„FRELSISINS MEGIN" ... HVAÐ ÞÝÐIR ÞAÐ?
Frá því Hanna Birna Kristjánsdóttir varð innanríkisráðherra hefur hún nokkrum sinnum fundið tilefni til að segja þjóðinni hve vel hún standi vörð um þjóðarpyngjuna með því koma í veg fyrir áform mín um að setja á laggirnar örstofnunina Happdrættisstofu. Nú síðast í viðtali við Morgunblaðið í vikunni sem leið. Reyndar hefur komið í ljós að það eru ekki hagsmunir þjóðarpyngjunnar sem ráðherrann ber fyrir brjósti heldur happdrættisiðnaðarins, sem veltir hátt í 20 milljörðum króna. Hugmundin var sú að taka af þessari veltu örgjald til þess, annars vegar að sinna forvörnum (eða öllu beina fjármagni til forvarna sem yrði á hendi annarra aðila), og hins vegar standa straum af kostnaði af eftirliti með happdrættisiðnaðinum.
Til þessara verkefna, forvarna og eftirlits átti að verja fimmtíu milljónum króna. Af minni hálfu var þetta lága gjald málamiðlun. Fyrirhugað gjald hefði verði brot af auglýsingakostnaði happdrættanna og má í því sambandi minna á auglýsingaherferð Happdrættis Háskóla Íslands þegar Háskólinn opnaði nýlega spilavíti við Lækjartorg í Reykjavík. Þá hefur það kostað sitt fyrir Íslandsspil að fjármagna fjárhættuspilaþætti í dagskrá Ríkisútvarpsins sl. haust. Sérfræðingar í auglýsingatækni hafa eflaust metið það svo að þetta sameiginlega átak Íslandsspila og RÚV myndi örva áhuga á fjárhættuspilum svo um munaði.
Í viðtali við Morgunblaðið síðastliðinn þriðjudag segist Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, vissulega eiga eftir að koma með frumvarp um happdrættismálin. Það frumvarp komi til með að verða „að hluta byggt á frumvarpi fyrri innanríkisráðherra" en „líkt og gefur að skilja má ætla að niðurstaðan úr þessari frumvarpsvinnu núna verði meira frelsisins megin en fyrra frumvarp"!
Fróðlegt verður að sjá á hvern hátt ráðherrann vill lyfta undir frelsi í íslenska happdrættisiðnaðinum. Hann er óbeislaðri en þessi iðnaður víðast hvar í löndunum í kringum okkur og hélt ég sannast sagna að ekki væri á bætandi. Ef til vill er það ætlun núverandi innanríkisráherra að setja þarna einhverjar skorður en þó alls ekki ganga eins langt til varnar almannahagsmunum og ætlun mín var, enda segir Hanna Birna Kristjansdóttir í Morgunblaðsviðtalinu að í gagnrýni sem borist hafi á mitt frumvarp hafi það „verið gegnumgangandi þema í þessum athugasemdum að happdrættin vilja aukið frelsi í þessari starfsemi."
Þetta eru mér litlar fréttir.
En það er víðar sem innanríkisráðherra vill standa vörð um frelsi af þessu tagi. Þannig hefur ráðherrann lýst stuðningi við fjárfesta sem nú heimta aukið svigrúm til að öðlast eignarhald á innviðum samgöngukerfisins, að vísu aðeins þar sem hægt er að græða! Í vikunni sem leið lét innanríkisráherrann þjóðina vita að hún gæti hugsað sér að slíkum fjárfestum verði boðið til borðs í Leifsstöð. Þar má vissulega græða.
En hvernig væri að í stað þess að ganga erinda pólitískra sálufélaga félaga sinna í viðskiptalífinu sem vilja nota ráðherra til að hjálpa sér að ná í pening, sjái ráðherrar og ríkisstjórnin sóma sinn í því að passa frekar upp á almannahag.
Leifsstöð á þjóðin - ennþá. Það er Isavia, sem er formlegur eigandi og rekur hana í umboði þjóðarinnar. Isavia, sem er í þjóðareign, hefur í hendi sér að bjóða út starfsemi innan flughafnarinnar eftir því sem gagnast starfseminni hverju sinni. Þannig hefur rekstur bílastæðanna verið boðinn út og tekin síðan aftur inn í reksturinn þegar útboðsaðilinn þótti of heimtufrekur í þeirri einokunarstöðu sem þarna ríkir. Þá þykir hafa gefið góða raun að bjóða tímabundið út ýmsa þjónustu svo sem þjónustu við fatlaða í flugstöðinni. En allt er þetta gert með hagsmuni skattborgara í huga. Ekki þá prívat-hagsmuni, sem ráðherrum og ríkisstjórn virðist umhugað um að hygla.
Er það annars þetta sem átt er við með því að vilja „standa frelsisins megin"? Ef það er svo má spyrja í framhaldinu hvort þetta sé ekki svolítið öfugsnúin notkun á hugtökum. Væri ekki nákvæmara og heiðarlegra að segjast standa með einkahagsmunum gegn almannahag?