Fara í efni

FRAMTÍÐARSÝN FJÁRFESTA

Birtist í DV 16.07.07.
Í fréttum Ríkisútvarpsins 30. júní sl. var viðtal við bæjarstjórann í Reykjanesbæ, Árna Sigfússon, um kaup og sölu á hlutum í Hitaveitu Suðurnesja. Þar kom fram að bæjarstjórinn var sérstaklega hlynntur fjárfestunum Glitni, FL Group og þeim öðrum sem koma fram undir heitinu Geysir Green Energy. Hvers vegna? Jú, vegna þess að honum þótti framtíðarsýn þeirra jákvæð og spennandi: "Við vorum í raun og veru mjög sátt við að Geysir Green kæmi inn í fyrirtækið miðað við það háa tilboð sem þeir lögðu inn og miðað við þá framtíðarsýn sem að þau hafa kynnt okkur. Það væri bara mjög öflugt fyrir Hitaveitu Suðurnesja að fá þá til samstarfs…"

Almenningur á að blæða

Ég efast ekki um að hér er mælt af heilindum en ég leyfi mér að halda því fram að mat bæjarstjórans á því sem framtíðin ber í skauti sér er óraunsætt. Eða hver skyldi yfirleitt vera framtíð Geysis Green Energy? Fyrirtæki koma og fara. Þau eru í höndum fjárfesta sem kaupa þessa eign einn daginn og aðra hinn, allt eftir því hvar mesta arðsemi er að finna hverju sinni. Nákvæmlega þess vegna eru fjárfestar á markaði ekki heppilegir eignaraðilar á grunnþjónustu samfélagsins sem þarf að búa við öryggi og festu, einnig - og ekki síst - þegar á móti blæs! Það vakti athygli að Geysir Green mat 15% eignarhlut ríkisins í HS á meira en þreföldu verði á við það sem ríkið hafði slegið á, 7,6 milljarða í stað 2,5. Fjárfestarnir töldu sig með öðrum orðum geta grætt á fjárfestingu sinni þótt þetta há upphæð yrði borguð fyrir eignarhlutinn.
Hver kæmi síðan til með að borga brúsann, fjármagna arðgreiðslurnar til fjárfestanna í Geysir Green? Að sjálfsögðu almenningur.

Á ekki að læra af reynslunni?

Það vekur athygli hve mikla peninga fjárfestar hafa handa á milli. Þeim er í lófa lagið að komast yfir almannaeignir ef þær á annað borð eru settar á markað. Almannaþjónustuna á ekki að markaðsvæða þannig að einstaklingar og fyrirtæki geti gert sér hana að féþúfu. Nánast alls staðar erlendis hefur markaðsvæðing raforkugeirans leitt til fákeppni og hærra raforkuverðs. Eigum við ekki að læra af reynslunni? Er það ekki gott verkefni fyrir framtíðina Árni?