FRÉTTASKOT Á EYJU
Sæll Ögmundur.
Ég var að lesa hinn mæta fréttamiðil Eyjuna og sá þar í greinaflokknum „Orðið á götunni" að þið Árni Þór Sigurðsson flokksbróðir þinn hefðuð hvorki heilsast né tekið tal saman þegar þið „rákust hvor á annan fyrir tilviljun á Kastrup-flugvelli fyrir skömmu". (http://ordid.eyjan.is/2011/11/28/ekki-vid-jon-einan-ad-eiga/) Um þennan fund ykkar á Kastrup, ef fund skyldi kalla, er vísað í frétt frá miðjum nóvember í sama greinaflokki þar sem fram kemur að Árni Þór hafi fundið þig á Kastrup þegar þín var saknað á þingi. Þar kemur fram: „Um fjarvist Ögmundar Jónassonar var ekki vitað fyrr en til hans sást fyrir tilviljun á Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn síðdegis í gær. ... samflokksmaður Ögmundar, Árni Þór Sigurðsson, sá hann tilsýndar á Kastrup-flugvelli síðdegis í gær. ..." Ef mark er tekið á eldri fréttinni má draga þá ályktun að þið hafið verið einir til frásagnar um þennan fund og að heimildamaður Eyjunnar sé gerandinn í sögunni eða Árni Þór sjálfur. Það vekur hinsvegar forvitni hjá mér hver hefur sent inn viðbótarupplýsingar um hvernig samskiptum ykkar var háttað þennan dag á Kastrup. Sendir þú sjálfur fréttaskot á Eyjuna eða má ætla að það hafi verið Árni Þór sem hafi þar verið aftur á ferðinni?
Árni
Ég hef ekki gert athugasemd við þessa eða ýmsar aðrar "fréttir" Eyjunnar að undanförnu þótt full ástæða hafi verið til. Þú vísar í utanferð mína og umfjöllun Eyjunnar um hana. Bæði ríkisstjórn og formaður þingflokks höfðu verið upplýst um þessa ferð gagnstætt því sem þrástagast hefur verið á. Upplýsingagjöf til Eyjunnar þekki ég ekki. Því verða aðrir að svara.
Ögmundur