Fara í efni

FRÉTTIR ÚR KAUPHÖLLINNI

Ég sæki mikið inn á heimasíðu Kauphallar Íslands mér til skemmtunar og fróðleiks. Þar má finna fregnir af flóknum málum sem ekki er alltaf auðvelt að skilja en með skýrri og skorinorðri framsetningu renna margslungnir innviðir viðskiptalífsins ofan í mann eins og sykurlegnar pönnukökur. Ég vil t.d. benda á eftirfarandi tilkynningu um fyrirhugaðan flutning á eignarhaldi, sem birtist á vefnum sl. föstudag, nánar tiltekið kl. 17:10:20. Tilkynningin þessi er gott dæmi um þann tærleika í framsetningu sem svífur yfir vötnunum á kauphallarvefnum:

Stjórn Exista ehf., kt. 610601-2350, Tjarnargötu 35, 101 Reykjavík, hefur ákveðið að frá og með 12. október nk. muni 16,98% hlutur í Kaupþing banka hf., 100% hlutur í Meidur Holding S.á.r.l. (sem aftur á 21.68% hlut í Flaga Group hf.), 100% hlutur í Bakkabraedur S.á.r.l. (sem aftur á 27,25% hlut í Bakkavör Group hf.) og 1,86% hlutur Exista ehf. í Bakkavör Group hf., færast beint undir hollenskt eignarhaldsfélag, Exista B.V., sem er að fullu í eigu Exista Holdings B.V., sem er að fullu í eigu Eignarhaldsfélagið Exista ehf, sem er að fullu í eigu Exista ehf. Meidur Holding S.á.r.l. og Bakkabraedur S.á.r.l. verða leyst upp í framhaldinu þannig að Exista B.V. verður beinn eignaraðili að öllum hlutum félagsins í Bakkavör Group hf., Kaupþing banki hf. og Flaga Group hf.

Eignatengslin skil ég auðvitað vel og eins markmiðin með þessari miklu og snjöllu uppstokkun. Eina sem bögglast aðeins fyrir mér eru fyrirætlanirnar með þá Bakkabræður. En sjálfsagt er það allt saman algert aukaatriði og kannski svona sambærilegt því sem strákurinn minn sagði við mig um daginn: “Það voru einu sinni þrír bræður sem allir hétu Gísli - nema Eiríkur, hann hét Helgi.”

Þjóðólfur