"Frelsisvæðingin" og teknókratar í turnunum tveimur
Svo er komið í Bretlandi að ekki má á milli sjá hvor flokkurinn er hægri sinnaðri Verkamannaflokkurinn (Nýi Verkamannafl. eins og hann nú er oft nefndur, New Labour) undir forystu Tony Blairs eða Íhaldsflokkurinn. Frjálslyndi flokkurinn stendur sennilega vinstra meginn við þá báða nú um stundir þótt samkvæmt pólitískri hefð fylgi hann stefnu sem liggur á milli þessara flokka. Frjálslyndi flokkurinn hefur hins vegar aldrei náð sér vel á strik vegna kosningafyrirkomulagsins í Bretlandi. Einmenningskjördæmi, eins og þar eru við lýði, eru nefnilega sérhönnuð fyrir tveggja flokka kerfi. Vinstri menn hafa fyrir vikið undanfarin ár verið fangar þessa kerfis; setið uppi með Verkamannaflokk sem fer sínu fram í markaðshyggjupólitík vitandi að fylgið til vinstri telur sig ekki eiga annan valkost þrátt fyrir óánægju sína. Þetta er það sem Samfylkingin íslenska, kallar "tveggja turna" kerfi. Yfirfært á íslenska pólitík eiga turnarnir tveir að vera Sjálfstæðisflokkur annars vegar og Samfylking hins vegar. Í Kastljósi RÚV í kvöld heyrðum við sjónarmiðin úr turnunum tveimur auk þess sem Kolbrún Halldórsdóttir frá VG og Björn Ingi Hrafnsson frá Framsóknarflokki komu fram í einu þáttarbrotinu. Kolbrún benti réttilega á nauðsyn þess að hægt væri að velja á milli raunverulegra valkosta í stjórnmálum.
Ekki man ég hvort það kom úr munni talsmanns Sjáfstæðisflokksturnsins eða talsmanns Samfylkingarturnsins, að ágreiningurinn í nútímapólitík snerist um leikreglurnar í markaðsþjóðfélaginu, regluverkið. Öllu máli skipti á hvaða forsendum frelsisvæðingin ætti sér stað. Í umræðunni var þannig sett samasem merki á milli markaðsvæðingar og frelsisvæðingar. Ég saknaði þess að stjórnandi staldraði ögn við og spyrði hvort gæti verið að pólitík í samtímanum snerist, þegar allt kæmi til alls, að mjög takmörkuðu leyti um þetta, heldur fyrst og fremst um hitt, hvort rétt væri að einkavæða og markaðsvæða grunnþjónustu samfélagsins, síma og póst, vatnsveitur og rafmagnsveitur, heilbrigðisþjónustu og skóla? Ég held að við séum nokkuð mörg sem teljum að hin raunverulegu átök í samtímanum snúist um þessa þætti. Því miður hafa fyrrnefndir turnar hallað sér á sveif með fjármagnsöflunum í þessum átökum en keppast síðan við að láta líta svo út, að um reglugerðarverkið standi harðvítug átök. Staðreyndin er sú að um reglurnar ríkir allvíðtæk sátt í samfélaginu og þverpólitísk í ofanálag. Menn líta á þær sem teknókratískt viðfangsefni.