Fara í efni

FRJÁLS PALESTÍNA

DV
DV

Birtist í DV 03.10.12.
Palestína er ekki frjálst land. Jafnvel sá hluti landsins sem Palestínumenn sjálfir byggja er sundurtættur og víggirtur og vaktaður varðmönnum Ísraelsríkis. Þessu hefur heimsbyggðin fengið að kynnast um áratugaskeið og sum okkar af ferðum okkar um Palestínu en þangað fór ég ferð árið 2005 í för sem aldrei mun líða mér úr minni.
Ég fór víða um og sendi heim pistla daglega og setti inn á heimasíðu mína. Ég ræddi við fjölda Palestínumanna en einnig fulltrúa almennra borgara í Ísrael sem andvígir voru hernámsstefnu ríkisstjórnar sinnar. Það var hugrakkt fólk.
Þegar haldið var heim á leið fékk ég að kynnast því í fyrsta skipti að vera berháttaður á flugvelli. Það var í Tel Aviv en svo áhugasamir voru leitarmenn um mína persónu að þeir létu sér ekki nægja að klæða mig úr fötunum heldur héldu þeir tölvunni minni eftir í landinu og fékk ég hana ekki að nýju fyrr en að nokkrum vikum liðnum. Svo smávægilegt þótti mér það þó í samanburði við allt sem ég hafði séð að ég lét þessa aldrei getið opinberlega.
Hinu hamraði ég á, kynþáttamúrunum, eftirlitinu, ofbeldinu - hinni daglegu kúgun.
Þeim sem stíga inn á opnberan vettvang alþjóðasamskipta ber að láta frá sér heyra um mannréttindabrot sem þeim vettvangi tengjast. Það gera þó fáir. Flestir flytja áferðarfallegar ræður, bragðdaufar og svo lítið andar yfirleitt frá opinberu ræðuhaldi að ekkert er hreyft við lognmollunni. Þess vegna fær ofbeldið þrifist.

Góð ræða Össurar

Í þessu ljósi þótti mér einstaklega ánægjulegt að lesa ræðu Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í lok síðustu viku. Þar ræddi hann á mjög afdráttarlausan hátt um ofbeldið gegn Palestínumönnum og setti fram þá afdráttarlausu kröfu að kynþáttamúrarnir yrðu rifnir niður og mannréttindin virt.
Hann minnti á að á Alþingi Íslendinga hefði verið samþykkt án nokkurs mótatkvæðis að Palestína skyldi viðurkennt sem sjálfstætt og fullvalda ríki.
Utanríkisráðherra Íslands fjallaði einnig um önnur mál þar sem mér þóttu áherslur hans góðar og nefni ég þar sérstaklega aðfinnslur gagnvart getuleysi Öryggisráðsins að taka á hryllingsmálum á borð við fjöldamorðin í Sýrlandi og málefnum Palestínumanna. Orðrétt sagði Össur Skarphéðinsson: „Sannleikurinn er sá að Öryggisráðið er orðið að hindrun sem kemur í veg fyrir að lausnir verði fundnar á málum af því tagi sem nú er uppi í Sýrlandi. Við verðum að breyta Öryggisráðinu, þannig að það verði verkfæri, ekki hindrun til lausnar slíkum atburðum sem nú í ár eiga sér stað í Sýrlandi - eða eins og gerðist í fyrra varðandi aðildarumsókn Palestínu."  

Öryggisráðið og fortíðin

Undir þetta sjónarmið vil ég heilshugar taka. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna eins og það er skipulagt eru leifar gamallar heimsvaldastefnu og skiptingar heimsins í áhrifasvæði stórveldanna. Þar eiga þau sína fulltrúa sem hafa neitunarvald. Það gerir það að verkum að sjái stórveldin eigin hagsmunum á einhvern hátt ógnað, hika þau ekki við að beita neitunarvaldi sínu.
Reynslan sýnir að smærri ríki sem tímabundið drepa niður fæti í Öryggisráðinu fá litlu áorkað auk þess sem mikið er gert af hálfu hinna stóru bræðra og systra að kæfa raddir þeirra eða þvinga þau til undirgefni við eigin hagsmuni. Um þetta eru til fjöldamörg dæmi sem ég áður hef margoft vakið máls á í ræðu og riti.
Það var mikið lán fyrir Ísland á sínum tíma að fá ekki inngöngu í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Það varð aldrei að veruleika sem betur fer þótt mikið væri reynt.

Íslandi til sóma

 Íslendingar eiga sér hins vegar verðug verkefni á alþjóðavettvangi. Alþjóðadeild Slysavarnarfélagsins Landsbjargar hefur sýnt og sannað að um okkur munar í björgunarstarfi í nátturhamförum og íslenskt hjúkrunarfólk hefur að sama skapi staðið sig vel við erfiðar aðstæður. Þá hafa íslenskir vísindamenn hlutverki að gegna í rannsóknum hvort sem er á sviði jarðvarma eða lífríkis sjávar svo mikilvæg dæmi séu nefnd.
Síðast en ekki síst á rödd Íslands að hljóma um alla heimsbyggð um mannréttindi líkt og gerðist í ræðu Össur Skarphéðinssonar á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Ræða hans þar var Íslandi til sóma og öðrum vonandi til eftirbreytni.