Fara í efni

FRAMSÓKN FARI ALLA LEIÐ en ekki WITH A LITTLE HELP ...

Þingflokkur Framsóknarflokksins ætlar að birta upplýsingar um tekjur og hagsmunatengsl þingmanna sinna. Þetta er lofsvert skref og gott, svo langt sem það nær. En því miður nær það ekki nógu langt. (Sjálfur birti ég upplýsingar um mín eigin kjör hér á síðunni undir liðnum ögmundur, sbr. hér að neðan eða efst í hægra horni undir líf og störf. Þessar upplýsingar um mín kjör hafa alltaf verið aðgengilegar ef eftir þeim hefur verið leitað en frumkvæði þingflokks framsóknarmanna varð til þess að ég setti þær hér inn á síðuna. Þökk sé honum að þessu leyti.)

Í öllum þjóðríkjum, sem við berum okkur saman við – á hinum Norðurlöndunum, Bretlandi og víðar, þykja upplýsingar um ráðherra, og víða um þingmenn einnig, vera sjálfsagðar. Að þessu leyti höfum við setið aftarlega á merinni. Hið sama gildir um fjárreiður stjórnmálaflokka. Það hlýtur að vera grundvallarkrafa að bókhald stjórnmálaflokkanna verði opnað upp á gátt. Þetta er eðlileg lýðræðisleg krafa og mikilvæg forsenda þess að okkur takist að útrýma spillingu í þjóðfélaginu. Einkavæðingarspillingin kallar sérstaklega á þetta nú um stundir. Kjósendur eiga heimtingu á því að fá að vita hvort vildarvinir ríkisstjórnarflokkanna þakka fyrir veittan greiða og hvernig. Þannig gerðist sú spurning áleitin fyrir síðustu alþingiskosningar hvort mokstur Framsóknarflokksins í auglýsingar hafi verið fjármagnaður upp úr söfnunarbaukunum einum, það er að segja á kaffistofum – eða hvort flokkurinn hafi getað tekið undir með Ringo Starr í frægu Bítlalagi, um að þetta hafi verið gert með aðstoð vina,  With a little help from my friends. Þótt Framsókn sé að stíga jákvætt skref með því að gera grein fyrir fjárreiðum þingmanna sinna þá stendur krafan á Framsókn um að fara alla leið og opna bókhald flokksins upp á gátt. Það er rangt sem haft var eftir þingflokksformanni Framsóknar í fréttum í dag, að með því að stíga það skref sem nú hefur verið stigið, sé Framsóknarflokkurinn búinn að hvítþvo sig af allri spillingu. Því er öðru nær. Flokkurinn ber ábyrgð á stórfelldum spillingarmálum á liðnum árum og á eftir að gera hreint fyrir sínum dyrum. Nauðsynleg forsenda þess er að flokkurinn opni bókhald sitt. Það þyrfti hann að gera nokkur ár aftur í tímann.