FRAMTÍÐ LÍFEYRISKERFISINS
Birtist í Morgunblaðinu 20.02.12.
Hafin er löngu tímabær umræða um framtíð lífeyriskerfisins. Ekki svo að skilja að hún sé ný af nálinni því áratugum saman hafa lífeyrismálin brunnið heitar á samtökum launafólks en flest önnur mál. Ekki að undra, öll viljum við eiga tryggt ævikvöld og þar skiptir öllu að vita að við getum gengið að lífeyri sem vísum. Þess vegna erum við viljug að leggja til hliðar drjúgan hluta af tekjum okkar og geyma til efri áranna.
Ekki sparigrís
Fyrir nokkrum árum var mikil umræða, bæði hér á landi og víða um heim, um breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar og þjóðanna. Menn höfðu áhyggjur af því að vinnandi fólki færi fækkandi, öldruðum fjölgandi og spurning hvort verðmætasköpun yrði nóg til að rísa undir öllu bákninu, það er að segja með góðum lífskjörum fyrir aldraða. Eftir tilkomu lífeyrissjóðanna þagnaði þessi umræða hér á landi. Menn voru jú farnir að leggja fyrir. Vandinn var - og er - hins vegar sá að peningar geymast illa í því hagkerfi sem við búum við. Einmitt það gerði ég að umræðuefni í september árið 2004 og skrifaði þá m.a.:
Það má hins vegar ekki gleymast að það er enginn sparigrís sem safnað er í. Lífeyrissjóðirnir fjárfesta í atvinnulífinu og vandinn er nákvæmlega sá sami nú og hann var áður. Hvort sem verðmætin eru tekin út úr atvinnulífinu í gegnum skatta, svokölluð gegnumstreymislífeyriskerfi, eða í gegnum arðtöku lífeyrissjóða er verið að framkvæma nákvæmlega sama hlutinn: Að flytja til verðmæti í efnahagskerfinu. Spurningin er hvernig efnahagslífið rís undir því á hverjum tíma að greiða arð sem nemur því að framfleyta fjölmennri eldri kynslóð lífeyrisþega.... Það er ekki nóg að sýna jákvæðar arðsemistölur núna, spurningin er hvernig efnahagslífið verður í stakk búið þegar að því kemur að standa sína plikt. Dæmi: lífeyrissjóðirnir fjárfesta grimmt í KB banka, hann sýnir núna bullandi arð. Allir kátir. Síðan kemur að því að innheimta þennan arð ef við gefum okkur áframhaldandi eignarhlut lífeyrissjóðanna. Hvernig verður bankinn í stakk búinn að borga út eftir þrjátíu ár? Rís hann undir væntingum okkar?"
Hámarksávöxtunar krafist
Við vitum nú hvernig fór um sjóferð þá. En sjóferðinni er ekki lokið. Kerfið er nákvæmlega hið sama og það hefur verið síðan 1997 þegar lífeyrislögunum var breytt og allir sjóðirnir markaðsvæddir og gert að leita jafnan hámarksávöxtunar að teknu tilliti til áhættu. Sá skilningur var lagður í kröfuna um hámarksávöxtun hjá flestum sjóðum að þeim bæri skylda til að vera stöðugt á skimi eftir þeim kostum sem bestir gæfust, nánast þann daginn. Lífeyrissjóðir urðu í þeim skilningi ekki hinir þolinmóðu langtímafjárfestar sem margir ímynduðu sér að þeir væru, heldur vakrir skammtíma fjárfestar sem ávöxtuðu sitt pund sem best þá stundina. Þetta var líka tíðarandinn.
En lífeyrissjóðirnir voru líka trúir þeirri köllun sinni að ávaxta pund sjóðsfélaga. Ég sagði einhverju sinni í sjónvarpsþætti á árum áður, að ástæðan fyrir því að lífeyrissjóðirnir högnuðust öllum fjárfestum betur í þeirri kaup- og söluhrinu á eignarhlutum í bönkum sem þá gekk yfir, að þeir væru einu alvöru braskararnir; hugsuðu um það eitt að hámarka gróða en fyrir þeim vekti ekki að ná undirtökum eða völdum í atvinnulífi eins og vildi brenna við hjá ýmsum örðum fjárfestum!
Og lífeyrissjóðirnir græddu vel. Hagnaður Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins af fjárfestingum sjóðsins á árunum 2003 til ársloka 2007 nam 145 milljörðum króna! Þetta er talsvert umfram tapið hrunárin tvö sem síðan fóru í hönd. En hrunið var mörgum áfall og vonandi til skilningsauka á eðli fjárfestinga lífeyrissjóðanna á markaði. Þar eru þeir að sjálfsögðu undirseldir þeim sveiflum sem hagkerfið tekur. Það er ekkert bundið við Ísland. Norski olíusjóðurinn tapaði fjórðungi eigna sinna árið 2008! Og ein ástæðan fyrir því að ávöxtun LSR árið 2007 var nærri núllmarkinu þrátt fyrir mikinn fjárfestingargróða hér innanlands var að hlutafjáreign sjóðsins erlendis tók þá tímabundna dýfu á fjölþjóðlegum hlutabréfamörkuðum.
Höggið sem við fengum í efnahagshruninu gefur að mínu mati tilefni til umhugsunar um eftirfarandi spurningu: Rís íslenska hagkerfið undir því að að lífeyrissjóðir fjárfesti sextíu til áttatíu milljarða árlega? Samtals fjárfesta þeir um eitt hundrað og tuttugu milljarða en helminginn hafa þeir heimild til að fara með úr landi. Hér dugar ekki að spyrja hvort faðmurinn sé opinn fyrir slíkum fjárfestingum, heldur hvort þær séu líklegar til að gefa af sér þann arð sem lífeyrissjóðirnir telja sig þurfa til að rísa undir því réttinndakerfi sem sjóðirnir hafa skuldbundið sig til að veita.
Til samfélagslegrar uppbyggingar
Þetta tengist örðum þætti, nefninlega þeirri ósk margra að lífeyrissjóðirnir verði notaðir í ríkari mæli en gert hefur verið um skeið til að fjármagna samfélagslega verðug verkefni, uppbyggingu á innviðum samfélagsins. Því er ég mög eindregið fylgjandi. Ef þetta er hins vegar gert án milligöngu ríkis eða sveitarfélaga er hætt við að þessi góði ásetrningur snúist upp í að verða tæki til markaðsvæðingar á þessum sömu innviðum. Lífeyrissjóðirnir eru nefnilega - og því má ekki gleyma - fjárfestar sem horfa til hámarksávöxtunar. Hætt er við því að þeirrar ávöxtunar verði ekkert síður krafist af hjúkrunarheimilinu en öðrum fjárfestingum. Ef við förum út á þessa braut er líka hætt við því að fjárfestingarsólgnir lífeyrissjóðir verði þrýstiafl fyrir einkavæðingu. Það hefur gerst víða erlendis. Verkalýðssamtök hafa fundið sig í þeirri kostulegu stöðu að krefjast annars vegar hárrar ávöxtunar og hvetja síðan til mótmæla á einkavæddum stofnunum þar sem kjörum er haldið niðri og þjónustu að sama skapi, til að fá sem mestan arð.
Í þessu samhengi öllu verður að sjálfsögðu að halda því til haga að íslensku lífeyrissjóðirnir hafa að verulegu leyti staðið undir íbúðarlánum til landsmanna, með beinum lánum til sjóðfélaga og með því að fjármagna Íbúðalánasjóð. Þá hafa lífeyrissjóðir óbeint fjármagnað ýmsar framkvæmdir á vegum ríkis og sveitarfélaga með skuldabréfakaupum af þeim. Loks má nefna að lífeyrissjóðir hafa óbeint fjármagnað stóran hluta af byggingum elliheimila fyrir aldraðra með því að kaupa skuldabréf af íbúðalánasjóði, sveitarfélögum og Lánasjóði sveitarfélaga.
Auðlindasjóður fjármagni almannatryggingar
Ef líferissjóðirnir eiga að nýtast samfélaginu vel til uppbyggingar verða ríki og sveitarfélög að annast milligöngu með fjárfestingar. Lífeyrissjóðirnir gætu lánað fjármagn til uppbyggilegra verkefna en á mjög hagstæðum kjörum. Þarna færum við að nálgast gegnumstreymishugsun sem hugmyndin var að fjarlægjast með kerfisbreytingunum 1997. Reyndar áttu þær kerfisbreytingar sér miklu lengri aðdraganda því í reynd voru það bara opinberu sjóðirnir sem voru að hluta til gegnumstreymissjóðir þegar hér var komið sögu. En hugsunin á árunum 1996 og 1997 þegar þessi mál voru til umræðu var að smám saman tækju lífeyrissjóðirinr meira og minna yfir hlutverk almannatrygginga í lífeyriskerfi landsmanna. Ég er í reynd að leggja til að þessi áform verði endurkoðuð. Sjóðshluti lífeyriskerfisins verði minnkaður og fundinn stakkur sem betur hæfir vexti og nýtir peninga okkar í meira mæli í samfélagslega þágu.
Síðan mætti hugsa sér að nýr Auðlindasjóður, sem nú er í burðarliðnum, fengi það sérstaka hlutverk að fjármagna almannatryggingakerfi landsmanna.