FRAMTÍÐ FRIÐARGÆSLUNNAR
Að undanförnu hefur farið fram talsverð umræða um aðkomu Íslendinga að friðargæslustörfum. Eins og kunnugt er olli það talsverðum deilum þegar íslenskir friðargæsluliðar voru sendir til Afganistans til starfa í tengslum við Bandaríkjaher og NATÓ. Þótti okkur mörgum að verið væri að koma á fót íslenskum her bakdyramegin. Þessu var afdráttarlaust neitað af hálfu utanríkisráðuneytisins þótt myndir af íslenskum friðargæsluliðum sýndu menn með alvæpni og fram kæmi að þeir bæru titla og heiti sem notuð eru í herjum.
Nú er ég í hópi þeirra sem hef talað fyrir vopnaðri friðasrgæslu á vegum Sameinuðu þjóðanna. Ég er því til dæmis fylgjandi að slíkar sveitir annist friðargæslu fyrir botni Miðjarðarhafsins, Darfur og víðar. Hver á að annast slíkt? Er eðlilegt að Íslendingar skjóti sér undan slíkri ábyrgð?
Í mínum huga er að tvennu að hyggja. Í fyrsta lagi höfum við verið herlaus þjóð en lagt þess í stað áherslu á að láta gott af okkur leiða í alþjóðastarfi á sviðum þar sem við höfum sérþekkingu, svo sem í margvíslegu hjálpar- og uppbyggingarstarfi, lækningum og aðhlynningu. Ég tel að við eigum að halda áfram á þeirri braut.
Í öðru lagi eru áform um friðargæslusveitir algerlega háðar stefnu okkar í utanríkismálum. Ef Íslendingar gengju úr hernaðarbandalaginu NATÓ og aðgreindu sig algerlega bandarískum hernaðarhagsmunum, væri komin upp allt önnur staða en nú er.
Á meðan íslensk friðargæsla er undirseld hagsmunum stórvelda – eins og dæmin sanna - er betra heima setið en af stað farið.
Framlag Íslendinga á þessu sviði yrði aldrei af þeirri stærðargráðu að sköpum skipti. Framlag okkar gæti hins vegar haft mikilvæga táknræna þýðingu. Það ætti við hvort sem við værum sendiboðar Bush Bandaríkjaforseta og NATÓ eða ríki með sjálfstæða utanríkisstefnu. Hin táknrænu skilaboð yrðu hins vegar með gerólíku sniði. Þar til við breytum stefnu okkar í utanríkismálum og gerumst sjálfstæð í mótun utanríkisstefnunnar, eru engar forsendur til þess að efla íslenska friðargæslu.
Ekki veit ég um höfunda meðfylgjandi myndbands, sem óneitanlega sýnir vel hið militaríska yfirbragð íslensku “friðargæslunnar”, samanber HÉR.