafnast á við að kynnast landinu af eigin raun."
Ég varð mjög snortinn við þessa athöfn, bæði vegna þessa framtaks Ungra vinstri grænna almennt, viðurkenningarinnar til þingflokksins, bókar Christophers og síðast en ekki síst frábærra ávarpsorða sem flutt voru.

Að anda að sér landinu ... og opna blindum sýn!

Það rann upp fyrir mér, sem mig þó hafði áður grunað, að Guðfríður Lilja er sannkölluð listakona. Hugvekja hennar var frábærlega sterk, bæði litrík og tilfinningaþrungin og mjög á dýptina. Því miður var ég ekki með penna við höndina til að ná því niður sem hún sagði en hún dró upp áhrifaríka mynd af ferð sinni um þetta svæði árið 2003 og svo aftur nú í haust. Umhverfið varð manni ljóslifandi enda hafði sögukona andað að sér náttúrunni og landinu. Hún velti fyrir sér þeim fullyrðingum sem stundum heyrast að þeir sem aldrei hafa komið á tiltekið svæði hafi hvorki skilyrði né rétt til þess að hafa á því skoðun hvað gert er við það. Þetta væri fráleit afstaða. Guðfríður Lilja sýndi okkur hvernig náttúruverðmæti gætu átt sér huglæga eða andlega vídd. Þá vídd skynjuðum við sterkt í frásögninni af för hennar á þetta svæði. Þegar Guðfríður Lilja vaknar í lýsandi sólskini í Kringilsárrana, eftir erfiða för daginn áður um torleiði, finnst henni sem hún sé gengin inn í heim handan drottnunargirni mannsins. Þetta þótti mér vel mælt. Einnig hitt hvernig Guðfríður Lilja tengdi saman manneskjuna, náttúruna og listina. Ein samferðarkona Guðfríðar Lilju, mikil blómakona að hennar sögn, sagði á göngu þeirra hve gaman henni þætti að finna þarna marga góða vini og átti þá við gróðurinn, blómin, smávini fagra. Hugvekju sína endaði Guðfríður Lilja á erindi úr ljóði Jónasar Hallgrímssonar:

Smávinir fagrir, foldarskart!
finn ég yður öll í haganum enn;
veitt hefir Fróni mikið og margt
miskunnar faðir; en blindir menn
meta það aldrei eins og ber,
unna því lítt, sem fagurt er,
telja sér lítinn yndisarð,
að annast blómgaðan jurtagarð.

Guðfríður Lilja sagði margt annað í ávarpi sínu. Hún talaði um mátt blekkingarinnar og mikilvægi þess að berjast gegn henni með því að bera sannleikanum vitni. Þannig opnuðum við blindum sýn!
Að lokinni hugvekju Guðfríðar Lilju held ég að okkur hafi flest langað til að fara á stjá að berjast til varnar þeim svæðum sem eiga að standa handan drottnunargirni mannsins!

Fólk er að vakna!

Elías Jón Guðjónssyni mæltist einnig ákaflega vel. Hann talaði fyrir hönd þeirra sem aldrei hafa komið á svæðið. Hann sagði m.a.: "Ég er einn þeirra sem aldrei fékk að njóta náttúrunnar sem landsvæðið austan Vatnajökuls, Kárahnjúkasvæðið, hafði að geyma. Ég stend því hér, ekki einungis til þess að minnast þessa svæðis heldur líka til að syrgja þá staðreynd að stór hluti núlifandi kynslóða og komandi kynslóðir munu aldrei fá að njóta þessa lands.
Þau sem vildu sökkva náttúruperlunni fannst mikilvægt að þessi staðreynd kæmi fram – þ.e. að mjög fáir hefðu komið á svæðið – og töldu hana málstað sínum til framdráttar. Þeir áttuðu sig ekki á því að þetta voru í raun rök gegn því að landinu yrði fórnað. Ella mætti nota þessa röksemd til þess að réttlæta mörg af helstu mistökum og níðingsverkum mannkyns. Hefur þú komið þangað? Nei sprengjum það! Þekkir þú þetta fólk? Nei drepum það!
„Hefur þú komið þangað?“ Sögðu umhverfisskemmdasinnar með fyrirlitningartón við okkur sem gerðumst svo djörf að reyna að afstýra slysinu við Kárahnjúka og töldu sig hafa gjörsigrað rökræðurnar þegar einhver svaraði spurningunni neitandi.
Óborin börn mín munu spyrja svipaðrar spurningar. Þeirri spurningu verð ég því miður að svara neitandi. Ég mun þó stoltur geta sagt frá því að ég lagði mitt af mörkum til þess að ekki einungis ég gæti sagt börnum mínum að ég hefði komið þangað heldur til þess að ég gæti farið með þeim þangað og þau með sínum börnum og svo framvegis.
Þannig kýs ég að heiðra minningu landsins. Ég ætla að
gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að það verði aldrei aftur grundvöllur fyrir öðru eins. Slíkt kallar á algjöra hugarfarsbreytingu hjá okkur öllum, ekki bara okkur sem erum hér saman komin heldur öllum Íslendingum og í raun allri heimsbyggðinni. Þessi breyting mun á endanum verða ef við verðum nógu dugleg við að halda sjónarmiðum umhverfisverndar á lofti.
Þökk sé öllu því fólki, ekki síst þingflokki Vinstri-grænna, sem hefur á undanförnum árum gefið allt sitt í þágu náttúruverndar er nú þegar farið að votta fyrir breytingum.
Fyrir fjórum árum voru vinstri-græn nánast hunsuð þegar þau vildu ræða umhverfisvernd. Fyrir öðrum var staða umhverfisins ekki vandamál og hreinlega ekki á dagskrá. En nú fjórum árum síðar hefur fyrsta skrefið í átt til árangurs verið stigið. Nú er almennt viðurkennt að verndun umhverfisins er mikilvægt verkefni sem við verðum að takast á við ef ekki á illa að fara. Fólk er að vakna."

Jón Elías Guðjónsson lauk máli sínu með því að fara með eftirfarandi ljóð eftir Kára Pál Óskarsson:


Komið og farið

Til eru sérstakir menn
sem koma og fara,
sumir að sönnu þaulsetnari
en aðrir.
Þeir koma til áhrifa
og fara sínu fram:
við því virðist lítið að gera
annað en fyrtast við,
reiðast heimskunni,
græðginni,
skammsýninni,
skortinum á hugarflugi,

og tuða, malda í móinn.

Í kjölfar þeirrar
undarlegu iðju
surgar ávallt í eyrum mínum
sama spurningin:
„hefur þú komið þangað?”

Nei, þangað hef ég aldrei komið.
Og þangað mun ég alveg örugglega
aldrei fá að koma
úr því sem komið er:

það er allt, allt farið.