FREKJA FRJÁLSHYGGJUNNAR
Birtist í Morgunblaðinu 13.07.2009
Annan júlí sl. gráta Staksteinar Morgunblaðsins yfir ranglæti heimsins. Íslenskir fjármálamenn höfðu nefnilega haft uppi á norrænu fyrirtæki "sem sérhæfir sig í að flytja sjúklinga, m.a. af sænskum og norskum biðlistum til annarra landa og gera aðgerðirnar á kostnað þessara norrænu yfirvalda utan heimalandsins." Fjármálamennirnir og þeirra fulltrúar hafi leitað til mín, sem heilbrigðisráðherra, með hugmyndina. En viti menn, fréttir berist nú af því að ég hafi fundað með heilbrigðisráðherra Noregs um að „efla samstarf milli heilbrigðisstofnana í flutningi sjúklinga milli landa." Ég hafi haft á orði að ástæðulaust væri að hleypa milliliðum inn í slík samskipti enda kosti það sitt.
Stuldur?
Í framhaldinu gagnrýna Staksteinar tvennt: Ég hafi stolið viðskiptahugmynd: „Mega einkafyrirtæki sem leita með hugmyndir sínar til yfirvalda nú búast við því að þær verði ríkisvæddar séu þær arðbærar?" Hitt sem ritstjóri Morgunblaðsins finnur að er að inngrip heilbrigðisráðherrans sé á kostnað heildarhagsmuna og kosti peninga eða „reiknar hann með að þeir sem ekki fengu hugmyndina skili sama árangri og þeir sem hana fengu? Hvað reiknar hann með að eyða miklu í að koma hugmyndum annarra í verk? Hvað kostar að passa að milliliðirnir fái ekkert?"
Í fyrsta lagi er þessu til að svara að þetta eru ekki nýjar hugmyndir. Íslendingar hafa sent sjúklinga úr landi þegar þess hefur verið þörf, svo sem til hjartaaðgerða, líffæraígræðslna og fleiri flókinna meðferða og rannsókna. Eins hafa Íslendingar tekið við erlendum sjúklingum, sem hingað hafa verið sendir, bæði vegna bráðra og langvinnra veikinda. Allt þetta hefur verið gert í góðu samstarfi okkar og viðkomandi heilbrigðisyfirvalda erlendis.
Það sem vantar í söguna
Í öðru lagi horfir Staksteinahöfundur framhjá allri þeirri gagnrýnu umræðu sem fram fer á Norðurlöndum og í Evrópusambandinu um viðskipti yfir landamæri með heilbrigðisþjónustu. Þar er rætt um hvernig megi svo búa um hnúta að ekki verði grafið undan almannaþjónustu þjóðlandanna og að frelsi leiði ekki til ójöfnuðar og mismununar heimafyrir. Þennan þátt vantar í söguna hjá Morgunblaðinu og væri verðugt umfjöllunarefni fyrir blaðið.
Í þriðja lagi er það meintur kostnaður við að koma í veg fyrir milliliði í heilbrigðiskerfinu. Ég tel mikið á sig leggjandi til að koma í veg fyrir óþarfan milliliðakostnað. Til að hafa vítið til varnaðar þarf ekki annað en að horfa til dýrasta heilbrigðiskerfis veraldar - í Bandaríkjunum - sem hefur á sínu framfæri fjárfesta auk hers af lögfræðingum til að skera úr um vandamál sem koma upp í heilbrigðisviðskiptunum. Einnig þetta vantar í söguna hjá Morgunblaðinu.
Er ritstjóra alvara?
Þá er það nánast ótrúlegt að nú - eftir hrunið - skuli Morgunblaðið leyfa sér að taka þátt í því að stilla heilbrigðisyfirvöldum upp við vegg, þegar þau vilja fara varlega í að opna einkaaðilum leið inn í almannaþjónustuna. Hún er aldrei viðkvæmari en einmitt nú, þegar kreppir að, gagnvart aðilum sem segjast koma færandi hendi en eru í reynd að seilast ofan í vasa skattborgarans.
Eyjólfur Eysteinsson og Sólveig Þórðardóttir, sem sitja í stjórn Hollvinasamtaka Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og eiga sæti í samráðsnefnd á vegum heilbrigðisráðuneytisins um framtíð stofnunarinnar, segja í Morgunblaðsgrein nýlega að full þörf sé á því að nýta stofnunina „fyrir þjónustu við þá sem á Suðurnesjum búa." Undir þetta tek ég.
En ef erlendir bisnissmenn eru tilbúnir að koma með fólk aftarlega úr biðröðum í útlöndum sem greitt yrði fyrir með gjaldeyri? Gjaldeyrinn viljum við vissulega en ekki á hvaða forsendum sem er. Þannig værum við fæst tilbúin að fórna hagsmunum heimafólks fyrir vikið og ég þykist reyndar vita að þorri Íslendinga vilji í lengstu lög forðast að með viðskiptum af þessu tagi, verði lagður grunnur að tvöföldu heilbrigðiskerfi. Þess vegna á að fara að með gát þegar heilbrigðiskerfið er annars vegar. Það breytir ekki því að allar hugmyndir á að sjálfsögðu að skoða opnum huga. En í þessu samhengi er fullkomlega eðlilegt að ég skuli taka upp viðræður um samstarf við heilbrigðisyfirvöld í öðrum löndum; samstarf þar sem almanannahagur ræður og engin önnur sjónarmið.
Verðmæti samfélagsins
Varðandi þá hugsun að það séu bisnissmenn sem eigi allar góðu hugmyndirnar þá vísa ég henni til föðurhúsanna. Vandi bisnissmanna á undanförnum árum er hve mjög þeir hafa fjarlægst ýmsar gamlar dyggðir í atvinnurekstri svo sem áherslu á frumkvæði og verðmætaskapandi nýjungar. Til varð stétt manna sem hugsaði um það eitt að ná til sín verðmætum, sem samfélagið hefur þegar byggt upp fyrir skattfé. Vandi okkar sem samfélags er líka sá að okkur skortir meiri gagnrýni í opinberar umræður, að ekki sé minnst á hitt að dreginn sé lærdómur af óförum undangenginna ára.
Ég leyfi mér að spyrja: Erum við ekki búin að fá nóg af peningafrjálshyggjunni í bili? Eigum við ekki að gera þá kröfu til þeirra sem eru í bisniss að þeir einbeiti sér að hinum fjölmörgu tækifærum sem felast á öllum sviðum samfélagsins, framleiðslu hvers konar, tækninýjungum og hugviti? Er ekki rétt að leyfa því viðkvæmasta í kjarna samfélagsþjónustunnar, heilbrigðiskerfinu, að vera undir samfélagslegri stjórn og með samfélagslegt verðmætamat að leiðarljósi? Jafnrétti þegnanna er hvergi eins augljóst og mikilvægt og í heilbrigðiskerfi sem mismunar ekki.
Það er nóg komið af frekju frjálshyggjunnar.
Höfundur er heilbrigðisráðherra