Fara í efni

FRAMSÓKNARFLOKKURINN BRÝTUR BLAÐ Í AUGLÝSINGAMENNSKU


Framsóknarflokkurinn auglýsir nú ágæti sitt af miklu kappi og hvetur landsmenn til að kjósa flokkinn í komandi kosningum. Þetta gera aðrir flokkar einnig. En Framsóknarflokkurinn sker sig úr að tvennu leyti.

Ég votta samúð

Í fyrsta lagi ríður hann á vaðið með að innleiða auglýsingar sem hafa það að markmiði að skrumskæla andstæðinga flokksins, gera lítið úr þeim persónulega og afbaka málflutning þeirra. Þetta er þekkt úr bandarískri stjórnmálabaráttu. Vestanhafs hefur þetta sætt gagnrýni sómakærs fólks og hér á landi hefur til þessa enginn viljað leggja nafn sitt við slíka lágkúru. Þar til Framsóknarflokkurinn gerir það nú. Af  þessu tilefni vil ég votta forsvarsfólki flokksins samúð mína.
Í öðru lagi ætlar Framsóknarflokkurinn nú enn einu sinni að leika aftur það bragð að láta sem flokkurinn hafi hvergi komið nálægt stjórn landsins; hann komi nýr og ferskur að borði, jafnvel í málaflokkum sem flokkurinn hefur stýrt í langan tíma. Þannig auglýsir Framsóknarflokkurinn nú ókeypis tannlækningar til 18 ára aldurs. Frá því Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mynduðu ríkisstjórn vorið 1995 hefur Framsóknarflokkurinn farið með stjórn heilbrigðismála. Á þessu tímabili hefur árlega verið lagt fram frumvarp um þetta efni af hálfu stjórnarandstöðunnar og hefur Þuríður Backman, þingmaður VG, haft um það forystu á Alþingi síðustu árin. Heilbrigðisráðherrar Framsóknarflokksins hafa aldrei viljað ljá þessu máls. Nú er þetta skyndilega orðið mál málanna!

Að blekkja með auglýsingum

Þetta er ekki nýlunda hjá Framsóknarflokknum. Einhvern tímann voru það fyrirheit um barnakort sem síðan voru svikin. Þá voru það húsnæðislánin. Þar var lofað í málaflokki þar sem Framsóknarflokkurinn hafði verið í forsvari undangengin kjörtímabil. Engu að síður töluðu talsmenn  flokksins um húsæðismál, fullir vandlætingar og áttu vart orð yfir því skilningsleysi sem stjórnvöld hefðu sýnt á þessu sviði. Á komandi kjörtímabili átti að tryggja að lágtekju- og millitekjufólk gæti eignast íbúð. Nú er það kjörtímabil á enda runnið. Hver varð reyndin? Sennilega hefur það aldrei verið erfiðara en nú fyrir fólk með litlar tekjur og millitekjur að komast  yfir húsnæði!
HÉR má sjá dæmi um þær auglýsingar sem vitnað er til: http://kind.is/