FRÉTTABLAÐIÐ OG SKIPAN Í HÆSTARÉTT
Í Fréttablaðinu hefur á undanförnum dögum verið fjallað um málaferli sem varða gróft ofbeldi og þá sérstaklega þá ákvörðun Hæstaréttar að verða ekki við beiðni brotaþola að meintur ofbeldismaður yrði ekki viðstaddur vitnaleiðslu enda stæði brotaþola ógn af nærveru hans. Án þess að ég þekki vel til þessa máls veit ég nóg til að finnast niðurstaðan slæm. Þótt Hæstiréttur telji að lagaleg rök hafi knúið sig til þessarar niðurstöðu - með tilvísan í hefðir - þá þykir mér ósannfærandi að ekki skuli hafa verið orðið við óskum konu um að manni sem hún segir hafa beitt sig ofbeldi - skuli gert að hlýða á vitnisburð hennar utan réttarsalar og ekki í augnsambandi við hana. Ef ákvöðrum Hæstaréttar byggir á hefð, þá hef ég sterka tilfinningu fyrir því að þessi hefð þurfi endurskoðunar við!
En hver skyldi bera ábyrgð á slíkum ákvörðunum Hæstaréttar? Væntanlega þeir sem skipað hafa í réttinn. Svo má ráða af umfjöllun Fréttablaðsins. Þannig hafði blaðið ítarlega fréttaskýringu um skipan í Hæstarétt og viti menn stórtækastur allra, sá sem „ekki hafði setið auðum höndum" í þessu efni var Ögmundur Jónasson. http://www.visir.is/g/2017170929556
Nú ætla ég ekki að fara að biðjast afsökunar á því fólki sem ég skipaði í Hæstarétt. Síður en svo. En mig langar hins vegar til að fara þess á leit við Fréttablaðið að það reyni að setja örlítið meira vit inn í fréttaflutning sinn. Það ætti að vera viðráðanlegt.
Fréttablaðið hefði þannig gjarnan mátt skoða lög um dómstóla þar sem kveðið er á um skipan hæstaréttardómara áður en ályktanir voru dregnar. Þessi lög hafa tekið nokkrum breytingum á undangengnum árum en árið 2010 var gerð sú breyting að skipunarvald ráðherra var stórlega takmarkað.
Lagagreinarnar sem lúta að þessu eru svohljóðandi:
[4. gr. a. [Ráðherra] 1) skipar fimm menn í dómnefnd til að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti hæstaréttardómara og héraðsdómara. Tveir nefndarmanna skulu tilnefndir af Hæstarétti, þar af annar þeirra sem formaður nefndarinnar, og skal að minnsta kosti annar þeirra ekki vera starfandi dómari. Tilnefnir dómstólaráð þriðja nefndarmanninn en Lögmannafélag Íslands þann fjórða. Fimmti nefndarmaðurinn skal kosinn af Alþingi. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir á sama hátt. Skipunartími í nefndina er fimm ár en þó þannig að skipunartími eins manns rennur út hvert ár. Sami maður verður ekki skipaður í sæti aðalmanns í nefndinni oftar en tvisvar samfleytt.
Dómnefnd skal láta [ráðherra] 1) í té skriflega og rökstudda umsögn um umsækjendur um embætti hæstaréttardómara. Í umsögn dómnefndar skal tekin afstaða til þess hvaða umsækjandi sé hæfastur til að hljóta embættið, en heimilt er að setja tvo eða fleiri umsækjendur jafna. Að öðru leyti setur ráðherra nánari reglur 2) um störf nefndarinnar.
Óheimilt er að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefnd hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur einn eða samhliða öðrum. Frá þessu má þó víkja ef Alþingi samþykkir tillögu [ráðherra] 1) um heimild til að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjanda sem fullnægir að mati dómnefndar öllum skilyrðum 2. og 3. mgr. 4. gr. Ráðherra skal þá leggja slíka tillögu fyrir Alþingi innan tveggja vikna frá því að umsögn dómnefndar er afhent honum eða innan þess tíma frá því að Alþingi kemur næst saman eftir að umsögn er fengin og verður tillaga að vera samþykkt innan mánaðar frá því að hún er lögð fram, ella er ráðherra bundinn af umsögn dómnefndar.] 3)
1)L. 162/2010, 151. gr. 2) Rgl. 620/2010. 3)L. 45/2010, 2. gr.
Eins og hér kemur fram eru miklar takmarkanir á aðkomu ráðherra að skipan í embætti hæstaréttardómara. Enda var lögunum breytt til þess að reisa skorður við pólitík í réttarkerfinu en skipun hæstaréttardómara hafði oftar en ekki verið harðlega gagnrýnd, með réttu eða röngu, á þeirri forsendu að stjórnmálaskoðanir hefðu þar skipt máli.
Eftir lagabreytinguna 2010 getur ráðherra vissulega gengið framhjá dómnefndinni að því leyti að hann getur farið með tillögu um hæstaréttardómara fyrir Alþingi en á því eru einnig takamarkanir eins og sjá má í lagaákvæðinu.
Skipan í embætti hæstaréttardómara í tíð minni sem dómsmálaráðherra réðst af því að embættin voru laus og þurfti að skipa í þau. Tvisvar stóð ég frammi fyrir því að gera upp á milli umsækjenda sem dómnefnd hafði talið jafnhæfa. Farið var yfir málin af kostgæfni í ráðuneytinu áður en komist var að ígrundaðri málefnalegri niðurstöðu sem ég síðan byggði skipan mína á. Þar var m.a. horft til reynslu og í öðru tilvikinu var einnig horft til kynjahalla í Hæstarétti þótt það eitt hafi ekki ráðið úrslitum.
Hér má sjá skrif Fréttablaðsins sem vísað er til: http://www.visir.is/g/2017170929556 og http://www.visir.is/g/2017170929282/hefur-ahyggjur-af-vidhorfi-haestarettar-til-tholenda-heimilisofbeldis