Fara í efni

FREKAR VIL ÉG VERA FRJÁLS ÖREIGI EN SKULDUM VAFINN ÞRÆLL!

Sæll Ögmundur.
Niðurstaða Icesave ráðgátunar var á endanum sú að stjórnmálaforingjar Íslands ætla að láta þjóð sína, hina tryggu kjósendur sína borga brúsann fyrir endemis brjálaða frjálshyggju síðustu ára í boði 80% Alþingis og stjórnkerfis ríkissins. Nú eigum við erfiðara með að benda á Sjálfstæðismenn og segja, ja það voru þeir sem komu okkur í þessa klípu því nú hefur nýja vinstri stjórnin sem er reyndar ekki vinstri stjórn staðfest ásamt leppum sínum á Alþingi það að þjóðin eigi að borga... með fyrirvörum. Þessir fyrirvarar eru reyndar frekar skondnir því það verður að vera hagvöxtur í landinu til að við borgum, gott og vel. Segjum svo að ég sé með 100000 kall útborgað á mánuði og kaupi hús sem ég á að borga 30000 krónur af mánaðarlega. Hinsvegar hef ég gert samning við bankann minn að ég muni ekki hefja greiðslur fyrr en ég hef hækkað í launum um eitthvað X mikið. Þó ég bíði eftir hækkuðum launum í einhvern tíma og borgi ekki á meðan er summan af húsinu þarna enn. Þetta þýðir að ég er að fresta vandanum og lengja hann. Eða hvað? Þegar fjármálaráðherran og góður vinur þinn, hann Steingrímur formaður kvittaði undir með samþykki þingflokks síns það að við myndum standa við umsamdan samning sem Indriði Þ. og Svavar flokkseigandi áttu stærsta hlut að þá sá ég hvað í stefndi, við áttum að borga brúsann sama hvað hver segði. Hið ljúfa Ísland, sem hafði allt, hafið og fiskanna, fossanna, óspjallaða náttúru ásamt öllu því vatni sem því lysti svaf á verðinum, nú höfum við vaknað upp við martröð; raunveruleikann, við berum ábyrgð! Ástæðan fyrir því að ég sendi svona langloku á þig er sú að ég hélt, af öllu mínu hjarta að Ögmundur Jónasson hinn frábæri hugsjónamaður, reyndar sá maður sem ég lít hvað mest upp til hvað varðar stjórnmál, myndi ekki taka þátt í því að samþykkja skuldir sem ég, mín börn og allar næstu kynslóðir munu greiða. Ég segi eftir sem áður; það er betra að vera frjáls öreigi en skuldum vafinn þræll.
Ágúst Valves Jóhannesson