Fréttir frá Ríkisútvarpinu eða kosningaskrifstofu Bush?
Í hádegIsfréttum Ríkisútvarpsins var sagt frá áformum George W. Bush Bandaríkjaforseta að endurskipuleggja leyniþjónustu Bandaríkjanna, CIA, í ljósi þess að þaðan hefðu borist villandi upplýsingar um málefni sem tengjast Írak í aðdraganda innrásarinnar. Ljóst er að núverandi forseti og forsetaframbjóðandi Bandaríkjanna, George W. Bush, ætlar að reyna að þvo hendur sínar af rangfærslum, fölsunum, blekkingum og brellum til að villa almenningi sýn og réttlæta þannig árásina á Írak með því að fórna nokkrum leyniþjónustumönnum. Staðreyndin er sú að æðstu valdamenn Bandaríkjanna í utanríkismálum höfðu löngu fyrir valdatöku Bush, þegar á árinu 1998, krafist árásar á Írak í þágu bandarískra olíuhagsmuna. Frægt er þegar fyrrum fjármálaráðherra í stjórn Bush, erkiíhaldsmaðurinn Paul O´Neill, skýrði frá því að á fyrstu ríkisstjórnarfundum forsetans rétt eftir valdatökuna, hefði forsetinn skýrt frá áformum um að ráðast á Írak, það hefði verið ákveðið, find me the reasons, finnið fyrir mig ástæðurnar. Það varð síðan verkefni CIA. Skal leyniþjónustunni nú fórnað (að sjálfsögðu aðeins tímabundið) í þágu kosningahagsmuna forsetans. Í fullri vinsemd spyr ég: Þarf Ríkisútvarpið ekki að kafa aðeins dýpra í málin og sýna okkur hvert samhengi hlutanna er? Annars gætum við ruglast á því hvort við erum að hlusta á Útvarp Reykjavík eða kosningaskrifstofu bandaríska repúblikanans Bush.
Hér eru m.a. slóðir á greinar um tengt efni sem aftur vísa á slóðir þar sem m.a. er fjallað um bréfaskriftirnar frá 1998. Sjá m.a. hér og hér og hér