Fara í efni

FRAMSÓKN VILL MALBIKA SKERJAFJÖRÐINN

""Svo virðist sem stjórnmálamenn haldi aldrei á lofti orðinu sátt nema ósátt ríki." Svo mæltist Staksteinari Morgunblaðsins 19. apríl síðastliðinn þegar hótun Framsóknarflokksins um að múra upp í Skerjafjörðinn var til umræðu. Sem kunnugt er vill exbé í Reykjavík flytja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni og út á Löngusker í Skerjafirði og talar um að mynduð verði um þetta þjóðarsátt. Og Staksteinar varpaði fram spurningu: "Hvernig getur líka orðið sátt um flugvöll á Lönguskerjum þegar Skerjafjörðurinn er löngu orðinn helsta útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins með sínu fjölbreytta lífríki. Eru landfyllingar, flugvallargerð og flugumferð á slíkum stað líkleg til að skapa þjóðarsátt? Að ekki sé talað um kostnaðinn, sem rennur úr götóttum vasa skattgreiðenda."
Auðvitað er það sjónarmið að vilja setja flugvöll í Skerjafjörðinn og þess vegna ekkert að því að berjast fyrir því að svo verði gert. Ég leyfi mér hins vegar að fullyrða - og tek þar undir með Staksteinari - að um slíkt mun aldrei takast þjóðarsátt.

19. október á síðasta ári skrifaði ég eftirfarandi hér á síðunni:
"Sennilega myndi nú ekki nægja ein flugbraut, slank og fín braut. Ætli þyrfti ekki að vera hægt að snúa vélunum við, og jafnvel hafa tvær, þrjár brautir? Og til að hafa allan vara á þyrftu brautirnar að vera breiðar og eflaust standa hátt, svo öldugangur og særok stefndi öryggi ekki í hættu. Eftir því sem málið var betur ígrundað fylltist Skerjarfjörðurinn smám saman, þar til ljóst varð að flugbraut í Skerjafirði þýddi malbikaður Skerjafjörður, nánast stranda á milli, frá Ægisíðu til Álftaness.
En áhugamenn um að rýma til í Vatnsmýrinni sjást ekki fyrir og nú skilst mér að farið sé að hvetja til þess að sturta úrgangi í Skerjafjörðinn til að flýta flutningi flugvallarins úr Vatnsmýrinni í Skerjafjörðinn.
Af þessu tilefni langar mig til að segja tvennt. Annað er staðhæfing, hitt er spurning. Ef í alvöru stendur til að fylla Skerjafjörðinn af möl og malbiki, mega menn vita að það verður ekki gert án andmæla, og tek ég þar afar vægt til orða. Afar vægt, því jafnvel þótt koma mætti fyrir flugbraut í Skerjafirði án þess að fylla upp gervallan fjörðinn, stæði hitt eftir, að flugbraut á þessu svæði væri ekki fýsilegur kostur. Þetta er staðhæfingin. Síðan er það spurningin. Ef Vatnsmýrarlandið er svona eftirsóknarvert byggingarland, gildir ekki hið sama um Skerjafjörð, sem er aðeins steinsnar í burtu? Er ekki einsýnt að hið sama myndi gilda um Skerjafjörð og Vatnsmýri að verðmætum þætti á glæ kastað að setja uppfyllingarland þar undir flugvöll? Væri ekki nær að byggja á slíku landi?"
Sjá ná nánar HÉR.