FRÉTTAMOLAR AF EUREC FUNDI
Ég leyfi mér að fullyrða að kröftugasta alþjóðasamband launnafólks er PSI, Public Service Int
Þar eru tvær einingar sem skarast, EPSU (Evrópska efnahagssvæðið) og EUREC sem tekur til allrar Evrópu. Í vikunnu hélt EUREC sinn árlega fund og var farið yfir starfið á þessum vettvangi. Mjög fróðlegt var að hlýða á fulltrúa frá mismunandi svæðum innan Evrópu lýsa ástandinu og þeim verkefnum sem unnið væri að. Tilhneigingin er alls staðar sú sama, einkavæðing almannaþjónustunnar, vaxandi miskipting og spilling.
Kommúnistar og kapitalistar tala einum rómi
Erfiðust er staða fátækustu ríkjanna en þau eru í suð-austurhluta álfunnar, löndum á borð við Moldovu sem lýst hefur verið sem "örbirgðarhorni Evrópu" ( Europe´s most desperate corner). Þangað streyma nú "sérfræðingar" sem ráðleggja ríkisstjórnunum að einkavæða almannaþjónustuna og beina kjarasamningum inn í fyrirtækin í stað þess að semja á víðtækum grundelli. Bumburnar berja alþjóðafjármálastofnanirnar, einkum Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, fyrir hönd alþjóðlegra auðhringa sem ásælast grunnþjónustustu samfélaganna, rafmagn, símaþjónustu, skolp, heilbrigðisþjónustu og annað sem þau geta makað krókinn á. Kommúnistastjórnir, svokallaðar í Austur Evrópu og sérfræðingar sem ganga erinda kapitalismans tala einum rómi þegar kemur að réttindum launafólks og lögum og reglum sem gilda eigi í samfélaginu. Réttindum skal haldið í algeru lágmarki að boði beggja.
Danskir "sérfræðingar" ráðleggja
Eftir heimsókn danskra "sérfræðinga" til Rúmeníu var ákveðið að breyta vinnulöggjöfinni þar í landi í átt til þrengingar réttinda. Sama uppi á teningnum í Moldovu. Eflaust gerist það á þessum bæjum sem öðrum þar sem við þekkjum betur til, að stjórnvöld reyna að skýla sér á bak við svokallaða sérfræðinga eða aðra aðila til að réttlæta óvinsælar aðgerðir sem eru þeim sjálfum sérstakt áhugamál. Þessu hlutverki þjónar Evrópusambandið einnig og ýmsar aðrar alþjóðastofnanir. Þannig gerist það víða í austanverðri og sunnanverðri Evrópu að hinir aðkomnu "sérfræðingar" eru sagðir segja, að vilji ríkin komast inn í Evrópusambandið skuli menn gleyma öllu sem heitir kjarabarátta með verkföllum.
Niðurstaðan af þessu öllu saman er síðan sú að alamannaþjónustan er einkavædd sem aldrei fyrr og fólki er þröngvað út úr verkalýðssamtökum. Aðferðafræðin er sú að almannaþjónustan er svelt þar til hún brotnar niður, og þannig er skapaður grundvöllur fyrir "nýjar" lausnir. Afleiðingarnar eru síðan vaxandi misskipting og misrétti. Gildir þá einu á hvaða stigi ferillinn er, niðurbotin almannaþjónusta, þar sem ávísuð lyf eru, svo dæmi sé tekið, hreinlega ekki fyrir hendi, eða þar sem einkavæðing hefur þegar átt sér stað og gjaldtaka hefur verið gerð að lausnarorði. Í slíku kerfi eiga hinir efnalitlu erfitt uppdráttar.
Hvað er til ráða?
Hvað gerir fólk við slíkar aðstæður? Sumir koðna niður, aðrir flýja land - frá Moldovu hefur ein milljón flust úr landi, nokkuð sem hlýtur að vera mikil blóðtaka fyrir þjóð sem telur 4,4 milljónir. Þriðji kosturinn er að berjast fyrir umbótum. Það er einmitt verkefni verkalýðshreyfingarinnar og á dagskrá EUREC fundarins var að leggja á ráðin um baráttu fyrir betra þjóðfélagi. Þótt aðstæður séu víða erfiðar fer því fjarri að menn hafi setið auðum höndum. Okkur var sagt frá fundum og seminörum þar sem upplýsingum var miðlað og reynt að efla samstöðuna. Það var t.d. frábært að heyra frá fundum í Serbíu þar sem aðskiljanleg verkalýðsfélög í landinu, sem ekki hafa getað ræðst við vegna óeiningar, komu saman. Verkefni þessara funda sem haldnir voru undir handarjaðri PSI var að ræða leiðir til að bæta réttarstöðu kvenna. Þetta varð til þess að skapa vinartengsl sem þegar hafa orðið til góðs í samstarfi viðkomandi samtaka á öðrum sviðum einnig.
Mönnum bar saman um að við ramman reip væri að draga því alþjóðakapítalisminn væri hvarvetna í stórsókn. Hann færi ránshendi um samfélögin og hinni umfangsmiklu einkavæðingu fylgdi auk þess geysileg spilling. Lífskjör almennings sem yrði fyrir barðinu á þessari þróun rýrnuðu á meðan afmarkaðir hópar fitnuðu sem aldrei fyrr og "keyptu annarra manna fótboltalið" eins og fram kom í máli fulltrúa frá Rússlandi. Fór ekki á milli mála að þar vísaði hann til rússneska stórþjófsins Abromovits, sem festi kaup á breska knattspyrnuliðinu Chelsea eins og frægt er orðið.