Framtíðarnefnd á leið til fortíðar
Getur verið að Framtíðarnefnd Samfylkingarinnar viti ekki hvað snýr fram og hvað aftur? Fram vísar fram á við en fortíð tilbaka. Og þangað vill Framtíðarnefndin halda. Meira að segja langt aftur í fortíðina. Framtíðarnefndin telur það vera sérstakt framtíðarspor að innleiða markaðslögmál 19. aldarinnar inn í spítalana og skólana. Auðvitað á að setja markaðnum skorður, segir nefndin; en markaðurinn getur stuðlað að "hagfelldari" lausnum segir hún jafnframt. Þetta eru hugtökin. Ekki þykja verkalýðsfélögum í Bretlandi lausnir Tonys Blairs leiðtoga Verkamannaflokksins vera sérstaklega hagfelldar! Í smiðju hans hefur Framtíðarhópur Samfylkingarinnar greinilega leitað.
Vandinn er sá að Tony Blair er ekki heppilegur leiðsögumaður inn í framtíðina. Framfarasinnað fólk í Bretlandi, afskrifar þennan hægri krata nú í stórum hópum. Margir, sem hafa haft ímugust á pólitík hans allar götur frá því hann fyrst bauð sig fram sem forsætisráðherraefni, hafa talið sig tilneydda að kjósa hann yfir sig trekk í trekk, einfaldlega vegna þess að aðrir kostir hafa ekki verið í boði en Íhaldið. Verkalýðsfélögin eru fyrir löngu búin að fá upp í háls af árásum Blairs og félaga á velferðarþjónustuna. Einkaframkvæmd hefur verið boðorðið í breskum stjórnmálum í stjórnartíð hans um árabil með hörmulegum afleiðingum. Það sanna ítarlegar rannsóknarskýrslur sem unnar hafa verið á vegum verkalýðshreyfingarinnar. Aðrir hafa ekki sýnt áhuga á að kanna afleiðingar þessarar stefnu.
Morgunblaðið telur þessa afturhaldstóna innan úr Samfylkingunni sérstakt fagnaðarefni. Leiðari blaðsins í gær hefst með þessum orðum: "Athyglisverð hugmyndaleg endurnýjun fer nú fram innan Samfylkingarinnar í hinum svokallaða framtíðarhópi, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, varaformaður flokksins, stýrir. Ýmsar af þessum tillögum virðast miða að því að færa Samfylkinguna betur inn á miðju stjórnmálanna, sem er auðvitað eina vitið fyrir jafnaðarmannaflokk sem vill verða stór.." Æ, æ. Látum þetta með stærðina liggja á milli hluta. En hvers vegna segir Morgunblaðið að með þessu útspili sé Samfylkingin að færa sig inn á miðjuna? Hún er að færa sig yst á hægri kantinn.