Fara í efni

FRAMSÓKNARFLOKKURINN RÆSIR SPUNAVÉLINA

Framsóknarflokkurinn er nú að fara í gang með kosningabaráttuna með hefðbundnum hætti. Ljóst er að Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi flokksins, ætlar ekki að láta sitt eftir liggja í þessari kosningabaráttu. Hann vakti sérstaka athygli í síðustu borgarstjórnarkosningum fyrir að virða ekki umferðareglur stjórnmálanna og virtist sem honum þætti að kosningajeppi Framsóknar ætti alltaf að hafa forgang.

Björn Ingi skrifar á heimasíðu sína um það sérstaka hugðarefni sitt að koma bjór og léttvíni í almennar matvöruverslanir og er greinilegt að honum þykja þeir vera heldur betur forpokaðir sem slíku eru andvígir. Sérstaklega á það við um Vinstrihreyfinguna grænt framboð. Björn Ingi “upplýsir” að Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG hafi beitt sér fyrir því undir þinglokin að þingmál um þetta efni  yrði stöðvað!
Fyrir þá sem til þekkja er þetta nánast spaugilegt því svo fjarri eru þessar fullyrðingar  sannleikanum. Á Alþingi var vissulega borið fram frumvarp um þetta efni á þessu þingári einsog oft áður. Ósköp lítið fór fyrir málinu en það vakti hins vegar athygli mína að frumvarpið skyldi vera eitt þeirra þingmála sem tekið var út úr nefnd rétt fyrir þinglokin og sett á dagskrá þingsins.

Þegar samið var um þinglokin kom þetta tiltekna mál hins vegar nánast ekkert til umræðu að öðru leyti en því að ég spurði einhvern tímann á fundi þingflokksformanna hvort mönnum væri alvara að setja þetta mál í forgang á þeim afar knappa tíma sem var til þingloka eða hvort þetta væri sett á dagskrá þingsins í gamansemi – nánast til að ögra andstæðingum vínsölu í matvöruverslunum. Enginn þingflokksformaður sýndi því minnsta áhuga að koma málinu fram enda vitað um andstöðu í öllum flokkum og því ljóst að málið myndi kalla á umræðu. Steingrímur J. Sigfússon blandaðist aldrei inn í þessa umræðu að best ég veit.

Greinilegt er að það skiptir hins vegar Björn Inga og félaga engu máli. Frumvarpið hafði greinilega verið tekið úr nefnd til þess eins að Björn Ingi Hrafnsson og félagar fengju þráð að spinna úr þótt síðar væri. Sá tími er nú runnin upp og ljóst að spunavél Framsóknar hefur verið ræst.